Zkrem

Í litla húsinu við Strandgötu 17 er verslunin Zkrem sem selur ákaflega vinsælar pólskar snyrtivörur frá merkinu Ziaja. Við hittum eigandann Huldu Björk Sveinsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í litla húsinu við Strandgötu 17 er verslunin Zkrem sem selur ákaflega vinsælar pólskar snyrtivörur frá merkinu Ziaja.

Staðsetningin frábær

„Ég er búin að eiga Zkrem frá árinu 2017. Keypti það af hjónum sem ég vann hjá, en þau stofnuðu fyrirtækið árið 2013,“ segir Hulda en fyrstu mánuðina var þetta aðallega netverslun ásamt mjög lítilli verslun í forstofuherberginu heima hjá henni. Í lok árs 2017 opnaði hún síðan verslun í Súðavogi og var þar í rúm tvö ár þangað til hún kom á Strandgötuna í febrúar 2020.

„Það varð gífurleg aukning í sölu eftir að ég kom hingað á Strandgötuna og greinilega að staðsetningin hefur mikið að segja. Aukning á sölu milli áranna 2019 og 2020 var tæplega 600% sem er í raun ótrúlegt og þau í Ziaja í Póllandi voru vissulega mjög undrandi en á sama tíma ákaflega glöð,“ segir Hulda en samkvæmt henni hjálpar það mikið að fólk labbi fram hjá, kíki inn og uppgötvi vöruna og verslunina og það sé þá oft verðið sem kemur fólki skemmtilega á óvart.

Með 360 vöruliði

Ziaja er pólskt fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 1989 af tveimur lyfjafræðingum. Markmiðið var frá upphafi að búa til snyrtivörur með einföldum en áhrifaríkum formúlum byggðum á lyfjafræðilegri reynslu þeirra. Að sögn Huldu eru þetta því ákaflega hreinar vörur en fyrsta krem Ziaja var ólífuolíukremið sem er eins enn þann dag í dag og alltaf jafn vinsælt.

„Ég er með um 360 vöruliði í þessari litlu verslun minni og þar á meðal eru sturtusápur, body lotion, sjampó, hárnæring, dag- og næturkrem, lituð dagkrem, maskar, fótakrem, ljúfsápur, sólarvörn, tannkrem, munnskol, svitalyktaeyðir já og líkamsskrúbbar (Body scrub) sem og olíur.“  Vörunum er skipt niður í um 15 vörulínur en þar á meðal eru berja-, geitamjólkur-, vegan- sem og olífuolíulína svo eitthvað sé nefnt.

Að sögn Huldu eru sítrónu líkamsskrúbburinn og þykka kakókremið (body butter) vinsælustu vörurnar og eins og hún segir sjálf frá „vörur sem verða að vera til á þessu heimili.“  

Frá bossakremi yfir í hrukkukrem

Ziaja vörurnar eru hannaðar til að hjálpa öllum húðgerðum og eru fyrir alla fjölskylduna. „Ég er með vörur sem henta mismunandi aldri alveg frá bossakremi yfir í hrukkukrem og sem dæmi með sérstaka barnalínu og aðra fyrir karlmenn en reynslan mín er reyndar sú að karlmenn nota margar aðrar línur. Unglingalínan er einnig vinsæl en hana byrja foreldrar oft að kaupa fyrir sinn ungling sem eftir einhvern tíma kemur svo hingað sjálfur að versla.“  

Hulda segir að viðskiptavinahópurinn sé því ákaflega breiður. Flestir líklega á milli 30 og 60 ára en hún hafi hér á árum áður verið reglulega með kynningar á Hrafnistu og fái í raun enn fyrirspurnir þaðan. Krakkarnir úr skólunum eru líka gjörn á að koma til hennar rétt fyrir jólin eða á vorin þegar þau eru að kaupa gjöf fyrir kennarann sinn og fá þá stundum líka prufu fyrir sig. Þá á Hulda líka mikið af pólskum viðskiptavinum og segir að sá hópur fari líka ávallt vaxandi.

Persónuleg þjónusta

Hulda stendur að mestu vaktina sjálf í búðinni sem er opin sex daga vikunnar. „Persónuleg þjónusta er ákaflega mikilvæg og ég finn það sterkt að mínir viðskiptavinir vilja líka hitta mig, þó svo að þeir séu ef til vill bara alltaf að kaupa aftur og aftur sömu vöruna. Margir eru líka ævintýragjarnir og vilja prófa eitthvað nýtt og fá að heyra um nýjar vörur.“

Allar vörurnar eru fáanlegar í vefverslunni en að sögn Huldu fer rúmlega 80% af sölunni í gegnum verslunina á Strandgötunni. „Það eru helst viðskiptavinir úti á landi sem nýta sér vefverslunina en ég sendi vörur til þeirra án endurgjalds. Mikið af þessu fólki kemur þó oft við ef það er á höfuðborgarsvæðinu, finnst þægilegt að koma hingað í Hafnarfjörð, engir stöðumælar og gott aðgengi.“

Allir fara út glaðir

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna brosir Hulda og segir fljótt: „Vá! Það er bara allt skemmtilegt enda aldrei leiðinlegt hjá mér.“ Eftir smá umhugsun segir hún að það sé samt skemmtilegast að frá henni fari allir glaðir út og margir hissa á hvað verðið er gott, sérstaklega nýir viðskiptavinir. Hún bætir síðan við að hún sé líka farin að þekkja flesta og margir komi því inn og segi hæ frekar en góðan daginn, eitthvað sem henni þykir vænt um.

Úti á landi bragurinn bestur

Hulda er fædd og uppalin í Skagafirðinum en hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2010 og bjó líka hér í nokkur ár í kringum aldarmótin og lærði í Iðnskólanum. „Hafnarfjörður hefur því einhvern veginn alltaf togað í mig og hér finnst mér gott að búa. Þetta er ofsalega fallegur bær, stutt í allt og ég get í raun labbað í allt, geri það samt ekki alltaf,“ segir Hulda og brosir. Hún bætir við að hérna sé líka svona úti á landi bragur sem sé líklega ástæðan fyrir því að henni líði svona vel hérna.

Hamarinn er annars í nokkru uppáhaldi hjá Huldu. „Mér finnst alltaf æðislegt að fara þangað, fallegt umhverfi og flott útsýni. Fyrst þegar ég bjó í Hafnarfirði var ég rétt fyrir neðan Hamarinn og þaðan kemur líklega þessi góða tenging við hann.“

Saumar, bakar og eldar

Þegar Hulda er spurð út í áhugamálin segir hún strax að sér þyki ákaflega gaman að sauma og búa eitthvað til. „Ég er alltaf með eitthvað í höndunum, en er samt alls ekki að prjóna. Ég er mikið í að breyta og bæta og hanna einhverja hluti. Saumaði sem dæmi alla púðana sem voru hjá mér í búðinni fyrir síðustu jól. Geri líka gjarnan flókna og skemmtilega búninga fyrir hrekkjavökuna og öskudaginn.“

Þá segist hún vera ákaflega heimakær og hafi gaman af því að baka og elda. „Ég elda hrikalega góðan mat. Sesarsalatið mitt er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni enda svakalega gott og folaldasnitselið mitt er líka mjög vinsælt,“ segir Hulda að lokum.