Hárbeitt

Hárgreiðslustofan Hárbeitt á Reykjavíkurveginum á stóran og tryggan hóp viðskiptavina sem teygir sig jafnvel yfir nokkra ættliði. Við hittum eigendurna og hjónin Sigurborgu Írisi Hólmgeirsdóttur (Sillu) og Árna Eirík Bergsteinsson til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Hárgreiðslustofan Hárbeitt á Reykjavíkurveginum á mjög marga trygga viðskiptavini sem hafa komið til þeirra í fjölda mörg ár.

Keyptu stofu í stað íbúðar

Hárbeitt hefur verið starfandi frá árinu 1990 á Reykjavíkurveginum, fyrst í húsi númer 50 en árið 1999 fluttu þau á númer 68 og hafa verið þar síðan. „Við keyptum sem sagt Hárstofuna af meistaranum mínum sem vildi gjarnan losna. Fyrirvarinn sem hann gaf mér var þó mjög stuttur eða bara sólarhringur. Ég kem því heim úr vinnunni og spyr Sillu hvort hún vilji kaupa með mér hárgreiðslustofu og hún yrði að svara strax. Hún sagði sem betur fer já en þarna vorum við 23 ára og byrjuð að safna fyrir íbúð en keyptum svo bara stofu í stað íbúðar,“ segir Árni um upphafið af rekstri þeirra hjóna.

„Þegar við fluttum í þetta húsnæði ákváðum við líka að breyta nafninu úr Hárstofan í Hárbeitt, fannst það vera meira við,“ segir Silla og bætir við að sumum hafi nú ekkert litist á það að þau ætluðu að vinna saman og töldu að þetta myndi ekki vara lengi en rúmum 30 árum seinna eru þau enn hér.

Tíu stólar og níu starfsmenn

Í dag eru þau níu talsins sem standa vaktina á Hárbeitt og eru með tíu stóla,  þar af tvo rakarastóla. Nokkrir starfsmenn hafa verið hjá Árna og Sillu mjög lengi en það er þó alltaf viss endurnýjun í gangi. „Við erum líka oftast með einhverja nema hjá okkur og höfum útskrifað mjög marga í gegnum árin. Hárgreiðslufólk sem er í dag með flottar stofur.“

Silla segir að þau passi vel upp á andrúmsloftið á vinnustaðnum og telur nauðsynlegt að starfsfólkið sé allt vinir og líði vel í vinnunni. „Hárgreiðslufólk getur verið mikið keppnisfólk en okkur finnst samt mikilvægt að hrósa hvort öðru, vera vinir og styðja hvert annað enda allir með sinn stíl.“

Tækin og efnin miklu betri

Á Hárbeitt er hár mótað, klippt, litað og greitt og samkvæmt Árna og Sillu þá er í raun ekkert nýtt undir sólinni og tískan fer í hringi. „Það sem er inn í dag er út á morgun. Það eru samt vissulega alltaf einhverjir núansar.“

Helsta breytingin sem orðið hefur í geiranum samkvæmt þeim er að tækin eru orðin mikið betri og sama má segja um efnin. „Í dag eru flest tæki orðin snúrulaus sem er frábært en ég bíð spenntur eftir snúrulausum blásara, hann hlýtur að koma áður en langt um líður,“ segir Árni. Öll efni eru orðin miklu hreinni og á Hárbeitt má nú kaupa hárvörur í gleri og áli, vörur sem Árni og Silla flytja sjálf inn. „Við pælum mikið í innihaldsefnunum í dag en þau skipta okkur miklu máli og viðskiptavinirnir eru líka orðnir miklu meðvitaðri. Við notum því mikið svokallaðar grænar vörur og sem dæmi eru innihaldsefnin í litum og permamenti miklu betri og nánast orðin lyktarlaus,“ segir Silla.

Bíómyndir og þættir

Samhliða starfinu á Hárbeitt vann Silla í yfir tíu ár í Borgarleikhúsinu með leikgervahönnuðum og í dag starfar hún enn mikið í kringum bíómyndir og þáttaraðir. „Mér finnst geggjað gaman að vinna í þeim bransa og er einmitt núna í tveimur bíóverkefnum. Þetta er öðruvísi vinna og það þarf að passa að hárið sé eins út verkefnið,“ segir Silla og brosir.

