Stoðtækni

Í Stoðtækni á Lækjargötunni eru skór sérsmíðaðir eftir máli, öðrum skóm breytt og þá er einnig gert við skó. Fyrirtækið tekur líka viðskiptavini í göngugreiningu og selur ýmsar vörur tengdum fótum. Við hittum hjónin og eigendur Stoðtækni Jón Gest Ármannsson sjúkraskósmið og Ástu Birnu Ingólfsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í Stoðtækni á Lækjargötunni eru skór sérsmíðaðir eftir máli, öðrum skóm breytt og þá er einnig gert við skó.

Skósmíðin liggur í ættinni

Stoðtækni opnaði í mars árið 2006 á Lækjargötunni. „Ég kynntist bransanum strax sem unglingur þegar ég fór að vinna hjá föðurbróður mínum á Skóvinnustofu Ferdinands Róberts á Reykjavíkurveginum sem varð kveikjan að því að ég byrjaði í skósmíðanáminu árið 1989. Ég starfaði þá með afa mínum sem varð jafnframt minn meistari.  Síðar fer ég til Svíþjóðar að læra sjúkraskósmíði,“ segir Jón Gestur en langafi hans var einnig skósmiður svo þetta liggur mikið í ættinni.

Jón Gestur segir að hann hafi verið búinn að hugsa um það í nokkurn tíma að stofna sitt eigið fyrirtæki en ákvað að taka skrefið í lok árs 2005 og fann þá fljótlega húsnæðið við Lækjargötuna. Ásta bætir við að þau hafi allan tímann verið staðráðin í að vera með reksturinn í Hafnarfirði og Lækjargatan frábær staðsetning þar sem þau búa á Hverfisgötunni og börnin hafi verið í Lækjarskóla. Það er því stutt að fara og auðvelt að hlaupa til ef á þurfi að halda.

Sérsmíðaðir skór

Aðalsmerki Stoðtækni til margra ára er sérsmíði á skóm og innleggjum fyrir þá sem á því þurfa að halda. „Ég á marga viðskiptavini sem hafa verið hjá mér til fjölda ára og koma reglulega í málatöku. Ég útbý þá mót af fæti viðkomandi og smíða skó að þeirra óskum en hægt er að velja sér efni, lit, sóla og alls kyns útfærslur. Þetta geta verið leðurskór, íþróttaskór, spariskór eða sandalar allt eftir þörfum og óskum viðkomandi,“ segir Jón Gestur og ítrekar að með smíðinni reyni hann að draga úr aflöguninni eins og mikið og mögulegt er.

Ásta segir að í sérsmíðinni myndist oft langtíma og persónulegt samband og mikið af því fólki sé orðið vinir þeirra. Þá komi fólk alls staðar af landinu og á öllum aldri en yngsti viðskiptavinur hafi verið tíu mánaða þegar hann kom fyrst. Sjúkratryggingar Íslands greiði oftast fyrir sérsmíðina og Stoðtækni því með samning við stofnunina.

Bæklunarskór

Í Stoðtækni fær fólk einnig aðstoð við að panta sér svokallaða bæklunarskó. Það er samheiti yfir skóúrlausn fyrir fólk sem ekki getur nýtt sér venjulega skó sökum fötlunar sinnar eða aflögunar á fótum. Aflögunin er þó ekki það mikil að þurfi að sérsmíða skóna. „Ég tek þá mót af fæti viðkomandi og sérpanta skó eftir því. Sumir þurfa gott pláss fyrir innlegg eða auka rými í skónum nú eða bara sérstaklega stóra skó,“ segir Jón Gestur og Ásta sýnir þá sem dæmi nýpantaða skó sem eru í stærð 50, eitthvað sem ekki hægt er að kaupa í venjulegri skóbúð.

Göngugreining

Í einu herbergi í húsnæði Stoðtækni er göngubretti og ýmis önnur tæki sem nauðsynleg eru fyrir göngugreiningu. „Til mín kemur fólk sem er að kljást við ýmis konar verki í stoðkerfinu en þá má oft laga með réttum skóbúnaði. Sumir koma eftir að hafa hitt lækni en aðrir koma bara beint til mín og ég fæ sérstaklega mikið af hlaupurum sem eru ef til vill að kljást við beinhimnubólgu eða verki í hnjám. Ég get þá aðstoðað með ýmis konar styrkingum eins og innleggjum og bent fólki á mikilvægi þess að vera t.d. í skóm með góðri höggdempun,“ segir Jón Gestur og ítrekar að óþægindi niður í götu s.s. í ökklum hafi áhrif á allt stoðkerfið, þetta hangi jú allt saman.

