Hugarró

Í Hugarró kemur fólk í leit að innri ró sem fæst bæði með heilun og jóga. Við hittum eigandann Friederike Berger jógakennara, heilara, sérkennara og leiðsögumann til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í Hugarró kemur fólk í leit að innri ró sem fæst bæði með heilun og jóga.

Henti sér út í djúpu laugina

Hugarró hefur verið starfandi í tæp sex ár og verið til húsa á nokkrum stöðum. „Ég ákvað að byrja árið 2018 með því að henda mér út í djúpu laugina og fara að vinna sjálfstætt, eitthvað sem mig hafði lengi dreymt um,“ segir Friederike sem sagði þarna upp starfi sínu sem sérkennari í Lækjarskóla.

Á þessum tíma var hún búin að sækja sér töluverða menntun bæði í jógafræðum en einnig í heilun. „Ég tók upphaflega Rope Yoga kennaranám árin 2006-2007 en ég hafði verið að stunda það í nokkurn tíma út af bakveseni á mér. Árið 2013 bætti ég síðan við mig kennaranámi í Kundalini Jóga, sem ég kynntist í meðgöngujóga. Í beinu framhaldi að því lá leiðin í þriggja ára heilunarnám sem ég kláraði árið 2017.“

Flakkari í sér

Fyrstu mánuðina var Hugarró með aðsetur í Garðabæ, flutti síðan í Lífsgæðasetur St. Jó árið 2019 en færði sig yfir á Fjarðargötuna á síðasta ári og er þar í dag. „Ég er flakkari í mér en kann vel við mig hérna á Fjarðargötunni með þetta fallega útsýni yfir sjóinn. Hingað kemur fólk til mín í heilun en jógatímana kenni ég núna í notalegum sal í Hlíðarsmára í Kópavogi en er þó alltaf að leita að hentugum sal hér í Hafnarfirði.“

Leit að innri ró

Aðspurð um hvað felist í heilun og hverjir sæki í þannig tíma segir Friederike að það sé erfitt að lýsa heilun með orðum en þetta sé viss núllstilling og leit að innri ró. „Mikið af fólki á það til að týna sinni innri ró, er upptekið í fjölbreyttum verkefnum lífsins og nær ekki að slaka. Innri ró er hins vegar í grunninn eðlilegt ástand eins og hjá litlum börnum. Til mín kemur því fólk sem er að leita að ró og slökun. Í tímum hjá mér finna margir þessa djúpu ró, stundum streyma jafnvel tár og viss losun á sér stað. Sumir tala því um að þetta sé eins og að koma heim til sín.“

Hún segir að til sín komi alls konar fólk í heilun. „Það koma vissulega til mín fleiri konur en karlar en annars eru þetta viðskiptafræðingar, fótboltamenn, fólk með áhuga á andlegum málefnum, kennarar eða hjúkrunarfræðingar sem hafa verið undir miklu álagi svo dæmi séu tekin,“ segir Friederike en sumir koma reglulega í ákveðinn tíma og aðrir hafa samband þegar þörfin vaknar.

Vinnur með orkustöðvarnar

Heilunartímarnir eru oftast í um 75 mínútur og hefjast á stuttu spjalli áður en fólk leggst á bekkinn. „Ég leyfi fólki alltaf aðeins að lenda áður en við byrjum, segja mér af hverju það sé komið til mín. Sumir vilja reyndar ekki tala mikið en ég er ótrúlega næm og stundum þarf ekki að nota orð. Þegar á bekkinn er komið þá snerti ég viðkomandi einungis á handleggnum og við erum saman í þögn. Ég fer þá í djúpa hugleiðslu þar sem ég er að skynja viðkomanda og fer þá oftast í gegnum orkustöðvarnar en það er misjafnt hver þeirra þarfnast athygli hverju sinni.“

Tímarnir enda síðan á samtali þar sem Friederike deilir hvað hún hafi fundið og er það eitthvað sem kemur fólki stundum í opna skjöldu. „Eitt sinn fór kona að hágráta hjá mér þegar ég byrjaði að lýsa því sem ég fann. Henni fannst að loksins sæi hana einhver í raun og veru og gat sett í orð hvernig henni leið,“ segir Friederike og brosir blíðlega.

