Back to All Events

Kór Öldutúnsskóla Heyr mitt ákall! (þú búningur kær) - Hafnarfjarðarkirkju

Fjáröflunartónleikar og búningasöfnun.

Á tónleikunum verður flutt fjölbreytt efnisskrá af Kór Öldutúnsskóla, fyrrum kórmeðlimum og öðrum velunnurum kórsins. Meðal þeirra sem koma fram eru mæðgurnar Hanna Björk Guðjónsdóttir og Björg Birgisdóttir söngkonur en þær sungu báðar í kórnum og var mamman einmitt í þeim hópi sem frumsýndi téðan búning 1982. Erla Mist Magnúsdóttir söngnemi mun koma fram en faðir hennar Ívar Helgason söngvari og leikari söng einnig í kórnum. Einnig kemur fram Kampavínskvintettinn sem hefur getið sér gott orð víða um land. Og svo verður með okkur hirðpíanisti kórsins í mörg ár, hinn ástsæli Agnar Már Magnússon.

Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Við gerum tilraun til að safna inn kórbúningum sem liggja í kössum og kistlum heima hjá fyrrum kórfélögum. Einnig söfnum við fé fyrir hönnun og framleiðslu á nýjum búningum.
Kór Öldutúnsskóla var stofnaður 22. nóvember 1965 og er hann því elsti barnakór landsins sem hefur starfað samfellt. Eins og gefur að skilja þá hefur kórinn oft þurft að skipta um búninga en þó ekki eins oft og langur starfsferill kórsins gefur til kynna. Ástæðan er sú að árið 1982 lét kórinn framleiða hina annáluðu bláu batikbúninga sem hann hefur klæðst æ síðan. Búningurinn er hannaður af Katrínu Ágústsdóttur batiklistakonu. Eins og gefur að skilja þá hafa búningarnir látið á sjá og hafa margir foreldrar þurft að lagfæra þá og gera við í gegn um tíðina og eru því margir þeirra (búningarnir) orðnir slitnir og velktir.
Kaffisala og spjall.

Eftir tónleikana verða kórbörnin með kaffisölu í Hásölum þar sem fyrrum kórmeðlimir geta hitt aðra gesti og rifjað upp góðar minningar. Allir sem eiga búning heima mega gjarnan taka þá með sér og setja í þar til gerðar tunnur í anddyri kirkjunnar. Einnig er hægt að koma þeim upp í Öldutúnsskóla. Þeir sem vilja styrkja búningasjóð en komast ekki á tónleikana geta lagt inn á búningareikning kórsins:
545 14 406004
kt. 671277 0159

Bakarameistarinn, Kökulist, Brikk, Gæðabakstur og Kaffitár styrkja kórinn í þessari söfnun og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.