Back to All Events

Hádegistónleikar Hafnarborgar með Guju Sandholt

Hádegistónleikar Hafnarborgar með Guju Sandholt allir velkomnir og ókeypis aðgangur.

Þriðjudaginn 6. mars kl. 12 er komið að óperusöngkonunni Guju Sandholt að stíga á stokk í Hafnarborg og mun hún flytja aríur eftir Händel, Johann Strauss Jr, Mascagi og Wagner ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara og listrænum stjórnanda hádegistónleikanna. Á undanförnum árum hefur Guja komið fram sem mezzó-sópran en vinnur nú smám saman að því að færa sig upp um rödd á svið sóprans. Verkin sem þær Antonía hafa valið til flutnings endurspegla þetta og til gamans titla þær tónleikana „Klæðskipti og raddbreytingar í hádeginu“.

Guja Sandholt býr í Amsterdam í Hollandi og starfar þar sem sjálfstætt starfandi söngkona. Á undanförnum árum hefur hún unnið við ýmis verkefni í Hollandi, Þýskalandi, Íslandi og víðar en hún er einnig listrænn stjórnandi Óperudaga sem haldnir verða í annað skipti haustið 2018. Guja kemur reglulega fram með Hollenska útvarpskórnum og sem einsöngvari í óratóríum, óperum og á ljóðatónleikum. Hún hefur sungið einsöngsparta í verkum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach; Requiem eftir Mozart og Duruflé; Stabat mater eftir Dvorak, Arvo Pärt, Pergolesi og Abos; Messías eftir Handel og Messu í C eftir Beethoven. Einnig hefur hún komið fram á hátíðum eins og Operadagen Rotterdam, Grachtenfestival, Holland Festival og Over het IJ Festival í Amsterdam. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð. Í janúar síðastliðnum sótti hún námskeið fyrir dúó í Skotlandi ásamt píanistanum Heleen Vegter hjá einum fremsta meðleikara heims, Malcolm Martineau.Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Hún sækir nú reglulega tíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.