Hver er þín hugmynd að nýtingu St. Jó?

Starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala leggur mikla áherslu á að fá hugmyndir frá bæjarbúum um framtíð húsnæðisins. Opnuð hefur verið netgátt þar sem hægt er að koma hugmyndum á framfæri við hópinn. Farið er með allar hugmyndir sem trúnaðarmál ef óskað er eftir því. Starfshópurinn mun vinna úr innsendum tillögum auk annarra hugmynda og skila niðurstöðum sínum til bæjarráðs eigi síðar en 15. október næstkomandi.

Nánar um húsið og skilmála er lúta að nýtingu þess:
Með kaupum á húsnæðinu skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að reka almannaþjónustu í fasteigninni að lágmarki í 15 ár frá undirritun samningsins við ríkið.

Hér er um að ræða fyrrum sjúkrahús á fjórum hæðum í nokkrum samföstum byggingum ásamt kapellu. Stærð hússins er 2.829 m² og er húsið byggt á árunum 1926, 1973 og 2006. Byggingin stendur á 4.467,2 m² eignarlóð sem skilgreind er sem lóð undir samfélagsþjónustu. Við kaupin skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að reka almannaþjónustu í fasteigninni að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings. Með almannaþjónustu er átt við starfsemi vegna félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menningar- eða fræðslustarfsemi eða aðra sambærilega þjónustu sem almenningur sækir í sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær skuldbindur sig jafnframt til hefja rekstur í fasteigninni innan 3 ára frá undirritun samnings. Kaupverð er 100 milljónir króna og fer afhending á eign fram 15. ágúst 2017. 

*Starfshóp um framtíð St. Jósefsspítala skipa: Elvu Dögg Ásudóttur Kristindóttur, Sigríður Björk Jónsdóttir, Karl Guðmundsson, Guðrún Berta Daníelsdóttir formaður nefndarinnar og Sigríður Kristinsdóttir sviðstjóri stjórnsýslusviðs sem er verkefnisstjóri hópsins.

Velkomin á MsH.is!

Í vikudagatalinu segir "fimmtudagur til frægðar" og við trúum því fastlega og settum því nýja vefinn okkar í loftið í dag. Á vefnum er og verður að finna margvíslegar upplýsingar um það sem er að gerast í bænum á fréttasíðu og viðburðadagatali. Við verðum með fyrirtæki vikunnar þar sem við kynnum tvo fyrirtæki í hvert sinn við byrjum á Ásafl og Íshestum. Yfirlit yfir aðildarfélögin okkar sem nú eru alveg að detta í að telja 75. Upplýsingar um þau fjögur hverfafélög sem Markaðsstofan setti á stofn. Og svo verðum við með markaðstorg þar sem aðildarfyrirtækjum MsH gefst tækifæri á að birta ýmis tilboð sem þau eru að bjóða viðskiptavinum sínum. Upplýsingar um MsH og margt fleira.

Vefurinn verður lifandi og mun taka breytum og þróun eins og þurfa þykir. Munum nota næstu daga til að fínpússa vefinn aðeins til.

Vonum að þið hafið gagn og gaman af vefnum og endilega sendið okkur ábendingar um efni og efnistök hér.

Nýtt aðildarfyrirtæki Hárbeitt hárstofa

Nýtt aðildarfyrirtæki Markaðsstofunnar Hárbeitt hárstofa eigendur eru hjónin Árni Eiríkur Bergsteinsson og Sigurborg Íris Hólmgeirsdóttir. Á Hárbeitt starfa auk þeirra hjóna þau Ingólfur, Guðjón, Kristófer og Auður. 

Hárbeitt á sér tæplega 40 ára sögu hér í Hafnarfirði en hún var stofnuð árið 1979 þá að Reykjavíkuvegi 50 en þau hjónin keyptu stofuna árið 1990 og færðu sig í núverandi húsnæði að Reykjavíkurveg 68 í nóvember 1999.

Bjóðum Hárbeitt hárstofu velkomið um borð í Markaðsstofuna.

Taktu þátt í að skipuleggja starfsemi í St. Jósefsspítala

Laugardaginn 2. september næstkomandi býður starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala uppá  opið hús í St. Jósefsspítala á milli kl. 13 og 15. Boðið verður upp á leiðsögn um húsnæðið og gestum gefst síðan kostur á að koma á framfæri sínum hugmyndum um framtíð húsnæðisins.  Nú hefur Hafnarfjarðarbær eignast allt húsnæðið sem er alls um 3.000 fermetrar og skuldbundið sig til að reka almannaþjónustu í húsinu a.m.k. næstu 15 árin. Því má segja að hér sé um einstakt tækifæri að ræða. 

