Back to All Events

Austurvígstöðvarnar í Bæjarbíói

Ljóðapönksveitin Austurvígstöðvarnar sendi frá sér hina umdeildu hljómplötu Útvarp Satan í sumar og vakti hún talsverða eftirtekt ekki síst fyrir hárbeitta ádeilutexta Davíðs Þórs Jónssonar.

Í tilefni af útgáfu plötunnar hafa Austurvígstöðvarnar verið duglegar við tónleikahald og spilaði hljómsveitin meðal annars á rokkhátíðinni Eistnaflugi í sumar við góðar undirtektir. Nú er komið að útgáfutónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði þar sem Útvarp Satan verður leikin í heild sinni.

Austurvígstöðvarnar voru stofnaðar á Reyðarfirði árið 2016 og markmið sveitarinnar hefur frá upphafi verið að flytja blóðhráa, grimmpólitíska og andfasíska pönktónlist. Hljómsveitina skipa: Davíð
Þór Jónsson, Díana Mjöll Sveinsdóttir, Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, Jón Hafliði Sigurjónsson, Jón Knútur Ásmundsson og Þórunn Gréta Sigurðardóttir.

Á tónleikunum kemur einnig fram hin goðsagnakennda pönkhljómsveit Saktmóðigur sem er flestum rokkunnendum á Íslandi vel kunn en sveitin gaf nýlega út sína áttundu afurð, breiðskífuna Lífið er lygi. Saktmóðigur hefur leikið á ótal tónleikum í gegnum tíðina og síðustu ár hefur sveitin átt fastan sess á rokkhátíðinni Eistnaflugi. Sendi Saktmóðigur m.a. frá sér afmælisbraginn Eistnaflugsdans í tilefni af tíunda Eistnafluginu árið 2015.

Tónleikarnir verða haldnir í Bæjarbíói, Hafnarfirði, þriðjudaginn 4. september. Húsið opnar 19:30 og talið verður í fyrsta lag stundvíslega klukkan 20:30. Helgi Seljan, sjónvarpsmaðurinn góðkunni, mun kynna böndin á sviðið og halda uppi stemmningu á milli atriða.