Verður þitt fyrirtæki númer 100?

Í tilefni af því að fjöldi aðildarfyrirtækja Markaðsstofu Hafnarfjarðar er farinn að nálgast hundraðið, bregðum við á leik og ætlum að vera með skemmtilegan glaðning fyrir það fyrirtæki sem nær þeim merka áfanga að verða hundraðasta fyrirtækið.

Það er pláss fyrir öll fyrirtæki í Markaðsstofu Hafnarfjarðar stór og smá og hvetjum við þau fyrirtæki sem ekki eru um borð að gerast aðilar og vera þannig hluti af heild sem byggir upp eftirsóknavert bæjarfélag.

Styttist í hundraðið

Við færumst eins og óð fluga nær því að aðildarfyrirtæki Markaðsstofunnar rjúfi 100 aðildarfyrirtækjamúrinn - vertu með.

Bjóðum fjögur ný aðildarfyrirtæki velkomin í um borð í Markaðsstofuna:

 • Eldmóður fræðslusetur ehf. er í Lífsgæðasetri St. Jó og bíður upp á einstaklings og fyrirtækja markþjálfun. Ýmis námskeið og Forvarnarfyrirlesturinn “Sjálfsmynd og kynheilbrigði”.

 • Berserkir axarkast er staðsett á Hraununum og bjóða upp á axarkast sem afþreyingu og íþrótt. Hentar vel fyrir hópa t.d. steggjanir/gæsanir, fyrirtæki, vinahópa, eða þá sem vilja öðruvísi og góða skemmtun.

 • Ploder ehf ( Álfagull ) er gjafavöruverslun í hjarta miðbæjarins þar sem áhersla er lögð á öðruvísi og hefðbundna gjafavöru.

 • Hugarró er í Lífsgæðasetri St. Jó og bíður upp á Kundalini jóga og núvitundarheilun með áherslu á innri ró og úrvinnsla áfalla í gegnum jóga.

Hvetjum um leið þau fyrirtæki sem ekki eru með að vera með við erum sterkari saman.

Á döfinni í september

Á döfinni í september hjá Markaðsstofunni


Meðfylgjandi er dagskrá yfir það sem á döfinni er hjá Markaðsstofunni í september.
Nýjung hjá okkur er Fyrirtækjakaffið sem ætlað er aðildarfyrirtækjunum og svo verður Einyrkjakaffið á sínum stað. Byrjað var að bjóða upp á lengri námskeið í ár og höldum því áfram þar sem þau hafa mælst afar vel fyrir og verið vel sótt. Skráning er hafin á næsta námskeið sem verður um þjónustuhönnun.

Ef þið hafið einhverjar óskir varðandi fræðslu sem þið mynduð vilja sjá í dagskránni hvetjum við ykkur um að senda okkur þær.

Á DÖFINNI MSH HAUST 2019.png

Sterkari saman - eflum tengslin og samvinnuna.

Eitt af verkefnum Markaðsstofunnar er að styðja við, efla og tengja saman fyrirtækin í bænum og vekja athygli á þeirri þjónustu og starfsemi sem fyrirtækin bjóða upp á. Sem lið í því erum við að safna saman upplýsingum um starfsemi allra fyrirtækja í Hafnarfirði.

Því værum við þakklát ef fyrirtækjaeigendur og rekstraraðilar í bænum gætu gefið sér örfáar mínútur til að segja okkur frá sínu fyrirtæki og starfsemi þess. Hvernig best væri að koma upplýsingum, fundarboðum ofl. til þeirra með því að svara örfáum spurningum hér fyrir neðan.

Markaðsstefnumótunin klár

Markaðsstofan lagði fram í bæjarráði 20. maí sl. skýrslu Manhattan Marketing um heildarstefnumótun fyrir Hafnarfjörð.

Verkefnið fólst í heildstæðri markaðsstefnumótun og aðgerðaáætlun fyrir Hafnarfjörð sem spennandi staðar til þess að heimsækja, búa, starfa og reka fyrirtæki í.

