Isco

Heildsalan Isco á Steinhellu selur pizzukassa, kaffibolla, pappírspoka, lalladalla, glerkrukkur, kaffi, hreinsivörur, sundlaugaryksugur og svo ótal margt fleira. Við hittum bræðurna Þórð Björnsson (Dodda) og Björn Bergmann Björnsson (Bjössi) sem eru meðal eigenda Isco og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Heildsalan Isco á Steinhellu selur pizzukassa, kaffibolla, pappírspoka, lalladalla, glerkrukkur, kaffi, hreinsivörur, sundlaugaryksugur og svo ótal margt fleira.

Fluttu fyrirtækið í Hafnarfjörð

Isco rekur sögu sína aftur til ársins 2015 en árið 2020 kaupa bræðurnir sig inn í fyrirtækið „Ég var að vinna hjá Samhentum og sá um allar umbúðir fyrir veitingageirann þar. Isco ákvað að kaupa þann hluta af Samhentum og ég fylgdi í rauninni með,“ segir Bjössi sem hefur hátt í 20 ára reynslu í þessum geira.

Doddi ætlaði bara að aðstoða tímabundið en nú þremur árum seinna er hann enn að störfum og sér um daglegan rekstur og innkaup en Bjössi stjórnar sölumálunum. Þeir bræður fluttu fljótlega fyrirtækið í Hafnarfjörð. „Við vorum fyrst í einu bili í húsnæðinu hér á móti en erum í dag komnir í fjögur bil eða um 750 fermetra enda reksturinn vaxið mikið á undanförnum árum og við komnir með um þúsund vörunúmer og alltaf eitthvað nýtt í pípunum,“ segir Doddi.

Veitingageirinn stærstur

Isco er með ótrúlega fjölbreytt úrval af matvælaumbúðum og veitingahús og bakarí því meðal þeirra helstu viðskiptavina. „Við erum með sem dæmi með kökukassa í alls kyns stærðum og gerðum, bökunarform og umhverfisvæna kaffibolla í ýmsum stærðum og útliti. Úrvalið af pappírspokum er einnig mjög vítt og frá ákaflega stórum pokaframleiðanda sem framleiðir um 5 milljónir burðapoka á dag og pokarnir hjá okkur því á einstaklega góðu verði. Þá seljum við mjög mikið af hinum svokölluðu lalladöllum sem flest öll atvinnueldhús nota til að undirbúa og geyma mat í,“ segir Bjössi og bætir við að veitingamenn og aðrir séu ákaflega ánægðir með að geta komið og skoðað vörur í sýningarsalnum þeirra og sumir segja að það sé eins og að koma í nammibúð.

Doddi segir að það sé enginn í þessum geira með jafn mikið vöruúrval og þeir og viðskiptavinir ánægðir að geta fengið allar vörur á einum stað. „Við höfum líka verið að sérframleiða umbúðir fyrir hin ýmsu fyrirtæki og erum farnir að selja frábært ítalskt kaffi,“ segir Doddi og brosir.

Hreinsi- og sundlaugarvörur

Isco var áður fyrr aðallega að selja hreinsiefni og þjónustaði mikið bændur og sundlaugar. „Við erum enn með úrval af hágæða hreinsiefnum og flestir sem hafa kynnst þeim vilja ekkert annað. Þá seljum við hreinsiróbóta fyrir sundlaugar og gamla sundhöllin á Herjólfsgötunni er sem dæmi með róbót frá okkur sem þeir setja ofan í laugina á kvöldin og taka upp á morgnanna. Þá erum við líka með ryksugur fyrir sundlaugar sem henta líka vel fyrir heita potta í heimahúsum.“ 

Þeir bræður ætla þá bráðlega að byrja að selja heita potta. „Okkur finnst gaman að prófa eitthvað nýtt og höfum mikla trú á þessum pottum“, segir Bjössi og skýtur því inn að fyrstu pottarnir komi í byrjun desember og þeir séu farnir að taka inn pantanir nú þegar.

Einstaklingar einnig velkomnir

Eins og fram hefur komið er sýningarsalur í húsnæði Isco sem sýnir vel vöruúrvalið. „Við tökum þar einnig á móti einstaklingum og hvetjum fólk sem er t.d. að fara að halda veislur að koma til okkar. Þá erum við líka með frábæra kassa sem henta víst mjög vel undir sörur og seljum nokkuð af þeim þessa dagana,“ segir Doddi.

Góð þjónusta og umhverfisvænar vörur

Sérstaða Isco er að sögn þeirra bræðra vöruúrvalið en einnig góð þjónusta. „Það veit enginn meira um þessar vörur fyrir veitingageirinn en Bjössi,“ segir Doddi og Bjössi bætir við að þá leggi þeir upp með að afgreiða pantanir hratt og vel og keyri út vörur tvisvar á dag. „Við afhendum oft samdægurs eða í síðasta lagi daginn eftir. Þá er líka megnið af okkar vörum umhverfisvænar, eitthvað sem vegur alltaf þyngra meðal viðskiptavina.“

Fjölbreytnin og samskiptin skemmtilegust

Aðspurðir um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Bjössi strax að það sé hversu fjölbreytt hún sé. Doddi segir að samskipti við viðskiptavini séu það sem gefi honum mest, sérstaklega ef þeir lýsi yfir ánægju með vörur eða þjónustu.

Kaplakriki og Keilisvöllurinn í uppáhaldi

Bræðurnir segjast vera gegnheilir Hafnfirðingar langt aftur í aldir. Hér líði þeim vel og þess vegna voru þeir fljótir að flytja fyrirtækið í Hafnarfjörðinn. „Það er frábært að þurfa ekki að fara langar leiðir í vinnu og við kunnum vel við okkur hér á Steinhellunni. Við viljum annars gjarnan fá enn fleiri hafnfirsk fyrirtæki í viðskipti enda óþarfi að sækja vörur eða þjónustu yfir lækinn. Við erum sem dæmi með nokkrar vörur sem flestallir verslunarmenn þurfa líkt og posarúllur og hér eru þær á mjög góðu verði,“ segir Doddi og glottir. Að hans mati er það besta við Hafnarfjörðinn fólkið og smábæjarbragurinn. „Þetta er þægilegt samfélag og hér þekkja allir alla.“  

Þegar þeir eru spurðir hvort þeir eigi sér einhvern uppáhalds stað í Hafnarfirði er Doddi fljótur að nefna Kaplakrika. „Við erum miklir FH-ingar og förum oft á leiki þar bæði í fótboltanum og handboltanum.“ Bjössi kann líka vel við sig í Krikanum en segir að Keilisvöllur sé hans uppáhalds og það jafnist fátt á við það að spila golf með góðum vinum.

Íþróttir, fjölskyldan og vinnan

Þegar kemur að áhugamálum segja þeir báðir að flest þeirra áhugamál tengist íþróttum. Fótbolti, handbolti og golf séu þar á meðal. Doddi bætir þá við að stundir með fjölskyldunni og barnabörnum séu honum dýrmætar. Bjössi segir síðan að lokum að vinnan sé jafnframt visst áhugamál en þar líði honum vel og hafi gaman af.