Lilja Boutique

Kvenfataverslunin Lilja Boutique á Strandgötunni á marga trygga viðskiptavini sem koma víða að. Við hittum Lilju Ingvarsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Kvenfataverslunin Lilja Boutique á Strandgötunni á marga trygga viðskiptavini sem koma víða að.

Alltaf blundað í mér kaupmaður

„Það hefur alltaf blundað í mér kaupmaður, allt frá því ég var krakki hef ég vitað að ég vildi eiga eigin verslun,“ segir Lilja sem lærði blómaskreytingar í Svíþjóð og var með sína eigin blómaverslun þar í nokkur ár. Við heimkomuna starfaði hún í Burkna sem og í Blómaval en skipti yfir í fatnaðinn þegar hún var ráðinn sölustjóri í Debenhams og starfaði þar í fimm ár. „Í því starfi fékk ég mjög góða reynslu sem var til þess að ég ákvað að taka skrefið og opna mína eigin verslun með vönduðum og fallegum fatnaði.“

Fyrsta árið var Lilja Boutique í mjög litlu rými á Linnetstígnum en fluttist yfir á Strandgötu 21 árið 2011 þegar Lilja og eiginmaður hennar keyptu allt húsið. „Þó við séum nýbúin að selja húsið þá verður verslunin hér áfram enda besti staðurinn í bænum og ákaflega góður andi,“ segir Lilja.

Áhersla á gæði

Í versluninni má finna fjölbreytt úrval af fatnaði og fylgihlutum en Lilja flytur allar vörur inn sjálf. Stærsti hlutinn kemur frá París en hún segir að á undanförnum árum hafi danskar vörur líka verið að bætast við sem veki mikla lukku. „Ég sel kjóla, buxur, skyrtur, peysur og boli en líka veski, töskur, hatta, höfuðskraut, silkislæður og skartgripi. Þá eru frönsku ilmvötnin afar vinsæl og nokkrar konur í áskrift af sínum ilmi en herrar geta líka fundið góðan ilm hjá mér,“ segir Lilja.  

Hún segist leggja mikið upp úr því að vera með gæðaefni og hennar reynsla er að konur sækist enn meira eftir þeim í dag. Þá verði fatnaður úr endurunnum efnum jafnframt vinsælli. „Ég bendi líka mörgum konum á að það sé óþarfi að vera að þvo flíkur oft, stundum dugi bara að viðra þær vel,“ segir hún.

Hörfatnaðurinn vinsæll

Aðspurð um vinsælustu vöruna stendur ekki á svari. „Hörfatnaðurinn er eitt af því sem dregur konur í verslunina og ég sel mikið af honum. Ég er með kjóla, skyrtur, mussur og buxur í mörgum mismunandi litum og nokkrum sniðum,“ segir Lilja en hörin er ræktuð í Frakklandi og send til Ítalíu þar sem hún unnin og saumuð.

Hún segir að hörin sé bæði góð í hita og kulda en sé sérstaklega vinsæl hjá íslenskum konum sem eru að fara í hita erlendis. Fyrstu árin var hún bara með svartar, hvítar, rauðar og hörlitaðar vörur en í dag má fá hörfatnað í öllum regnbogans litum í versluninni en þessa dagana eru bláu tónarnir vinsælastir.

Persónuleg þjónusta

Lilja segist elska vinnuna sína og standi mikið vaktina sjálf. „Ég á marga trygga viðskiptavini og hluti þeirra kemur langt að. Hingað koma sem dæmi margar konur frá Akureyri og Vestfjörðum og þeim og öllum öðrum vil ég veita persónulega og góða þjónustu. Þegar ég er að versla inn fyrir búðina þá ímynda ég mér oft viðskiptavini mína og veit hvað heillar vissar konur. Það mætti segja að ég taki í raun frá flíkur fyrir ákveðna viðskiptavini. Hringi í þær, sendi þeim myndir og spyr hvort þetta sé ekki eitthvað fyrir þær,“ segir Lilja og brosir.

Hún segir að mörgum konum líki sérstaklega vel að koma í Hafnarfjörð í fataleiðangur. Hér séu nokkrar verslanir sem hægt sé að ganga á milli, rólegt og gott andrúmsloft, engir stöðumælar og fullt af kaffihúsum. „Ég lít því ekki á hinar verslanirnar í nágrenninu sem samkeppnisaðila heldur styðjum við einmitt hvor aðra.“

Sumarið uppáhalds tíminn

Á sumrin birtir ávallt yfir búðinni þegar ljósir og bjartir litir eru allsráðandi. „Þetta er minn uppáhalds tími og þá er líka mesta salan og mikið um að vera í bænum. Núna eru sterkir litir mikið í tísku sem er ákaflega skemmtilegt og gaman að sjá konur prófa sig áfram. Hjá mörgum breytist líka litaflóran þegar hárið verður grátt þar sem grái liturinn kallar á aðra liti,“ segir Lilja sem er jafnframt ákaflega þakklát fyrir Jólaþorpið sem dregur fólk til Hafnarfjarðar og þá eignist hún oft nýja viðskiptavini.

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hafði vissulega einhver áhrif á starfsemina. „Ég minnkaði eitthvað opnunina í upphafi enda þorði fólk varla að koma inn. Í upphafi þessa árs þegar mikið var um smit fannst mér fólk aftur orðið hrætt.“

Árið í fyrra var samt besta árið í sögu Lilju Boutique. Fólk fór ekki erlendis að versla sem hjálpaði mikið til. „Verslunin var samt aðeins öðruvísi. Tvö síðustu jól hefur sem dæmi lítið verið beðið um kjóla þar sem konur voru ekki að fara í jólaboð og eða á árshátíðir. Þær vildu því allt annað en kjóla þegar faraldurinn var sem skæðastur en núna er aftur á móti mikil eftirspurn eftir kjólum,“ segir Lilja sem auglýsir töluvert í gegnum Facebook sem hún segir að virki ákaflega vel og þar í gegn selji hún líka út á land.

Hellisgerði, hraunið og róin

Lilja er Hafnfirðingur, ólst upp á Holtinu og fór í Lækjarskóla og Flensborg. „Ég hef alltaf búið í Hafnarfirði fyrir utan árin í Svíþjóð og mér þykir vænt um fjörðinn minn.“

Hellisgerði er í dálitlu uppáhaldi en þangað segist hún hafa mikið farið sem barn og fari gjarnan með barnabörnin í dag. Úr hrauninu eigi hún líka margar góðar minningar. „Við týndum ber og lékum okkur í hrauninu, þar sem Vellirnir eru núna. Fórum á skauta á Ástjörn og hlupum bara yfir Reykjanesbrautina,“ segir Lilja sem kann ákaflega vel við rónna sem liggi yfir bænum.    

Listmálun og sumarbústaðurinn

Eitt kvöld í viku fer Lilja í Myndlistarskóla Kópavogs og búin að gera í 15 ár. „Ég mála aðallega með olíu en er eitthvað að leika mér með akrýl. Mála bæði persónur og hluti en er dálítið í abstrakt verkum um þessar mundir,“ segir Lilja sem hélt einmitt sýningu í Litla Gallerí í október í fyrra en í Lilju Boutique eru einnig nokkur verk eftir hana til sýnis.

„Við eigum sumarbústað í Húsafelli og þar líður mér ákaflega vel. Þar mála ég einnig myndir en hef líka gaman af því að kaupa gamla muni og gera upp og bústaðurinn okkar ber þess aldeilis merki,“ segir Lilja brosandi að lokum.