Markmiðið með þessari vinnu var að við lok verkefnis lægi fyrir markaðsstefna og markaðsleg staðfærsla ásamt tillögum að aðgerða- og innleiðingaráætlun fyrir Hafnarfjarðarbæ og Markaðsstofu Hafnarfjarðar til framtíðar.

Aðgreining og vörumerkið Hafnarfjörður

ÁÞREIFANLEGIR ÞÆTTIR

•Miðbærinn með gömlu húsin

•Höfnin

•Hraun/náttúra/landslag

 

ÓÁÞREIFANLEGIR ÞÆTTIR

•Bæjarbragur/staðarandi

•Vinalegir íbúar

•Íþrótta-, lista- og menningarlíf

Á næstu dögum munum við birta ítarlegri umfjöllun um niðurstöðurnar.

Nýir stjórnarmenn úr atvinnulífinu

Á aðalfundi voru kosnir fjórir aðalmenn og einn varamaður frá atvinnulífinu í stjórn Markaðsstofunnar:

Anna Ólafsdóttir Litlu gæludýrabúðinni og Örn H. Msgnússon komu ný inn sem aðalmenn í stjórn. Anna María Karlsdóttir Íshúsi Hafnarfjarðar og Sigríður Margrét Jónsdóttir Litlu Hönnunarbúðinni voru endurkjörnar. Ný varamaður í stjórn er Olga Björt Þórðardóttir Björt ehf.

Við þökkum þeim Baldri Ólafssyni og Valgerði Halldórsdóttir fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf.

Skýrsla stjórnar 2018-2019


Skýrsla stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar
 

Starfsárið 2018 - 2019 

 

Inngangur 

Á ársfundi 2018 voru kosnir inn fjórir fulltrúar atvinnulífsins í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar (MsH). Endurkjörnir voru Þór Bæring og Sigríður Margrét Jónsdóttir, nýir komu inn Anna María Karlsdóttir og Baldur Ólafsson, varamenn voru Linda Hilmarsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir. Eftir aðalfund dró Þór Bæring stjórnarsetu sína til baka og sæti hans tók fyrsti varamaður, Linda Hilmarsdóttir. 

Stjórn skipti með sér verkum svo að Sigríður Margrét Jónsdóttir var kosin formaður, Linda Hilmarsdóttir var kosin varaformaður og ritari, Baldur Ólafsson gjaldkeri. Í byrjun árs 2019  sagði Linda Hilmarsdóttir af sér stjórnarsetu og tók 2. varamaður, Valgerður Halldórsdóttir, sæti í stjórn í hennar stað 

Auk fulltrúa atvinnulífsins skipar Hafnarfjarðarbær þrjá stjórnarmenn og einn varamann í stjórn MsH. Í byrjun starfsárs sátu Arnbjörn Ólafsson fyrir Bæjarlistann, Kristín Thoroddsen fyrir Sjálfstæðisflokk og Jóhanna Erla Guðjónsdóttir fyrir Framsókn og óháða. Sökum anna bað Jóhanna sig frá stjórnarsetu. Við tók Einar Baldvin Brimar og síðar meir Anna Karen Svövudóttir sem hefur setið í stjórn síðan um miðjan nóvember 2018 . Breytingar urðu einnig á fulltrúum sjálfstæðisflokks í stjórn, en Kristín vék úr stjórn í lok febrúar  2019  og tók Skarphéðinn Orri Björnsson sæti hennar. Varamaður er Kristinn Andersen, Sjálfstæðisflokki.

Á starfsári stjórnar voru haldnir 23 stjórnarfundir og sex lengri vinnufundir. Mörg önnur mál voru unnin í gegnum tölvupóstssamskipti og á Facebook hóp stjórnar. 