Þarf að vera skósmiður í Hafnarfirði

Það er nóg að gera í Stoðtækni við skósmíði og aðra þjónustu en þau segjast einnig taka að sér allar almennar skóviðgerðir. „Það þarf jú að vera skósmiður í Hafnarfirði og mér finnst ég þess vegna einnig þurfa að bjóða upp á þessa almennu viðgerðarþjónustu,“ segir Jón Gestur og bætir við að hér áður fyrr hafi verið þrír starfandi skósmiðir í bænum.

Ásta segir að eftirspurnin eftir skóviðgerðum hafi aukist töluvert í hruninu þegar fólk fór að verða nýtnara og þá sé það líka umhverfisvænna að láta gera við skó í staðin fyrir að kaupa alltaf nýja. Sumir skór séu þó í dag úr svo ódýrum efnum að það borgi sig varla að gera við þá.

Eitt af því sem þau hafi líka verið að gera að undanförnu sé að taka skó í gegn, hreinsa þá og pússa. „Sonur okkar fékk að birta myndir á Instagram síðu Stoðtækni þar sem hann sýndi muninn á annars vegar brúnum leðurskóm og hvítum íþróttaskóm eftir að þeir hafi verið hreinsaðir og pússaðir. Við fengum svakalega góð viðbrögð í kjölfarið og margir sem komu með skóna sína til okkar í smá yfirhalningu,“ segir Ásta og brosir. 

Áburður, mannbroddar, skór og ökklaspelkur

Í Stoðtækni er einnig hægt að kaupa ýmsar vörur sem tengjast fótum og skóm. Þar á meðal er skóáburður, hreinsiefni, mannbroddar, reimar og innlegg. „Við erum einnig með ýmsar stuðningsvörur svo sem sílikon gel fyrir tær í ýmsum útfærslum og stuðningssokka,“ segir Ásta og Jón Gestur bætir við að þau selji líka eitthvað af skóm, s.s. KB sandala sem eru íslenskir og framleiddir á Akureyri en fyrrum nemi Jóns Gests stofnaði það fyrirtæki.

Þá byrjaði Stoðtækni einnig nýverið að selja ökklaspelkur eftir að hafa tekið þátt í útboði hjá Sjúkratryggingum Íslands. „Við erum með sex gerðir af ökklaspelkum sem eru með mismunandi stífleika en ég aðstoða fólk við að velja réttu spelkuna,“ segir Jón Gestur.

Glaðir viðskiptavinir og fjölbreytni

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Jón Gestur að það sé að mæta glöðum viðskiptavinum og reyna að standa undir væntingum. „Persónulegu samskiptin eru gefandi og það er  skemmtileg áskorun í að reyna að aðstoða fólk eftir bestu getu. Eftir öll þessi ár finnst mér fagið líka bara enn skemmtilegt.“

Ásta segir að það sé eiginlega fjölbreytnin en hún gengur í ansi mörg störf, aðstoðar við að sauma, stendur vaktina frammi í afgreiðslunni en sjái líka um bókhaldið og önnur tilfallandi verkefni.

Heimsklassa veitingastaðir og miðbæjarstemmning

Jón Gestur er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og fékk Ástu til að flytja hingað með sér á sínum tíma. Þegar þau eru spurð að því hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Jón Gestur strax að það sé svo margt sem honum finnist gott. Hafnarfjörður skarti öllu því sem til þarf fyrir góðan bæ. Það að hér sé líka enn viss smábæjarbragur sé gleðilegt. „Við erum núna líka komin með svo fína veitingastaði, raun í heimsklassa, en ég man þá tíð þegar það var ekki hægt að fara út að borða og fá sér rauðvínsglas með því hér í bæ, eitthvað sem pabbi kvartaði yfir.“

Ásta segir að hér búi gott fólk og öll þjónusta sé til staðar. „Þetta er fallegur bær og það er lúxus að geta labbað allt. Það myndast líka oft skemmtileg stemmning í miðbænum eins og um daginn þegar það var bleik kvöldopnun. Maður hitti fullt af fólki sem maður þekkir og stóð að spjalla.“

Ferðalög og vinirnir

Þegar kemur að áhugamálum segjast Jón Gestur og Ásta vera mikið útilegufólk. „Við ferðumst mest innanlands og trillum um landið með tengivagn. Það er okkar leið til að komast aðeins frá og slaka á.“

Ásta segir að þau séu líka dugleg að hitta alla yndislegu vini sína og séu ótrúlega rík þegar kemur að vinum, eitthvað sem þau eru afar þakklát fyrir.