Ástríða fyrir áfallavinnu

Í Hugarró hefur verið hægt að sækja tíma í Kundalini Jóga í töluverðan tíma en núna í haust bættist við Jóga Nidra þar sem Friederike fór í nám í þeim fræðum síðastliðið vor. „Í Nidra tímunum mínum hef ég líka verið að nota orkustöðvarnar og það hefur gengið ótrúlega vel og ég hlakka til að halda áfram að þróa þá tíma.“

Eins og fyrr segir þá hefur Friederike kennt Kundalini Jóga í nokkur ár en að undanförnu hefur hún lagt sérstaka áherslu á áfallavinnu í þeim tímum. Hún hefur nefnilega verið að sérhæfa sig í áfallavinnu og unnið mikið með trauma þerapistanum Nicole Witthoefft frá Þýskalandi. Farið tvisvar á námskeið hjá henni í Þýskalandi og tvisvar fengið hana til að koma til Íslands og halda námskeið sem Friederike hefur aðstoðað við að skipuleggja. 

„Ég hef fundið mína ástríðu í lífinu og hún er að fræða um áföll og hvaða áhrif þau geta haft á taugakerfið. Ég vil hjálpa fólki að vinna úr sínum áföllum. Sjálf á ég mikla áfallasögu sem ég hef nú unnið mikið með í tíu ár í gegnum jóga, hugleiðslur, möntrur og ýmsar öndunaræfingar sem hafa fært mér vissa hugarró og innri styrk. Mér fannst ég samt þurfa eitthvað meira og hef því verið að sökkva mér ofan í trauma fræðin og lesið mikið og sótt mér fjölbreyttan fróðleik. Mig langar því að miðla minni reynslu og þekkingu áfram. Mér finnst vanta meiri vitund í samfélagið um hvaða áhrif áföll geta haft. Ég hef því verið ófeimin við að deila minni reynslu til að auka skilning. Ég hef líka komist að því að margir eru með ýmis áföll í bakpokanum sínum sem þeir gera sér ekki grein fyrir en stundum brýst sársaukinn fram í krónískum, líkamlegum verkjum.“

Umbreyting á fólki skemmtilegast

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við starfið er Friederike fljót að svara og segir að það sé að sjá umbreytingu á fólki. „Mig hefur oft langað til að taka svona fyrir og eftir myndir. Ég sé oft svo mikinn mun á manneskjum þegar það finnur loksins rónna. Það er ótrúlega dýrmætt að geta hjálpað til við að komast þangað eða vera farvegur í þeirri leit,“ segir Friederike og bætir við að þá sé líka skemmtilegt að kynnast alls kyns fólki í gegnum starfið. Hún segist eiga orðið marga viðskiptavini sem sem hafi verið hjá henni í nokkur ár eða allt frá upphafi. Sumir hafa byrjað á að koma í jóga en síðan líka mætt í heilun eða öfugt.

Sjórinn og Setbergið

Friederike hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2007 og gift inn í mikla Hafnarfjarðarfjölskyldu. „Við búum í Setberginu eins og næstum öll tengdafjölskyldan og ég vil helst ekki vera annars staðar, þykir ótrúlega vænt um Setbergið. Hafnarfjörður er annars hæfilega stór, hér er góður andi, fallegur miðbær og svo er það sjórinn. Ég elska að labba við sjóinn og sæki mikið í hann, það veitir mér hugarró að horfa út á hann,“ segir hún brosir og bætir við að þá séu hafnfirsku kaffihúsin líka ótrúlega kósý.

Lestur, útivist og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum segir Friederike að vinnan sé vissulega hennar áhugamál og hún lesi alltaf mjög mikið, þessa dagana séu flestar bækurnar um einhvers konar áfallavinnu.

„Útivist er mér líka mikilvæg og við hjónin göngum reglulega á fjöllin hér í nágrenninu t.d. á  Helgafellið og Úlfarsfellið. Það er líka endalaust af fallegum gönguleiðum í kringum Hafnarfjörðinn sem við nýtum okkur. Þá höfum við líka ferðast mikið um Ísland, farið hringinn nokkrum sinnum og við fjölskyldan elskum öll Akureyri. Notalegar fjölskyldustundir eru mér ákaflega mikilvægar og það gefur okkur líka mikið að geta ferðast saman til útlanda,“ segir Friederike að lokum.