Mikil vinna var í byrjun starfsárs lögð í að vinna að innviðum stjórnarstarfsins, skýra starfsreglur stjórnar (sem eru á heimasíðu MsH) og setja fram siðareglur. Einnig var unnið að markvissari skipulagningu á starfinu og utanumhaldi verkefna, meðal annars með uppsetningu á Trello þar sem öll gögn og vinna stjórnar fer fram. Stjórn vinnur einnig að stefnumótun og skorkorti fyrir MsH.  

Endurnýjun á samningi við Hafnarfjarðarbæ markaði mjög vinnu stjórnar á starfsárinu þar sem unnið var að því að framlengja samstarfssamningum. Það er ánægjulegt að tilkynna aðildarfélögum að nú liggur fyrir samningur til þriggja ára og var hann samþykktur einróma í bæjarstjórn. Enn á eftir að skýra línur í samstarfi bæjarins og MsH sem og auka samtal þeirra á milli. MsH óskaði eftir reglubundnum fundum sem nú hefur verið komið á og með nýju þjónustu- og þróunarsviði bæjarins bindur MsH vonir um að samtal og samstarf aukist til muna. 

 

Skrifstofa og starfsemi 

Skrifstofa MSH er til húsa að Linnetsstíg 3 og er hún opin alla virka daga 09:00 – 16:00. 

Einn starfsmaður er á launaskrá Markaðsstofunnar, Ása Sigríður Þórisdóttir. Hún er starfandi framkvæmdastjóri í 100% starfshlutfalli. Í lok árs 2018 fór Ása Sigríður í veikindaleyfi. Hún kom aftur til starfa í lok janúar, í skertu starfshlutfalli til að byrja með, en reiknað er með að framkvæmdastjóri verði komin í fullt starfshlutfall á nýju starfsári stjórnar. Á liðnu starfsári lagði stjórn áherslu á mikilvægi reglulegra starfsmannasamtala, og eru slíkir fundir nú komnir í fastar skorður í vinnureglum stjórnar.

Eins og áður segir er skrifstofa MSH til húsa að Linnetsstíg í húsnæði sem Hafnarfjarðarbær hefur til umráða. Stjórn MsH hefur farið þess á leit við Hafnarfjarðarbæ  að Markaðsstofan  fái aðstöðu í hentugra húsnæði, til dæmis í nýju Lífsgæðasetri St. Jó, en þar er bæði meiri nálægð við fyrirtæki og atvinnulíf, auk betri starfsaðstöðu til funda og móttöku gesta. Þá vill stjórn reyna að tryggja gott aðgengi aðildarfyrirtækja að reglulegri starfsemi Markaðsstofunnar, þar með talið framkvæmdarstjóra, á nýju starfsári.

Bókhald MsH er gert af UN bókhald og endurskoðandi reikninga er APAL ehf. 

Aðildarfyrirtæki 

Í byrjun starfsárs voru 82 aðildarfyrirtæki skráð í MsH og eru þau nú í lok starfsársins 90 talsins. Hefur því aðildarfélögum Markaðsstofunnar fjölgað um 10% milli ára.

 

Viðburðir 

Viðburðir á starfsárinu voru fjölmargir, svo sem reglulegir hádegisfundir fyrirtækja og einyrkjakaffi, Hvatningarverðlaun MsH, íbúafundir og vinnufundir tengdir  markaðsstefnumótun, opnar kynningar á starfseminni til fyrirtækja og félagasamtaka, o.fl 

Hvatningaverðlaun MsH 

Í byrjun árs 2019 hlaut KRYDD veitingahús Hvatningarverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar, en þau voru veitt í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Hafnarborg þann 31. janúar. Að auki hlutu NÚ skólinn og TRU Flight Training Iceland og Karel Karelsson sérstakar viðurkenningar. Hvatningarverðlaunin eru mikilvægur viðburður í starfi Markaðsstofunnar og er augljóst að þau - líkt og nafnið gefur til kynna - eru fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum hvatning og viðurkenning á því góða starfi sem þau hafa staðið fyrir í Hafnarfirði.

