Tilnefningar farnar að berast

Þetta er í annað sinn sem Markaðsstofa Hafnarfjarðar veitir Hvatningarverðlaun MsH. Í fyrra var það Íshús Hafnarfjarðar sem hlaut verðlaunin en auk þess fengu Annríki – þjóðbúningar og skart og VON mathús & bar viðurkenningu.

Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, félag eða einstakling fyrir að hafa lyft bæjaranda Hafnarfjarðar með starfsemi sinni og athöfnum og eru verðlaunin þakklætisvottur Markaðsstofunnar fyrir óeigingjarnt starf við að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi.

Það eru aðildarfyrirtæki Markaðsstofunnar sem tilnefna en stjórn Markaðsstofunnar vinnur úr tilnefningum. Hvatningarverðlaun MsH verða svo veitt við hátíðlega athöfn síðar í mánuðinum.

Bjóðum Málsteypuna Hellu velkomna um borð!

Bjóðum nýjasta aðildarfyrirtæki Markaðsstofunnar Málmsteypuna Hellu velkomið um borð. Hella er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem rekið er af öðrum og þriðja ættlið. Fyrirtækið hefur frá upphafi sérhæft sig í steypu á hlutum steyptum úr áli og kopar.

Ein af þeirra flottu vörum pönnukökupannan var til umfjöllunar í Landanum hér um árið skemmtilegt að fræðast um handtökin að baki þeirrar góðu pönnukökupönnu.

Hlökkum til samstarfsins Hella!

Jólafyrirtækjahittingur MsH

Markaðsstofan hefur staðið fyrir Fyrirtækjahitting fyrir fyrirtækin í bænum þar sem boðið hefur verið upp á fræðsælu og léttar veitingar og nú er komið að Jólafyrirtækjahitting Markaðsstofunnar.

Fyrirtækjaheimsóknirnar eru kjörið tækifæri fyrir fyrirtækin í bænum til að efla og styrkja tengslanetið og kynnast öðrum fyrirtækjaeigendum. Við erum sterkari saman. Fræðsla um hvernig við sköpum sterka liðsheild og fáum alla til að stefna að sama marki. Léttar veitingar og migl í boði. Hvetjum alla sem eru í fyrirtækjarekstri í bænum að kíkja við.

Jólafyrirtækjahittingur Markaðsstofu Hafnarfjarðar111.png

Samstarfssamningar vegna menningar- og viðburðahalds

Markaðsstofan hefur sent menningar- og ferðamálanefnd, með afriti til bæjarstjóra og bæjarstjórnar, eftirfarandi erindi. 

Efni:  Samstarfssamningar vegna menningar- og viðburðahalds.

Markaðsstofa Hafnarfjarðar hvetur Hafnarfjarðarbæ til að endurskoða þær styrkveitingar til menningar- og viðburðahalds í bænum m.t.t aukins fjármagns og efla þannig  og um leið styðja við þá aðila sem vinna óeigingjarnt starf við að bæta og hlúa að menningarlífi í bænum. Lagt er til að teknir verði upp samstarfssamningar til allt að þriggja ára og að úthlutun styrkja verði færð framar í tíma og liggi fyrir í byrjun árs.

Samstarfssamningar styðja að og stuðla að öflugu viðburðahaldi í bænum. Auk þess sem þeir gera þeim aðilum sem að viðburðunum í bænum standa kleift að skipuleggja sig betur og sjá fram í tímann þannig að ekki ríki óvissa fram á síðustu stundu hvort af viðburðinum geti orðið. Fjárhagslegt öryggi viðburðarins er grundvöllur til þess að geta skipulagt fram í tímann. Samstarfssamningar til lengri tíma myndu gjörbreyta öllu undirbúningsferlinu fyrir þá aðila sem hyggjast standa vörð um menningar- og viðburðar hald í bænum.

