Skemmtileg og lífleg fræðsla um gervigreind

Í gær héldum við námskeiðið Gervigreind á hraðferð fyrir starfsfólk aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar.

Fyrirlesarinn var Steinn Örvar Bjarnason, tölvunarfræðingur sem fór yfir það hvað gervigreind er í raun og veru og á hvaða hraðferð hún er núna í upphafi árs 2024. Hann sýndi hvernig hægt er að nýta hana við að búa til texta, myndir og hljóð og hvernig hún geti auðveldað okkur ýmislegt í starfi ásamt því að geta kennt okkur fjölmargt. Þá talaði Steinn um að þróunin væri mjög hröð og mikilvægt sé að vera gagnrýnin þar sem gervigreindin getur líka byrjað að bulla. Hún sé nefnilega sniðug á sumum sviðum en jafnframt hættuleg á öðrum.

Skemmtilegt og líflegt

Það var mikil ánægja með námskeiðið og þá sérstaklega með Stein sem fyrirlesara en í námsmati sem við gerðum í lokin sögðust 95% þátttakenda vera ánægð með hann og þar af 85% mjög ánægð. Þá voru nokkrir sem komu ánægju sinni með námskeiðið á framfæri með eftirfarandi orðum:  

  • Skemmtileg og lífleg fræðsla um mikilvægt málefni sem mun nýtast vel í starfi í framtíðinni

  • Virkilega áhugavert og sett fram á skemmtilegan hátt

  • Sérstaklega góður kennari

  • Frábært námskeið

  • Mjög flott og áhugavert námskeið

Ímyndunaraflið mikilvægt

Við þökkum þeim sem mættu fyrir komuna og vonum að allir verði duglegir að nýta sér gervigreindina í framtíðinni og muni að nýta sér ímyndunaraflið. Það var annars greinilega einhver strax farin að nýta sér gervigreindina við gerð námsmatsins og kom með fullt af flottum hugmyndum að framtíðar námskeiðum markaðsstofunnar okkur til mikillar ánægju. Að lokum þökkum við Steini fyrir frábæra fræðslu og komuna í Hafnarfjörðinn.