Starshópurinn leggur mikla áherslu á að opna fyrir hugmyndir frá bæjarbúum og með það að leiðarljósi hefur hópurinn opnað netgátt þar sem hægt er að koma hugmyndum á framfæri við hópinn. Óskað er eftir hugmyndum einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja um starfsemi sem myndi glæða þetta sögufræga hús lífi og vera Hafnfirðingum og gestum þeirra til sóma og gleði.

Hafnfirðingar og annað áhugafólk er hvatt til að koma á opna húsið og kynna sér þetta sögufræga hús og senda inn tillögur um framtíðarstarfsemi í húsinu. Það verður heitt á könnunni og allir velkomnir að sjálfsögðu.

Hér senda má inn hugmyndir til starshópsins. Farið er með allar hugmyndir sem trúnaðarmál ef óskað er eftir því. Starfshópurinn mun vinna úr innsendum tillögum auk annarra hugmynda og skila niðurstöðum sínum til bæjarráðs eigi síðar en 15. október næstkomandi.

 

 

Kraftajötnar, rokk, gleðiganga og víkingar!

Skemmtileg og viðburðarrík helgi framundan að vanda hér í Hafnarfirði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Á föstudag er um um að gera að skella sér á "Suðurlandströllið 2017" þar sem sterkustu menn Íslands munu keppa í Hleðslu og Bændagöngu föstudaginn 11. ágúst og hefst keppnin kl. 16:00 við verslunarmiðstöðina Fjörð.

Þegar þið eruð búin að fylgjast með Suðurlandströllunum er um að gera að skella sér á hina árlega hátíð „Rokk í Hafnarfirði“ sem haldin er fyrir utan Ölstofu Hafnarfjarðar Flatahrauninu. Hátíðin í ár verður enn stærri og sterkari en í fyrra segja aðstandendur hátíðarinnar, enda frábærar hljómsveitir og tónlistafólk sem ætla að leggja Ölstofunni lið til að gera hátíðina sem veglegasta. Tónleikarnir hefjast kl.18:00 í dag föstudaginn 11. ágúst.

Síðan fagnar Rimmugýgur 20 ára afmæli sínu með stæl og blæs til tveggja daga Víkingahátíðar á Víðistaðatúni 12 - 13. ágúst. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. Eitthvað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hafnarfjarðarbær mun svo að sjálfsögðu taka þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga, laugardaginn 12. ágúst og eru Hafnfirðingar hvattir til að koma með í gönguna. Í ár mun Hafnarfjarðarbær birtast í bleikum lit undir slagorðinu: Ég er!

Nýtum vettvang hverfafélaganna

Á haustmánuðum boðaði Markaðsstofan til fundar með fyrirtækjunum í bænum og sett voru á  stofn fjögur hverfafélög fyrirtækja á Hraunum, Völlum, hafnarsvæði og Holti og í miðbæ. Markmiðið með hverfafélögunum er að efla og auka sýnileika fyrirtækjanna í bænum, kortleggja og forgangsraða hvaða verkefni þarf að fara í á hverju svæði, skapa samráðsvettvang og efla tengslanet fyrirtækjanna. Þetta kemur einnig til að einfalda og auðvelda upplýsingarflæði og samskipti við fyrirtækin - búa til eina gátt. Stofnaðir hafa verið Facebookhópar fyrir hvert hverfi og endilega skráið ykkur inn á þær síður og bjóðið fyrirtækjunum í kring.

 

Erum við að leita að þér!

Á aðalfundi MsH 18. maí n.k. verður kosið um sæti fjögurra stjórnarmanna. Varamenn teljast þeir sem næstir eru inn á grundvelli atkvæðafjölda. Rétt er að geta þess að í tillögum að breytingum á samþykktum MsH er lagt til að fjölga varamönnum úr einum í tvo. Samkvæmt samþykktum MsH hafa aðeins þeir sem greitt hafa árgjald að stofunni fyrir árið 2017, kjörgengi og kosningarétt til stjórnarkjörs á aðalfundi. Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi. Hvetjum alla áhugasama félaga til að gefa kost á sér í stjórn MsH. Rétt er að taka fram að ekki er greitt fyrir stjórnarsetu. Hægt er að bjóða sig fram á fundinum eða senda póst á asa@msh.is.