Litla gæludýrabúðin

Litla gæludýrabúðin á Strandgötunni er með afar fjölbreytt úrval af vörum fyrir gæludýr af öllum stærðum og gerðum og þar er einnig hægt að baða hundinn sinn. Við hittum Önnu Ólafsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í Litlu gæludýrabúðinni er fjölbreytt úrval af vörum fyrir gæludýr af öllum stærðum og gerðum og þar er einnig hægt að baða hundinn sinn.

Byrjuðu í bílskúrnum

Sögu Litlu gæludýrabúðarinnar má rekja aftur til ársins 2005 þegar systkinin Anna og Kjartan byrjuðu að flytja inn hundamat og selja í gegnum netverslun. „Við vorum fyrst í bílskúrunum okkar en það sprakk fljótt utan af sér enda oft á tíðum mjög stórar pakkningar. Við keyptum þá húsnæði á Lónsbraut sem varð líka fljótlega of lítið og við enduðum því á Melabrautinni þar sem við erum einmitt með lagerinn okkar í dag,“ segir Anna.

Hundabaðið vinsælt

Eftir að hafa verið með net- og heildverslun í yfir tíu ár segir Anna að þau hafi ákveðið að opna sína eigin verslun. „Hugmyndin þar á bakvið var í raun sniðuga hundabaðið sem við vorum búin að uppgötva og vildum bjóða Íslendingum upp á. Þegar við opnuðum þann 1. október 2016 var þetta  fyrsta hundabað sinnar tegundar hér á landi. Snilldin við það er að hundaeigandinn getur sjálfur baðað hundinn og blásið feldinn með aðstoð starfsfólks í fullkominni aðstöðu. Hundarnir eru nefnilega miklu afslappaðri ef eigandi sér um þvottinn og eru ekki skildir eftir í ókunnugu umhverfi.“

Að sögn Önnu er hundabaðið ákaflega vinsælt og margir viðskiptavinir sem koma reglulega með hundinn sinn í bað og panti þá tíma í Noona appinu. „Stundum gerast þó einhver slys og fólk kemur hlaupandi inn með afar skítugan hund og þá reynum við oftast að bjarga málinu,“ segir Anna og brosir. Í baðinu stendur hundurinn í góðri vinnuhæð fyrir eiganda sinn, sjampó og næring blandast í sturtuhaus sem tryggir jafna dreifingu um feld og svo er öflugur blásari til að þurrka feldinn í lokin. Í herberginu er að sögn Önnu einnig fín aðstaða til að greiða hundunum og dúlla við þá. Hún ítrekar jafnframt að baðið sé ávallt sótthreinsað eftir hvern hund og þau séu með rekstrarleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu.  

Hollur matur

Í Litlu gæludýrabúðinni má annars fá margar gerðir af gæludýrafóðri fyrir hunda, ketti og smádýr eins og fugla og fiska. Anna segir að þau flytji vörurnar inn sjálf og leggi upp úr gæðum. „Allur matur sem við seljum er hollur, það eru engar aukaafurðir, litarefni eða rotvarnarefni í hunda- og kattamatnum okkar. Þá fór ég einnig að heimsækja þá sem gera fuglanammistangirnar okkar og sá hversu vel var staðið að öllu og stangirnar bakaðar á staðnum í verksmiðju rétt fyrir utan Barcelona.“

Hunda- og kattamaturinn sem seldur er í Litlu gæludýrabúðinni kemur annars allur frá Ameríku og þau búin að vera með sömu merkin allt frá upphafi enda nýtur hann mikilla vinsælda. Þá selst einnig mikið af íslenskum þurrkuðum lambahornum og Anna segir að hún vildi gjarnan vera með meira af íslensku hundanammi en því miður sé lítið framleitt af því í dag.

Fatnaður, leikföng ofl.

Í versluninni er mikið úrval af fatnaði, leikföngum, þjálfunarvörum, taumum og ólum svo eitthvað sé nefnt og vöruúrvalið hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin. „Hundaföt eru alltaf að verða vinsælli og seljum við töluvert af hlífðarfatnaði, úlpum og regnkápum fyrir hunda í öllum stærðum. Þá eru sumir einnig að kaupa skó fyrir hunda í fjallgöngurnar enda geta þeir orðið sárir á fótunum.“

Að sögn Önnu er salan ögn meiri í versluninni heldur en á netinu en fólk vill greinilega koma og skoða, máta og snerta sérstaklega þegar kemur að hundafötum.

Samskiptin skemmtilegust

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Anna að það séu samskiptin við dýraeigendur sem komi til þeirra. „Það er oft mikið fjör hérna sérstaklega þegar verið er að baða hundana. Það er gaman að aðstoða fólk við það og fylgjast með því að spjalla við hundinn sinn og taka kannski myndir af honum. Fólkið sem kemur hingað hugsar líka greinilega ákaflega vel um dýrin sín, enda eru þau oft á tíðum eins og börnin þeirra.“

Rólegheit og allt til alls

Það besta við Hafnarfjörð að mati Önnu eru rólegheitin og að rölta um miðbæinn. „Það er svo notalegt að búa hér. Ég er búin að vera á Völlunum í nokkur ár og finnst ég eiginlega vera upp í sveit sérstaklega þegar ég heyri fuglasönginn,“ segir Anna sem hefur búið hér síðan árið 1988 og gæti ekki hugsað sér að fara héðan.

Þá segist hún stundum ekki fara út úr bænum svo vikum skipti enda allt til alls hér og hún leggi sig fram við að beina viðskiptum sínum til hafnfirskra fyrirtækja. „Ég hef verið að uppgötva nokkur góð þjónustufyrirtæki í Hellnahverfinu að undanförnu en ég varð líka vör við það í Covid að margir uppgötvuðu Litlu gæludýrabúðina á Strandgötunni í göngutúrum sínum um bæinn, eitthvað sem var jú vinsælt í Covid,“ segir Anna og brosir.

Desember í Hafnarfirði er einnig í uppáhaldi hjá Önnu. „Það er gaman að vera í búðinni rétt fyrir jólin sérstaklega á Þorláksmessu þegar það er vín- og skötulykt af mörgum og fólk að kaupa jólagjafir handa gæludýrunum sínum en í búðinni er hægt að fá sérstaka jólapoka fyrir hunda og ketti.“

Fjölskyldan og gönguferðir

Þegar Anna er ekki í vinnunni þá nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni. „Við hjónin eigum fimm börn og litla kjarnafjölskyldan telur orðið 25. Nýverið varð ég líka langamma og finnst frábært að vera með fjölskyldunni, borða saman og sækja barnabörnin á leikskólann,“ segir Anna stolt.

Þegar hún þarf að hreinsa hausinn verða göngutúrar oftast fyrir valinu og leiðin liggur þá oft að Ástjörn eða Hvaleyrarvatni. „Í sumar gekk ég líka 270 km á Jakobsveginum sem var stórkostleg upplifun og mjög gefandi,“ segir Anna að lokum.