Allora Bambino

Allora Bambino á Stakkahrauni leigir út veisluskraut og selur einnig ýmsa muni sem tengjast veisluhöldum. Við hittum eigandann Sigríði Arnfjörð Ólafsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Allora Bambino á Stakkahrauni leigir veisluskraut og selur einnig ýmsa muni sem tengjast veisluhöldum.

Allt frá bumbuboðum í brúðkaup

„Ég var búin að halda mörg bumbuboð fyrir vinkonur mínar og var alltaf fremst í flokki þegar kom að því að skreyta. Ég byrjaði því að safna skrautinu og nýta það aftur og aftur enda ekki bara ódýrara heldur líka minni sóun og því umhverfisvænna. Hugmyndin um að stofna fyrirtæki í tengslum við þetta varð til og ég ákvað bara að taka skrefið og byrjaði að leigja út veisluskraut,“ segir Sigríður um upphafið af Allora Bambino sem hefur verið starfandi frá því í mars 2021.

Í upphafi var fyrirtækið með fjóra mismunandi pakka sem hægt var að leigja fyrir bumbuboð og fékk strax góðar viðtökur. Stuttu seinna bættust við vörur fyrir barnaafmæli, skírnir og fermingar og á þessu ári komu fallegu brúðkaupspakkarnir. „Ég hef leigt út skraut fyrir margar brúðkaupsveislur í sumar. Það er ótrúlega gaman og ég með endalaust margar hugmyndir.“

Leigir út blöðrur

Blöðrur, blöðrubogar, borðbúnaður, bakgrunnar fyrir alls kyns tilefni eru meðal þess sem hægt er að leigja hjá Allora Bambino. „Já ég leigi út blöðrur en þær geta staðið í allt að tvær til þrjár vikur og ég er orðin ansi sjóuð í að gera blöðruboga úr latex blöðrum. Ég get notað hvern blöðruboga í nokkur skipti, fríska þá bara upp á þær blöðrur sem eru orðnar lúnar og bæti ef til vill við nokkrum nýjum.“

Sigríður ítrekar að hún vilji minnka sóun og vera umhverfisvænni kostur og reyni því alltaf að endurnýta allt sem hún setur frá sér. Framboðið aukist þó jafnt og þétt hjá fyrirtækinu og hún segir að nýverið hafi hún sem dæmi byrjað að selja pappadiska, servéttur og ýmsa skrautmuni s.s. í barnaherbergi. Þá leggi hún sig líka fram við að hvetja fólk til að reyna að endurnýta hlutina.

Þjónustar líka fyrirtæki

Stærsti hluti viðskiptavina Allora Bambino í dag eru einstaklingar sem eru að fara að halda veislur en eitthvað er um að fyrirtæki fái Sigríði til að skreyta fyrir sig. „Ég vil gjarnan fá að vinna fyrir fleiri fyrirtæki og skreyta fyrir árshátíðir, afmæli, starfsmannaboð eða aðra viðburði sem fyrirtæki standa fyrir.“

Hún segist þá geta veitt ráðgjöf og ýmis hagnýt ráð. Þá komi hún einnig á staðinn og setji allt upp ef þess sé óskað. Hún ítrekar þó að mikilvægt sé að hafa góðan fyrirvara þegar um stærri viðburði er að ræða til að tryggja að allar vörur séu til og hægt að panta það sem upp á vantar.

Jæja strákur

Okkur leikur forvitni á að vita um valið á nafninu á fyrirtækinu Allora Bambino, hvað það þýði og hvaðan það komi. „Mig langaði í eitthvað öðruvísi nafn og var strax spennt fyrir því að hafa það á frönsku eða ítölsku og fór því að grúska í bókum og á netinu. Ég datt þá inn á Allora sem er ítalskt og þýðir jæja og þar sem áherslan var á bumbuboð í upphafi og ég var nýbúin að eignast strák kom þá bambino aftan við. Þetta þýðir því í rauninni jæja strákur en mætti líka útfæra sem jæja barn … farðu nú að koma þér, eitthvað sem heyrist oft í bumbuboðum. Vissulega hefur reksturinn þó stækkað og þjónustan orðið víðtækari og því aldrei að vita nema ég láti Allora bara nægja í framtíðinni,“ segir Sigríður og brosir.

Umkringd fagnandi fólki

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir hún að það sé að hún sé alltaf umkringd fólki sem sé að fara að fagna og það sé vissulega ákaflega skemmtilegt. „Mér finnst líka bara svo gaman að skreyta og frábært þegar aðrir vilja taka þátt í geðveikinni minni,“ segir Sigríður og hlær og bætir við að það sé líka skemmtilegt að geta verið umhverfisvænn.

Allt best við Hafnarfjörðinn

Sigríður hefur búið í Hafnfirði frá því hún var fimm ára og vill hvergi annars staðar vera. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Allt“ og brosir.

Miðbærinn er annars í miklu uppáhaldi hjá Sigríði og þau fjölskyldan hafa alltaf búið í göngufæri við hann. „Við erum dugleg að fara í göngutúra um miðbæinn, setjast á kaffihús og njóta. Þá er VON Mathús í miklu uppáhaldi og við reglulega þar. Maturinn klikkar aldrei, ótrúlega góður fiskur og sanngjarnt verð.“

Hún bætir við að þau fari líka mikið með börnin og hundinn á Víðistaðatún. „Það er algjör perla, hoppukastalinn og leiktækin en líka bara allt opna svæðið þar sem börnin fá að hlaupa um og hjóla alveg frjáls.“

Ævintýraheimar, hreyfing og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum þá segir Sigríður að þau tengist nú sterkt vinnunni en hún elskar innanhússhönnun og að skreyta. „Ég hef haft gaman að því að skreyta allt frá því að ég man eftir mér og fæ þennan áhuga beint frá mömmu. Hún var alltaf að gera einhverja ævintýraheima fyrir okkur systkin þegar við vorum lítil. Ég geri slíkt hið sama og í dag er herbergi sonar míns eins og frumskógur.“

Sigríður segist í grunninn líka vera mikil íþróttamanneskja en hún æfði og spilaði handbolta með FH í yfir 20 ár og í dag reynir hún að mæta í ræktina en hlaupi líka mikið á eftir stráknum sínum. Ferðalög eru einnig eitthvað sem hún elskar og fari þá gjarnan til útlanda.