Slíkir samstarfssamninga hafa verið í gildi hjá Reykjavíkurborg og því þarf ekki að finna upp hjólið í þeim efnum heldur er hægt að taka það besta þaðan og nýta. Þess má geta að menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar er nú með 32 langtímasamninga í gildi. Verklag þeirra byggir m.a. á styrkjahandbók um meðferð, afgreiðslu og eftirfylgni styrkja, samstarfs- og þjónustusamninga sem Reykjavíkurborg gefur út, auk þess sem ráðið setur sér árlegar verklagsreglur um úthlutun styrkja og samstarfssamninga þar sem m.a. eru tilgreindar sérstakar áherslur ráðsins í styrkveitingum komandi árs.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélaga eins og Hafnarfjörð að bjóða upp á öflugt menningarlíf þ.m.t viðburði.

MsH telur að ef vel er stutt við menningu og viðburði í bæjarfélaginu styrki það og bæti bæjarbraginn og efli ímynd bæjarfélagsins í hugum íbúa, væntanlegra íbúa og gesta. Auk þess sem áhugi fyrirtækja á sveitarfélaginu eykst ef hér er rekin öflug menningar- og viðburðastefna sem laðar að fólk úr öllum áttum.

Göngu- og hjólastígar á Vellina

Markaðsstofan hefur sent umhverfis- og framkvæmdaráði, með afriti til bæjarstjóra og bæjarstjórnar, eftirfarandi erindi. 

Efni:  Göngu- og hjólastígar á Vellina.

Vallarhverfið eru það hverfi í Hafnarfirði þar sem uppbygging hefur verið hve mest undanfarin ár. Fyrirtæki eru mörg á svæðinu sem og íbúðarhúsnæði. Unnið hefur verið að því að byggja upp og bæta vegakerfið og brátt líta dagsins ljós ný gatnamót sem beðið hefur verið eftir við Krísuvíkurveg.

Fyrirtækjahverfið, ef svo má segja, hefur verið að breytast og þar er nú að finna fjölbreyttari starfsemi og þjónustu til að mynda hefur Apótek Hafnarfjarðar nýlega fært starfsemi sína að Selhellu, en var áður til húsa að Tjarnarvöllum.

Í dag er það svo að ekki er hægt að komast gangandi, með barnavagn eða hjólandi nema að vera úti á götu þar sem engir göngu- eða hjólastígar eru í þessum hluta hverfisins og hafa fyrirtæki kvartað mjög yfir þessu.

MsH telur afar brýnt að Hafnarfjarðarbær bregðist skjótt við og geri göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu. Skapi þar með umhverfi sem hvetur íbúa og starfsmenn fyrirtækja til að nýta sér holla og heilnæma hreyfingu í takt við núgildandi stefnu um heilsueflandi samfélag. Svo ekki sé minnst á að tryggja þarf umferðaröryggi gangandi- og hjólandi vegfaranda á svæðinu.

Oft á tíðum eru göngu- og hjólastígar byggðir sem útivistarstígar og uppfylla þá ekki viðmið um greiðar og öruggar samgöngur.  Ljóst er að þeim fer fjölgandi sem kjósa að nýta möguleikana sem felast í því að ferðast öruggir í og úr vinnu á göngu- eða hjólastígum.

MsH telur að með tilkomu öruggs og umhverfisvænna göngu- og hjólastíga verði það einnig hvatning fyrir íbúa á Völlum og aðra bæjarbúa að nýta sér þessa leið til að auka og bæta við lífsgæði sín.

Í heilsueflandi samfélagi á það að vera partur af skipulaginu að bjóða upp á og hvetja til fjölbreyttari samgöngumáta en einkabílinn. Markaðsstofan skorar á Hafnarfjarðarbæ að í framtíðinni sé það svo að þegar ný fyrirtækjahverfi séu byggð að göngu- og hjólastígar séu gerðir samhliða, það styrkir innviði hverfisins og eykur fýsileika fyrirtækja til að byggja upp og reka fyrirtæki í Hafnarfirði. 

Umferðaröryggi við Bæjartorg og Norðurbakka 1

Markaðsstofan hefur sent skipulags- og byggingaráði, með afriti til bæjarstjóra og bæjarstjórnar, eftirfarandi erindi. 

Efni:  Umferðaröryggi við Bæjartorg og Norðurbakka 1.

