Fegurð snyrtistofa

Á snyrtistofunni Fegurð á Linnetstígnum má m.a. fara í andlitsmeðferð, vöðvabólgunudd og kaupa ýmsar húðlæknavörur. Við hittum hjónin og eigendurna Berglindi Sveinu Gísladóttur og Viktor Reinoldsson til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Á snyrtistofunni Fegurð má m.a. fara í andlitsmeðferð, vöðvabólgunudd og kaupa ýmsar húðlæknavörur.

Fjölbreyttar meðferðir og ráðgjöf

Fegurð hefur verið starfandi frá árinu 2005 og var fyrstu árin í Grafarvoginum. „Þegar okkur bauðst hentugt húsnæði hér í Hafnarfirði árið 2015 vorum við ekki lengi að taka því,“ segir Berglind sem hefur alla tíð búið í Hafnarfirði og vildi gjarnan vera með snyrtistofuna sína hér í bænum.

Berglind er snyrtifræðingur með meistarabréf og hefur starfað í faginu í um 20 ár en Viktor er nuddari og verið á stofunni í tíu ár. „Við erum með fjölbreytt úrval meðferða og veitum einnig mikið faglega ráðgjöf, bæði varðandi meðferðir á stofunni eða vörunotkun heima fyrir,“ segir Viktor og Berglind bætir við að stór hluti rekstrarins sé verslunin bæði á staðnum og á vefnum en þau keyra sjálf út vörur á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin eða fara með pakka á pósthúsið.

Sérfræðingur í andlitsmeðferðum

Á stofunni starfar ásamt Berglindi annar snyrtifræðingur og bjóða þær upp á fjölmargar gerðir af andlitsmeðferðum, fót- og handsnyrtingu, litun og plokkun sem og vaxmeðferðir. „Ég er mest í sérhæfðum andlitsmeðferðum og til mín kemur gjarnan fólk sem er að kljást við einhver húðvandamál og ég hjálpa þeim sem dæmi að leiðrétta rósaroða eða vinna á bólum. Margir koma þá til mín vikulega í einhvern tíma en þar á milli er ströng heimavinna og mikilvægt að fólk sé tilbúið að skuldbinda sig í meðferðina. Ég get bara gert vissa hluti, viðkomandi verður að sinna meðferðinni þess á milli,“ segir Berglind ákveðin.

Sérhæft nudd

Að sögn þeirra hjóna bjóða margar snyrtistofur upp á nudd enda það hluti af námi snyrtifræðinga. Þau eru aftur á móti með fjölbreyttara úrval af nuddi og ýmsar sérhæfðar meðferðir þar sem Viktor er sérfræðingur í því fagi. „Klassískt vöðvabólgunudd er vinsælast en ég er einnig með íþróttanudd, sogæðanudd og svokallaða kínverska bollameðferð eða cupping,“ segir Viktor sem á marga viðskiptavini sem hafa komið til hans í mörg ár og þeir á ýmsum aldri, mikið til fólk sem vinnur á skrifstofu en einnig ungt fólk í íþróttum sem er að glíma við einhver meiðsli.

Ampúlur vinsælastar

Í vefverslun Fegurðar, þar sem nú er haustútsala, sem og á stofunni er hægt að kaupa mikið af af húðlæknavörum frá Þýskalandi sem og ýmsar naglavörur. „Ampúlurnar eru vinsælastar og við með margar mismunandi gerðir. Ampúla er nokkurs konar orkuskot fyrir húðina sem dregur úr þreytumerkjum og gefur húðljóma. Þá hindrar virka efnið í henni niðurbrot kollagens og örvar nýmyndun,“ segir Berglind og bætir við að vinsæla jóladagatalið þeirra fari bráðum að koma en í því eru mismunandi gerðir af ampúlum.

Þarfir breytast með árunum

Snyrtistofan á mjög marga fasta viðskiptavini sem koma til þeirra reglulega. „Reksturinnn byggist í raun að mestu leiti á viðskiptavinum sem hafa verið hjá okkur í langan tíma. Til mín koma enn í dag konur sem ég tók í meðferðir fyrir 20 árum og margir sem voru hjá mér í Grafarvoginum koma bara núna hingað til mín í Hafnarfjörðinn,“ segir Berglind og gantast með að þarfirnar breytist þó með árunum. „Tvítuga stelpan sem kom til mín fyrir 20 árum sækir í aðra þjónustu í dag. Hlutir og þarfir breytast hjá fólki með aldrinum.“

Viktor segir að biðtími sé því oft um fjórar til sex vikur fyrir þá sem eru að koma nýir inn. Fastaviðskiptavinir bóki hins vegar vanalega strax næsta tíma og sumir eigi sem dæmi nú þegar bókaða nokkra tíma fram að jólum.

Hjálpin og samskiptin skemmtilegust

„Það er ákaflega gefandi að hjálpa fólki og geta sérsniðið meðferðir að þeirra þörfum. Sumir vilja bara slökun meðan aðrir vilja að ég taki vel á þeim,“ segir Viktor aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna.

Berglind segir að fyrir sig sé starfið afar félagslegt og hún hafi myndað vinskap við marga viðskiptavini. „Það er því skemmtilegast að eiga samskipti við fólk. Kæta, bæta og leiðrétta en einnig að kenna fólki húðumhirðu. Verandi líka kennaramenntuð þá er einmitt kennsluhluti starfsins ákaflega gefandi.“

Jákvæður smáborgarabragur

Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er Berglind fljót að svara að það sé sjórinn og miðbærinn. „Ég verð að sjá sjó en síðan er það miðbærinn þar sem hjartað slær og sál bæjarins er að finna. Bland af þessu gamla og nýja er eitthvað sem ég kann að meta.“ Viktor nefnir að hér ríki fallegur smáborgarbragur. „Þetta er smábær mínus allt það neikvæða sem í þeim má stundum finna. Þetta er nefnilega jákvæður bær.“

Þau hjónin búa á Völlunum og segja að þar sé dásamlegt að vera með alla óspilltu náttúruna í bakgarðinum sem þau nýta óspart þegar þau fara út með hundinn.

Listleikföng og ferðalög

Þegar Berglind og Viktor eru ekki í vinnunni þá snýst lífið um fjölskylduna og leikfangasmíði Viktors. „Ég hanna, smíða og mála action fígúrur og styttur sem eru í raun handgerðir listmunir. Þetta er stór markaður í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Brasilíu og ég sel í raun flest þangað og fer reglulega til LA og Las Vegas á sýningar,“ segir Viktor sem hefur safnað gömlum leikföngum frá því hann var krakki.

„Þetta er mjög spennandi heimur og ég og krakkarnir förum oftast með honum á þessar sýningar. Í eitt sinn hittum við sem dæmi Matt Groening, höfund Simpson þáttanna og hann var ákaflega ánægður með Simpson fígúrurnar sem Viktor hefur útbúið,“ segir Berglind greinilega stolt af sínum manni sem hefur líka selt Snoop Dogg eina styttu.