Samstarfssamningar vegna menningar- og viðburðahalds

Markaðsstofan hefur sent menningar- og ferðamálanefnd, með afriti til bæjarstjóra og bæjarstjórnar, eftirfarandi erindi. 

Efni:  Samstarfssamningar vegna menningar- og viðburðahalds.

Markaðsstofa Hafnarfjarðar hvetur Hafnarfjarðarbæ til að endurskoða þær styrkveitingar til menningar- og viðburðahalds í bænum m.t.t aukins fjármagns og efla þannig  og um leið styðja við þá aðila sem vinna óeigingjarnt starf við að bæta og hlúa að menningarlífi í bænum. Lagt er til að teknir verði upp samstarfssamningar til allt að þriggja ára og að úthlutun styrkja verði færð framar í tíma og liggi fyrir í byrjun árs.

Samstarfssamningar styðja að og stuðla að öflugu viðburðahaldi í bænum. Auk þess sem þeir gera þeim aðilum sem að viðburðunum í bænum standa kleift að skipuleggja sig betur og sjá fram í tímann þannig að ekki ríki óvissa fram á síðustu stundu hvort af viðburðinum geti orðið. Fjárhagslegt öryggi viðburðarins er grundvöllur til þess að geta skipulagt fram í tímann. Samstarfssamningar til lengri tíma myndu gjörbreyta öllu undirbúningsferlinu fyrir þá aðila sem hyggjast standa vörð um menningar- og viðburðar hald í bænum.

Slíkir samstarfssamninga hafa verið í gildi hjá Reykjavíkurborg og því þarf ekki að finna upp hjólið í þeim efnum heldur er hægt að taka það besta þaðan og nýta. Þess má geta að menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar er nú með 32 langtímasamninga í gildi. Verklag þeirra byggir m.a. á styrkjahandbók um meðferð, afgreiðslu og eftirfylgni styrkja, samstarfs- og þjónustusamninga sem Reykjavíkurborg gefur út, auk þess sem ráðið setur sér árlegar verklagsreglur um úthlutun styrkja og samstarfssamninga þar sem m.a. eru tilgreindar sérstakar áherslur ráðsins í styrkveitingum komandi árs.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélaga eins og Hafnarfjörð að bjóða upp á öflugt menningarlíf þ.m.t viðburði.

MsH telur að ef vel er stutt við menningu og viðburði í bæjarfélaginu styrki það og bæti bæjarbraginn og efli ímynd bæjarfélagsins í hugum íbúa, væntanlegra íbúa og gesta. Auk þess sem áhugi fyrirtækja á sveitarfélaginu eykst ef hér er rekin öflug menningar- og viðburðastefna sem laðar að fólk úr öllum áttum.