Kraftajötnar, rokk, gleðiganga og víkingar!

Skemmtileg og viðburðarrík helgi framundan að vanda hér í Hafnarfirði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Á föstudag er um um að gera að skella sér á "Suðurlandströllið 2017" þar sem sterkustu menn Íslands munu keppa í Hleðslu og Bændagöngu föstudaginn 11. ágúst og hefst keppnin kl. 16:00 við verslunarmiðstöðina Fjörð.

Þegar þið eruð búin að fylgjast með Suðurlandströllunum er um að gera að skella sér á hina árlega hátíð „Rokk í Hafnarfirði“ sem haldin er fyrir utan Ölstofu Hafnarfjarðar Flatahrauninu. Hátíðin í ár verður enn stærri og sterkari en í fyrra segja aðstandendur hátíðarinnar, enda frábærar hljómsveitir og tónlistafólk sem ætla að leggja Ölstofunni lið til að gera hátíðina sem veglegasta. Tónleikarnir hefjast kl.18:00 í dag föstudaginn 11. ágúst.

Síðan fagnar Rimmugýgur 20 ára afmæli sínu með stæl og blæs til tveggja daga Víkingahátíðar á Víðistaðatúni 12 - 13. ágúst. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. Eitthvað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hafnarfjarðarbær mun svo að sjálfsögðu taka þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga, laugardaginn 12. ágúst og eru Hafnfirðingar hvattir til að koma með í gönguna. Í ár mun Hafnarfjarðarbær birtast í bleikum lit undir slagorðinu: Ég er!