 

Samstarf 

MsH á gott og virkt samstarf við fyrirtæki í Hafnarfirði, bæði þau fyrirtæki sem eiga aðild að félaginu, sem og fyrirtæki, einstaklinga og félagasamtök sem sóst hafa eftir samstarfi við stofuna,til að mynda fyrirtæki sem líta á Hafnarfjörð sem ákjósanlegan stað til að flytja starfsemi sína.

Fulltrúar MsH sitja einnig í nokkrum nefndum og samstarfshópum á vegum bæjarins, svo sem, heilsueflandi samfélag, jólaþorpið, deiliskipulagi miðbæjar og fl.

 

Á döfinni á komandi starfsári 

Hæst á döfinni á komandi starfsári er vinna úr Markaðsstefnumótuninni sem MsH stýrði fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. Einnig er stefnt á Fyrirtækjadaga í hverfum Hafnarfjarðar með haustinu, ásamt að halda utan um reglulega viðburði svo sem hádegisfræðslu, einyrkjakaffi og fundi með hverfafélögunum. Þá verður eftir sem áður lögð áhersla á góða upplýsingagjöf til aðildarfélaga, meðal annars í rafrænu fréttabréfi, á samfélagsmiðlum og á heimasíðu félagsins.

Meðal annarra verkefna á döfinni er skipulagsvinna sem snýr að frekari sjálfbærni Markaðsstofunnar,  úrvinnsla og eftirfylgni á ánægjukönnun aðildarfyrirtækja sem MsH stóð fyrir á á vordögum, skipulögð vinna í  aukningu aðildarfélaga, gerð markaðs- og kynningarefnis fyrir MsH, hönnun og útfærslu á merki fyrir aðildarfélaga sem þeir geta haft sýnilegt bæði á rafrænum miðlum og í fyrirtækjum, og margt fleira.

Þessi samantekt á verkefnum stofunnar er ekki tæmandi og mun ný stjórn MsH sem verður kosin á aðalfundi félagsins móta og vinna áfram starfsáætlun félagsins á komandi starfsári meðal annars með nánari útlistun á einstökum verkefnum. Framboð til stjórnar MsH

Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar verður haldinn þriðjudaginn, 21. maí kl. 18:00, kosið verður um fjóra aðalmenn í stjórn, fimmti maður inn telst réttkjörinn varamaður. Það eru aðildarfyrirtæki MsH sem velja fulltrúa atvinnulífsins í stjórnina.

Vert er að taka fram að ekki er greitt fyrir stjórnarsetu. Kjörgengi og kosningarétt til stjórnarkjörs hafa þeir sem greitt hafa árgjald 2019, skv. 1. mgr. samþykkta/skipulagsskrá.
Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi.

Eftirtaldir hafa gefið kost á sér í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar einnig er hægt að bjóða sig fram á aðalfundinum:

Anna María Karlsdóttir

Anna María Karlsdóttir

Ég heiti Anna María Karlsdóttir og er mannfræðingur að mennt. Við maðurinn minn, Ólafur Gunnar Sverrisson, starfrækjum fyrirtækið Íshús Hafnarfjarðar í gamla frystihúsinu við fallegu smábátahöfnina í Hafnarfirði. Þar leigjum við út misstór opin rými fyrir vinnustofur hönnuða, iðn- og listamanna. Íshúsið er einn stofnaðila Markaðsstofu Hafnarfjarðar og stoltur handhafi fyrstu Hvatningarverðlauna MsH. Ég hef setið í stjórn Markaðsstofunnar síðasta árið og gef kost á mér í þá vinnu sem framundan er, að efla og stækka Markaðsstofu Hafnarfjarða með góðu fólki í þágu allra fyrirtækja í bænum.

Anna Ólafsdóttir

Anna Ólafsdóttir

Ég heiti Anna Jórunn Ólafsdóttir og rek Litlu Gæludýrabúðina í Strandgötu að auki er ég með netverslun fyrir gæludýravörur og hef aðsetur fyrir hana ásamt lager að Melabraut 19 hér í Hafnarfirði.Ég býð mig fram í stjórn Markaðsstofunnar þar sem ég hef mikinn áhuga á að efla það góða starf sem þar fer fram og styrkja samstarf meðal fyrirtækja í bænum.

