100% ánægja með námskeið

23. nóvember 2023

Í gær héldum við námskeiðið Upplifun viðskiptavina lykillinn að árangri og tryggð fyrir starfsfólk aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar. Fyrirlesarinn var Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum og má með sanni segja að námskeiðið hafi fengið frábærar viðtökur. Samkvæmt námsmati sem við lögðum fyrir í lok þess var hver einasti þátttakandi ánægður með fræðsluna í heild sinni sem og fyrirlesarann og þar af 85% mjög ánægðir.

Ferðalag viðskiptavinarins

Á námskeiðinu talaði Ósk Heiða um ferðalag viðskiptavinarins í gegnum allt kaup- eða þjónustuferlið frá því að þörf verður til og þar til eftir að viðskipti hafa farið fram. Það sé ákaflega mikilvægt fyrir fyrirtæki að kortleggja það til að skilja og aðlaga upplifun viðskiptavinarins. Við þurfum að ákveða hver persónuleiki fyrirtækisins er og passa að það sé samræmi í allri upplifun í gegnum ferlið. Ef við setjum okkur ekki í spor viðskiptavina þá missum við sjónar á möguleikum til að gera betur.  

Allt snýst um fólk

Þá lagði Ósk Heiða mikla áherslu á að allt markaðsstarf snúist um fólk hvernig svo sem viðskiptasamböndin eru þá er ávallt fólk á bakvið allar ákvarðanir og upplifanir. Tækifærin liggja því í hæfni okkar til að spá fyrir um hegðun og óskir viðskiptavina og fara ekki á mis við að eiga í virku samtali við þá. Með virku samtali gerist hlutirnir nefnilega hraðar og árangurinn verður meiri. Þá er mikilvægt að nýta öll tækifæri til sóknar, meðal annars með því að nýta alla snertifleti við viðskiptavini til að koma samræmdum skilaboðum og persónuleika vörumerkisins til skila.

Mikilvægi tengslanetsins

Ósk Heiða fékk annars alla á námskeiðinu til að kynna sig og segja af hverju þau voru komin hingað. Þá hvatti hún alla til að vera duglega að tengjast og tók loforð af hópnum að tala allavega við fjóra einstaklinga í salnum, eitthvað sem hún temur sér alltaf að gera á viðburðum. Við í markaðsstofunni vorum ákaflega ánægð með þessa hvatningu en starf okkar snýst einmitt að miklu leiti að efla tengslanet hafnfirskra fyrirtækja.

Stóð undir væntingum

Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna og góðar spurningar en hver og einn einasti sagði í námsmatinu að fræðslan hafi staðið undir væntingum. Þá voru líka allir á því að fræðslan muni nýtast sér í starfi, þar af sögðu 77% að það væri mjög líklegt en 23% nokkuð líklegt. 

Að lokum þökkum við Ósk Heiðu fyrir frábæra fræðslu.