Stjörnustál

Stjörnustál á Rauðhellu sinnir bæði nýsmíði og viðhaldi en er þessa dagana jafnframt að byggja nýtt hús við Dofrahellu. Við hittum framkvæmdastjórann og eigandann Grétar Jón Elfarsson  til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Stjörnustál á Rauðhellu sinnir bæði nýsmíði og viðhaldi en er þessa dagana jafnframt að byggja nýtt hús við Dofrahellu.

Aukin þjónusta í Hellnahverfinu

Stálsmiðjan Stjörnustál hefur verið starfandi frá árinu 2004 og mestan tímann í Hafnarfirði. „Við vorum fyrst í Kaplakrikanum, þá tíu ár í Trönuhrauni, nú erum við á Rauðhellu en stefnum á að flytja á Dofrahellu á næsta ári þar sem við erum að byggja okkar eigið húsnæði,“ segir Grétar Jón sem kann orðið ákaflega vel við sig í Hellnahverfinu enda mikil uppbygging og þjónusta þar í kring. „Iðnaðurinn er að flytjast hingað og maður flytur þá bara með.“

Nýsmíði og viðhald

Stjörnustál tekur að sér alla almenna stálsmíði, hvort sem er það er nýsmíði, viðhald eða viðgerðir. Þá vinnur fyrirtækið jafnt á stáli, áli eða rústfríu efni. „Þetta skiptist nokkuð jafnt milli viðhalds og nýsmíði en við vinnum sem dæmi fyrir nokkur stórfyrirtæki eins og Húsasmiðjuna, Samskip og Skeljung sem og fyrir ýmsa byggingaverktaka. Við erum sem dæmi í viðhaldsvinnu í vöruhúsum, gerum við gáma og sjáum líka töluvert um uppsetningu og viðhald á rekkakerfum á lagerum og vöruhúsum.“

Þegar kemur að nýsmíði þá eru samkvæmt Grétari Jóni svalir, handrið og stigar oft meðal verkefna en Stjörnustál útbýr einnig mikið af stálbitum þegar kemur að breytingum á húsnæðum.  

Byggja eigið húsnæði

Stjörnustál vinnur alla jafna á nokkuð breiðum grunni og nú er fyrirtækið að einhverju leiti komið í byggingageirann þar sem þeir eru sjálfir að byggja nýja húsið við Dofrahellu. „Ég var búinn að horfa á þessa lóð í langan tíma þegar ég ákvað síðan að láta slag standa. Þessa dagana erum við á fullu að vinna í grunninum en ég flyt húsið sjálft, sem er 1400 fm, inn frá Tyrklandi í fjölmörgum gámum sem koma til landsins í nóvember,“ segir Grétar Jón sem er greinilega spenntur fyrir þessu verkefni. Ætlunin er að nýta hluta hússins fyrir Stjörnustál og svo leigja eða selja restina af húsinu.    

Getur bætt við sig starfsfólki

Í dag er fyrirtækið með fjóra starfsmenn í vinnu en í gegnum árin hafa starfsmenn verið á bilinu þrír til sjö. „Ég hef líka verið með skólastráka hjá mér í gegnum árin sem vinna hér á sumrin og með skóla og gott að eiga þá að þegar á þarf að halda. Það er annars töluverður skortur á faglærðu fólki á þessu sviði og ég gæti sannarlega bætt við mig hæfu starfsfólki,“ segir Grétar Jón sem ræður þó einnig til sín verktaka í tímabundin verkefni eins og núna í nýbyggingunni.

Fjölbreytileikinn skemmtilegastur

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Grétar Jón strax að það sé svo margt. „En ætli það sé ekki helst fjölbreytileikinn. Ég er að fást við svo mörg mismunandi verkefni og það er skemmtilegt. Þá er einnig gaman að takast á við ýmsar áskoranir. Fólk kemur oft til mín með einhverjar hugmyndir og þá er það mitt að finna út úr verkefninu með þeim, þróa og leita lausna.“

Fínt að reka fyrirtæki í Hafnarfirði

Grétar Jón segir að það sé fínt að reka fyrirtæki í Hafnarfirði. Það séu mörg fyrirtæki að flytja hingað og hann þurfi því oft ekki að leita langt að þjónustu. „Ég sæki flest allt mitt stál hjá hafnfirsku fyrirtæki og á í góðu samstarfi við ýmsa nágranna. Þetta er líka fallegur bær og við vinnufélagarnir skreppum nú stundum inn í hjarta bæjarins í hádeginu og fáum okkur að borða.“

Mótorsport og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum þá segist Grétar Jón að vinnan taki ákaflega mikinn tíma, sérstaklega núna þegar hann sé að byggja. „Ég reyni þó að vera með fjölskyldunni í frítíma mínum og hef líka verið í mótorsporti í gegnum árin, mótorhjól á sumrin og snjósleði á veturna. Þá er líka alltaf gaman að ferðast þá sérstaklega til útlanda. Ég er einmitt á leiðinni til Tyrklands í næstu viku í tengslum við nýbygginguna en ætla að lengja þá ferð og fara í smá frí í leiðinni,“ segir Grétar Jón að lokum.