Sigríður Margrét Jónsdóttir

Sigríður Margrét Jónsdóttir

Sigríður Margrét Jónsdóttir heiti ég og á og rek Litlu Hönnunar Búðina sem er staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar, við erum einnig eitt af stofnfyrirtækjum MSH. Ég hef setið í stjórn Markaðsstofunnar í 2 ár, og hef áhuga á að halda áfram að starfa þar, mörg krefjandi verkefni eru framundan bæði þau sem við höfum verið að vinna í og einnig ný og spennandi verkefni sem ég veit að bíða okkar m.a. markaðsstefnumótunin okkar er að renna úr hlaði og því endalaus tækifæri þar til að vinna í fyrir fyrirtækin okkar í MSH. Í fyrra vildi ég leggja áherslu á að byggja upp innviði MSH, svosem starfsreglur stjórnar og höfum við skilað þeim af okkur ásamt siðareglum og frekari uppbyggingu og sóknarfærum. Ég sit í stjórn Ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar annað árið í röð og er einnig starfandi í stjórn deildar innan, Hundaræktarfélags Íslands, með10 ár í vinnu þar. Ég er þakklát aðildarfélögum MSH fyrir að hafa kosið mig inn 2 ár í röð og hef áhuga á að bjóða mig áfram til starfa því ég trúi á MSH og hvað við höfum fram að bjóða, þetta er búin að vera skemmtileg og lærdómsrík reynsla.

Örn H. Magnússon

Örn H. Magnússon

Ég heiti Örn H. Magnússon og er framkvæmdastjóri Ásafls ehf. hér í Hafnarfirði.

Það er óhætt að segja að ég mikill Hafnfirðingur í mér og hef mikin áhuga á því starfi sem Markaðsstofan er að sinna í dag. Ég tel mig geta lagt eitthvað til mála og finnst því rétt að gefa kost á mér í stjórn. Ég nefnilega trúi því að það hjálpi ekkert að sitja útí horni og gagnrýna störf annara, maður þarf að vera tilbúinn til að takast á við áskoranir. Það er von mín að við náum að efla starf Markaðsstofunar og vil leita að möguleikum á því að efla sóknarfæri fyrir Fjörðinn okkar í gegnum starf Markaðsstofunnar!

Hef verið mikið tengdur íþróttastarfinu hér í bænum ef hef t.d. gengt formennsku í handknattleiksdeild FH auk annarra starfa fyrir félagið. Þá gengdi ég, á sínum tíma, framkvæmdastjórastarfi Handknattleikssamband Íslands og átti sæti í stjórn Handknattleiksráðs Hafnarfjarðar. Þá hef ég komið að mörgum öðrum málum sem vonandi geta nýst í starfi fyrir Markaðsstofuna.

Aðalfundur MsH

Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar verður haldinn þriðjudaginn 21. maí kl. 18:00 í Hafnarborg.


DAGSKRÁ:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara.

 • Skýrsla stjórnar 2018-2019.

 • Ársreikningur 2018 (1).

 • Starfs- og fjárhagsáætlun 2019-2020.

 • Ákvörðun árgjalds.

 • Samþykktir MsH (2).

 • Kosning stjórnar.

 • Kosning skoðunarmanna reikninga.

 • Markaðsstefnumótun fyrir Hafnarfjörð.

 • Önnur mál.

(1) Ársreikningur MsH liggur frammi til skoðunar á skrifstofu Markaðsstofunnar að Linnetstíg 3 (gott er að hringja á undan sér Ása s.820-8269).

(2) Tillaga stjórnar MsH um breytingar á 7. gr. samþykkta stofunnar, sjá neðst á síðu, hefur verið send stofnaðilum til afgreiðslu skv. 13. gr. samþykktanna (https://www.msh.is/samthykktir). Nái tillagan fram að ganga verða á aðalfundinum kosnir tveir stjórnarmenn og einn varamaður til tveggja ára og tveir stjórnarmenn til eins árs.

