Mars Media

Hvern dreymir ekki um að fara til Mars? Auglýsingastofan Mars Media á Strandgötunni, sem er skírð eftir plánetunni, hefur stækkað mikið að undanförnu og þjónusta þeirra orðin fjölbreyttari. Við hittum eigandann Ingva Einar Ingason og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Auglýsingastofan Mars Media á Strandgötunni hefur stækkað mikið að undanförnu og þjónusta þeirra orðin fjölbreyttari.

Umsvifin aukist eftir flutning á Strandgötuna

Mars Media var stofnað árið 2019 í Danmörku þar sem Ingvi bjó ásamt fjölskyldu sinni. „Ég lærði margmiðlunarhönnun með áherslu á markaðsmál og samskipti og var búinn að sækja mörg námskeið í stafrænni markaðssetningu m.a. frá Google þegar ég ákvað að stofna mitt eigið fyrirtæki. Mig langaði að vera í vinnu þar sem ég gæti unnið hvaðan sem er,“ segir Ingvi sem var á þessum tíma einnig byrjaður að læra þrívíddarhönnun.

Í upphafi þjónustaði Ingvi bæði fyrirtæki á Íslandi og í Danmörku en árið 2020 fluttu þau heim til Íslands og opnuðu skrifstofu á Strandgötunni um síðustu áramót eftir að hafa verið á milli húsnæða.. „Umsvifin hafa aukist gríðarlega eftir að við fluttum á Strandgötuna og reyndar líka eftir að ég varð duglegur að sækja viðburði hjá markaðsstofunni og hef útvíkkað tengslanetið mitt hér í Hafnarfirði svo um munar,“ segir Ingvi en nú starfa fjórir hjá Mars Media. Hann bætir við að hjá Mars séu fyrirtæki að ýmsum stærðum allt frá einyrkjum upp í stærri fyrirtæki og sífellt fleiri kjósi að gera við hann þjónustusamning svo hægt sé að vinna markvisst að mikilvægum markmiðum.

Alhliða auglýsingastofa

Mars Media byrjaði sem stafræn auglýsingastofa með áherslu á birtingar en hefur nú þróast í alhliða auglýsingastofu. „Við tökum að okkur öll verkefni bæði stór og smá. Þar á meðal er umsjón með samfélagsmiðlum, stafrænar herferðir, árangursmælingar, hönnun á efni, efnissköpun, textasmíð, markpóstagerð, ljósmyndun og myndbandagerð. Langflestir vilja auglýsa á stafrænu miðlum eins og Facebook og Google en við höfum verið að sýna viðskiptavinum að það eru fleiri möguleikar í boði,“ segir Ingvi sem er einnig að bjóða viðskiptavinum í svokallað heilbrigðistékk á bakendanum á Facebook og Google til að ganga úr skugga um að allir öryggisþættir séu í lagi.

Að sögn Ingva er ráðgjöf stór hluti af starfinu. „Fyrir suma er það næstum því eins og sálfræðitími að koma í ráðgjöf. Fólk nær að tala um markaðshliðina og við komum með hugmyndir og lausnir við þeim vandamálum sem fólk glímir við. Það sparar gríðarlegan tíma að þurfa ekki að finna út úr öllu sjálfur.“

Samvinna og hátt þjónustustig

Aðspurður um sérstöðu Mars Media segir Ingvi að fyrir utan góðan árangur viðskiptavina, þá séu það góð samskipti og náin samvinna, sem er lykilatriði til að ná góðum árangri. „Svo ég vitni í orð viðskiptavina þá erum við með gríðarlega gott þjónustustig og skilum af okkur verkefnum á réttum tíma. Ég set því gjarnan upp reglulega fundi með viðskiptavinum, sumum vikulega öðrum mánaðarlega. Það er mikilvægt til að efla tengslin en líka bara til að bera upp hugmyndir og vinna að næstu markmiðum.“

Samskipti, traust og árangur

Það sem Ingva finnst skemmtilegast við vinnuna er hversu fjölbreytt hún er og að eiga í samskiptum við mismunandi aðila með mismunandi þarfir. „Það er enginn viðskiptavinur eins og allir með ólíkar þarfir. Það er því mikilvægt að hlusta vel og finna út hvað viðkomandi þarf, hvað hann gerir nú þegar og hver séu markmiðin. Skemmtilegast er síðan þegar fólk treystir mér fyrir sínum verkefnum og vörumerki,“ segir Ingvi glaður í bragði. 

Hann bætir við að það sé líka frábær tilfinning að skila góðum niðurstöðum fyrir fyrirtæki. „Það er svo gaman að heyra þegar herferðir hafa gengið vel og salan rokið upp. Nýverið kom til mín kona sem er með pínulitla vefverslun sem sprakk hreinlega bara út eftir að hafa komið í þjónustu til mín. Það eru þessar sögur sem gera starfið svo skemmtilegt.“

Hafnfirðingar svo miklir Hafnfirðingar

Ingvi er fæddur og uppalinn í Hafnarfirðinum, bjó lengst af í Kinnunum og var í Öldutúnsskóla. Þegar hann er spurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann að það sé hvað allir standi saman, passi upp á hvorn annan og séu trúir sínum. Hafnfirðingar eru svo miklir Hafnfirðingar.

„Ég elska líka hvað það er orðið mikið líf og uppbygging í bænum, hér er gaman að fara út að borða og á tónleika eitthvað sem var ekki í boði fyrir einhverjum árum. Mér finnst líka frábært hvað Strandgatan er að teygja úr sér allt út að Fornubúðum. Mig dreymir nefnilega eiginlega um að það opni kaffihús í Fornubúðum eða við höfnina.“

Uppáhaldsstaðir Ingva eru Ástjörnin og Ásfjallið. „Ég bý neðst í Áslandinu og það er fátt betra en að taka göngu- eða hlaupatúra í kringum Ástjörnina. Það er minn griðarstaður, sérstaklega eftir langan vinnudag þegar ég þarf að losa streitu og anda að mér fersku lofti. Þá fer ég líka töluvert á Helgarfellið,“ segir Ingvi og brosir.   

Fjallgöngur, utanvegahlaup og fótbolti

Þegar kemur að áhugamálum þá er Ingvi mikið fyrir alla útiveru og hreyfingu. „Ég elska fjallgöngur og utanvegahlaup. Þá er fótbolti meðal áhugamála, ég spila reglulega með félögunum og fylgist með boltanum hér heima og erlendis. Crossfit er líka eitt af því sem ég hef gaman af.“

Á sumrin fer Ingvi gjarnan í stangveiði og fjölskyldan er dugleg að fara í útilegur. „Við hjónin gengum  Laugaveginn síðasta sumar og drögum krakkana líka með okkur í ýmsa útiveru og hreyfingu,“ segir Ingvi að lokum.