Árni hefur líka eitthvað komið nálægt þessum bransa en þá bara fyrir framan myndavélina. Sem dæmi var hann, með sitt síða fallega hár, í aukahlutverki í mörgum seríum af Game of Thrones.

Gleði og sorg

Starfið er að sögn þeirra beggja nokkuð fjölbreytt en það snýst líka að vissu leiti um samskipti og er líkamlega erfitt. „Glansmyndin er oft á tíðum ekki raunveruleikinn. Til okkar kemur fólk nefnilega ekki bara í gleði og er spennt fyrir nýrri greiðslu. Við tökum líka á móti fólki í sorg. Fólk sem er að kljást við  hárlos, skallabletti, veikindi eða hefur nýverið misst einhvern nákominn.“ Árni segir að það sé því mikilvægt að hafa áhuga á fólki og finna út hvað hver og einn vill. Sumir vilja þögnina en aðrir vilja gjarnan tala.

Silla segir að starfið sé jafnframt líkamlega erfitt og hún hafi heyrt að það sé í raun svipað og að vera í múrverki. „Við stöndum nánast allan daginn og það tekur tíma að þjálfa upp klippivöðvana og sigg á þumlinum er ákaflega algengt. Þetta er því alveg töff jobb og margir sem halda þetta ekki út í mörg ár.“

Fjölbreytnin og að gera fólk fínt

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Silla að það sé að hún sé ekki að alltaf að gera það sama. Viðskiptavinir hennar séu heldur ekki of einsleitur hópur. „Mér finnst gaman að fá að gera allskonar og þess vegna er frábært fyrir mig að vera ekki bara á stofunni heldur líka að vera að vinna við bíómyndir og þætti.“

Árni segir að honum finnist eiginlega skemmtilegast að vera með einhvern í stólnum sem hefur komið til hans í langan tíma og gera þann aðila fínan. „Ég er ekki enn komin með leið á því en það eru þá vissulega samskiptin sem eru skemmtileg.“ Hann bætir við að til hans komi líka enn í dag fólk sem fór í sína fyrstu klippingu hjá honum með snuð upp í sér en er núna orðið fullorðið og flott. Silla bætir við að henni finnist líka skemmtilegt að klippa marga ættliði. „Amman, mamman og dóttirin koma allar til mín og fjórði ættliðurinn er að detta inn hjá sumum fjölskyldum.“

Nafli alheimsins

Silla og Árni hafa búið í Hafnarfirði í hátt í 30 ár og kunna ákaflega vel við sig. Labba svo til alltaf í vinnuna enda sjá þau stofuna út um baðherbergisgluggann heima hjá sér.

„Mér finnst Hafnarfjörðurinn í raun orðinn nafli alheimsins. Flottir veitingastaðir, hægt að fara á tónleika og detta inn á listasýningar, fara í Hellisgerði. Það er svo mikil orka í Hafnarfirði og þetta er samfélag,“ segir Silla. Árni tekur undir og rifjar upp að hann hafi lítið sem ekkert þekkt til hér þegar hann byrjaði að klippa á Hárstofunni fyrir að verða 38 árum en núna elski hann Hafnarfjörðinn.

Uppáhaldsstaður Sillu í Hafnarfirði er Íshúsið þar sem hún er með vinnustofu en Árni nefnir að heima sé best nú eða aðsetur Rimmugýgurs.

Víkingar, hattar, sköpun og ferðalög

Eitt af áhugamálum Árna er víkingastússið en hann er meðlimur í víkingafélaginu Rimmugýgur og segist hafa eignast marga góða vini í gegnum þann félagsskap og fari líka reglulega til útlanda á víkingahátíðir. „Ég er líka með hattablæti og á mjög marga flotta hatta og nota hatt svo til daglega,“ segir Árni og brosir.

Silla segir að sitt helsta áhugamál sé að skapa. „Það er því frábært að vera með athvarf í Íshúsinu til að geta vesenast, og þar er líka ákaflega skemmtilegt og gefandi samfélag.“ Hún segist líka að lokum elska að ferðast og fari gjarnan til útlanda bæði á hárgreiðslu- og handverkssýningar en líka bara til að njóta lífsins þá gjarnan með vinkonum sínum.