Back to All Events

Safnanótt í Byggðasafni Hafnarfjarðar

Byggðasafnið, Bókasafnið og Hafnarborg opna dyr sínar fram á kvöld og bjóða uppá skemmtilega dagskrá á Safnanótt föstudaginn 2. febrúar frá kl. 18-23.

 Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð - www.vetrarhatid.is - sem stendur yfir dagana 1. – 4. febrúar. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í hátíðinni. Skemmtileg og fjölbreytt dagskrá verður í söfnum víða um höfuðborgarsvæðið og mun Safnanæturstrætóinn sjá um að keyra gestum á milli safnanna. Safnanæturleikurinn verður í gangi - laufléttar spurningar og stimplar frá mismunandi söfnum. Þátttökublað verður hægt að nálgast á öllum söfnum sem taka þátt í Safnanótt.

 
Byggðasafn Hafnarfjarðar

 - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

 •  18:00-23:00 – Eins og tíminn standi í stað
  Það er líkt og tíminn standi í stað í Sivertsens- húsi, elsta húsi Hafnarfjarðar. Þar er Maddama Rannveig að leggja á borð fyrir væntanlega gesti. Hún ber faldbúning sem hæfir hennar stétt og stöðu. Hr. Sivertsen situr á skrifstofunni og veltir fyrir sér hvort heimur batnandi fer. Börnin, Sigurður og Járngerður Júlía hafa brugðið sér af bæ. Í Sivertsens- húsi er hægt að líta augum fjölda muna sem voru í eigu Sivertsens hjóna.
   
 •  18:00-23:00 – Pakkhúsið
  Pakkhúsið, aðal sýningahús Byggðasafns Hafnarfjarðar, verður opið á Safnanótt.
   
 •  18:00-23:00 – Fortíðarflakk í Byggðasafninu
  Skemmtilegur og fróðlegur ratleikur fyrir fjölskylduna sem leiðir gesti um safnið.
   
 • 19:00-23:00 – Baðstofuverkin
  Annríki - Þjóðbúningar og skart verða í Pakkhúsi Byggðasafnsins á safnanótt. Þau munu mæta í sínum margrómuðu þjóðbúningum og sýna okkur ýmis verk sem áður fyrr voru unnin í vetrarmyrkrinu í baðstofunni. Annríki – Þjóðbúningar og skart sérhæfir sig í öllu er viðkemur íslenskum þjóðbúningum. Fyrirtækið er rekið af hjónunum Ásmundur Kristjánsson og Guðrúnu Hildi Rosenkjær. Ásmundur er vélvirki og gullsmiður en Guðrún Hildur Rosenkjær er klæðskera- og kjólameistari og sagnfræðinemi. Ef þú vilt vita um allt um baðstofuverkin og þjóðbúninga komdu þá í heimsókn á Safnanótt.
   
 • 19:00, 20:00 og 21:00 Á léttum nótum.
  Nemendur úr Tónhvísl og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar leika blandaða tónlist.
   
 • 20:30 og 21:30 Sveinn fæðist í Sivertsens- húsi, brot úr endurminningum Knud Zimsen
   
 • Kl. 20:30 og 21:30. Lárus Vilhjálmsson les upp úr bókinni " VIÐ FJÖRÐ OG VÍK".
  Brot endurminninga Knud Zimsen er fæddist í Sivertsens- húsi árið 1875. Saga stráks fyrir tíð rafmagns, bifreiða og síma.
   
 •  18:00-23:00 – Magnaðir munir í myrkrinu.
  Beggubúð fyrir tíma rafmagns. Ljósin verða slökkt, búðin lýst upp með rafmagnskertum og gestir skoða safnið með vasaljósum.
Earlier Event: February 2
Safnanótt í Hafnarborg
Later Event: February 3
Sundlauganótt í Ásvallalaug