Sívaxandi og fjölbreytt starfsemi í verslun og þjónustu á Norðurbakka 1 hefur um þó nokkuð skeið og misseri kallað á endurskoðun á umferðaröryggi,  bæði gang- og hjólreiðafólks sem og bílaumferð.

Nú er svo komið að þeir sem stunda sín viðskipti á þessu svæði telja að það sé einungis tímaspursmál hvenær þarna verið stórslys á fólki.

MsH telur að aðgerðir í umferðaröryggi á svæðinu sé algert forgangsverkefni og hvetur Hafnarfjarðarbæ til að taka á þessum málum og gera bragarbót á nú þegar.

Fyrirtækjaheimsókn MsH til Gaman Ferða

Fyrsta fyrirtækjaheimsókn MsH af mörgum verður þann 19. október frá kl.17-19 en þá bjóða Gaman Ferðir fyrirtækjunum í bænum í heimsókn. Komdu með þetta er kjörið tækifæri til að kynnast starfsemi Gaman Ferða betur og heyra reynslusögur úr rekstrinum.

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir var stofnuð í upphafi ársins 2012 og er eitt af aðildarfyrirtækjum Markaðsstofunnar. Það voru þeir Þór Bæring Ólafsson og Bragi Hinrik Magnússon sem stofnuðu fyrirtækið saman og var fyrsta skrifstofan eldhúsið hjá Þór á Suðurvangi í Hafnarfirði. Fyrirtækið hefur stækkað mjög hratt en núna starfa hjá Gaman Ferðum 15 manns í fullu starfi og fjölmargir aðrir sem fararstjórar.

Hvetjum fyrirtækin í bænum til að koma með í heimsókn til þeirra félaga því fyrirtækjaheimsóknir eru góður vettvangur fyrir hafnfirsk fyrirtæki til að efla og
styrkja tengslanetið og kynnast öðrum fyrirtækjaeigendum í bænum.

Léttar veitingar verða í boði.

 

Ráðstefna um stöðuna og tækifærin í ferðaþjónustunni í Hafnarfirði

Markaðsstofa Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbær standa fyrir ráðstefnu um stöðuna og tækifærin í ferðaþjónustunni í Hafnarfirði laugardaginn 14. október næstkomandi í Hafnarborg. Ráðstefnan hefur fengið yfirskriftina „Stefna og staða Hafnarfjarðar í ferðaþjónustu“. Ráðstefnan verður nýtt sem upphaf á vinnu í mótun stefnumótun fyrir Hafnarfjörð. Ráðstefnan hefst klukkan 10:00 og stendur til 12:30

Meðal þeirra sem munu flytja framsögur á ráðstefnunni eru Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri í Skaftárhreppi, Þuríður Halldóra Aradóttir framkvæmdastjóri Visit Reykjaness og Haraldur Daði Ragnarsson meðeigandi Manhattan Marketing og aðjúnkt í Háskólanum á Bifröst mun kynna vinnu og niðurstöður „Markaðsgreiningar og markaðslega stefnumótunar fyrir áfangastaðinn Suðurland“ sem Manhattan vann fyrir Markaðsstofu Suðurlands árið 2016.  Þá mun Dr. Friðrik Larsen lektor við Háskóla Íslands ræða um vörumerkjastefnur áfangastaða og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regin talar um áform félagsins í hótelframkvæmdum við Strandgötuna.

Í framhaldi verða pallborðsumræður og meðal þeirra sem taka þátt í pallborðinu eru Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu og fyrrum sviðsstjóri menningar- og ferðamála hjá Reykjavíkurborg, Ásbjörn Björgvinsson markaðs- og sölustjóri LAVA Eldfjallamiðstöðvar og fyrrum framkvæmdastjóri Markaðstofu Norðurlands, Páll Eyjólfsson framkvæmdastjóri Bæjarbíós, Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri Eldeyjar fjárfestingafélags í ferðaþjónustu og Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Viator og stjórnarmaður í Markaðstofu Hafnarfjarðar.

Fundarstjóri verður Þór Bæring Ólafsson einn eigandi Gaman ferða og stjórnarmaður í Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Ráðstefnan er opin öllum bæði fagaðilum og bæjarbúum með áhuga á greininni. Boðið verður uppá kaffi og létt meðlæti.