Kosning í stjórn:
Kosið verður um sæti fjögurra stjórnarmanna og eins varamanns og eru þeir sem fá flest greidd atkvæði í kosningu réttkjörnir í stjórn, sá aðili sem næstur er inn á grundvelli atkvæðafjölda telst rétt kjörinn varamaður. Nái breytingartillaga stjórnar MsH á samþykktunum fram að ganga verða á aðalfundinum kosnir tveir stjórnarmenn og einn varamaður til tveggja ára og tveir stjórnarmenn til eins árs.

Rétt er að árétta að samkvæmt samþykktum Markaðsstofu Hafnarfjarðar ses hafa aðeins þeir sem greitt hafa árgjald að stofunni fyrir árið 2019 kjörgengi og kosningarétt til stjórnarkjörs á aðalfundi. Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi.

Auglýst er eftir áhugasömum aðilum til að bjóða fram krafta sína í stjórn Markaðsstofunnar – ef þú hefur áhuga þá sendu inn framboð hér.

Tillaga stjórnar MsH um breytingar á 7. gr. samþykkta Markaðsstofu Hafnarfjarðar:


Grein 7 hljóðar svo:

Stjórn:
7.gr.

Stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar ses. skal skipuð sjö mönnum og tveimur varamönnum. Stjórnin skal kosin til eins árs. Þrír stjórnarmenn skulu tilnefndir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar og fjórir skulu kosnir á aðalfundi stofnunarinnar.

Þeir sem greitt hafa árgjald stofnunarinnar skulu hafa kjörgengi og kosningarétt á aðalfundi til stjórnarkjörs, skv. 1. mgr. Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi. Skulu þeir fjórir einstaklingar sem fá flest greidd atkvæði í kosningu vera réttkjörnir í stjórn.

Einn varamaður skal tilnefndur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar og einn varamaður skal kosinn á aðalfundi. Sá aðili sem næstur er inn í stjórn á grundvelli atkvæðafjölda skal teljast rétt kjörinn varamaður skv. 1. mgr. Varamenn taka þannig sæti að við forföll aðalmanns tilnefndum af bæjarstjórn skal varamaður tilnefndur af bæjarstjórn taka sæti. Við forföll aðalmanns kosnum á ársfundi skal varamaður kosinn á aðalfundi taka sæti.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og velur hún sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum.

Athugasemd með tillögunni:

Breytingin felst í því að stjórn sé kosin í tvennu lagi þannig að sú þekking og reynsla sem myndist hafi fari ekki öll út á sama tíma. Tveir stjórnarmenn verða því eftir breytingar kosnir annað hvert ár til tveggja ára í senn. Varamaður kosinn til tveggja ára annað hvert ár. Auk þess eru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar og texti færður til sem hefur ekki áhrif á efnisinnihald greinarinnar.

Greinin mun þá hljóða svo:

Stjórn:
7.gr.

Stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar ses. skal skipuð sjö stjórnamönnum og tveimur varamönnum. Þrír stjórnarmenn og einn varamaður skulu tilnefndir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Fjórir stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi Markaðsstofu Hafnarfjarðar, þannig að árlega skulu kosnir tveir stjórnarmenn til tveggja ára og annað hvert ár einn varamaður til tveggja ára sem valinn er í stjórn á grundvelli atkvæðafjölda skv. 1. mgr. Þeir sem greitt hafa árgjald stofnunarinnar skulu hafa kjörgengi og kosningarétt á aðalfundi til stjórnarkjörs, skv. 1. mgr. Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi.

Varamenn taka þannig sæti að við forföll aðalmanns tilnefndum af bæjarstjórn skal varamaður tilnefndur af bæjarstjórn taka sæti. Við forföll aðalmanns kosnum á aðalfundi Markaðsstofu Hafnarfjarðar skal varamaður kosinn á aðalfundi taka sæti.


Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og velur hún sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum.