Saltkaup

Saltkaup á Cuxhavengötu hefur verið starfandi í yfir 30 ár og er leiðandi í innflutningi og sölu á fiski- og götusalti hér á landi. Við hittum framkvæmdastjórann Hilmar Þór Hilmarsson og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Saltkaup á Cuxhavengötu hefur verið starfandi í yfir 30 ár og er leiðandi í innflutningi og sölu á fiski- og götusalti hér á landi.

Komnir aftur til upprunans

Saltkaup var stofnað árið 1990 af saltfiskframleiðendum í þeim tilgangi að flytja inn og selja salt. Í langri sögu fyrirtækisins hafa nokkrum sinnum orðið eigendaskipti en frá árinu 2017 hefur fyrirtækið verið í eigu norska félagsins GC Rieber Salt.

„Í dag flytur Saltkaup inn og selur fiski- og götusalt en á árunum 1999 til 2019 vorum við einnig að selja mikið af umbúðum og íbætiefnum en erum aftur komin til upprunans og einbeitum okkur að saltinu,“ segir Hilmar en í ársbyrjun 2019 var fyrirtækinu skipt upp. Salt innflutningur og þjónusta er áfram undir Saltkaup en umbúðahlutinn og önnur starfsemi nú undir BEWI Iceland.

Tugir þúsundir tonna í gegnum Hafnarfjarðarhöfn

Á Cuxhavengötu er fyrirtækið með saltskemmu sem tekur allt að sex til átta þúsund tonn af salti. „Þetta er vissulega náttúruleg afurð, eða eimaður sjór, sem kemur til okkar í stórum skipum annars vegar frá Túnis og hins vegar frá Spáni. Fiskisaltið kemur aðallega frá Túnis en götusaltið fáum við enn frá Spáni,“ segir Hilmar og bætir við að öllu götusalti sé landað hér í Hafnarfirði og telji tugi þúsunda tonna á ári en fiskisaltinu sem kemur oft í sekkjum sé landað víðs vegar um landið. Þá koma að jafnaði tíu skip til þeirra á ári.

Mikil ábyrgð

Að sögn Hilmars er mjög mikið lagt upp úr því að vera með gæðavöru og góða þjónustu. Þá þurfi að  jafnaði að vera til talsverðar birgðar af salti í landinu til þess að mæta kröfum fiskverkenda sem og bæjar- og sveitarfélaga ásamt Vegagerðinni. „Það fylgir því mikil ábyrgð að vera alltaf til staðar og að eiga sem dæmi alltaf salt þegar þarf að hálkuverja götunnar og tryggja þannig umferðaröryggi á vegum landsins.“  

Hann bætir því við að það hafi orðið gríðarleg breyting í þessum geira á undanförnum árum. Það séu mun færri fyrirtæki sem eru að vinna í salt í dag. Hér áður fyrr voru næstum því saltfiskvinnslur í hverju þorpi en núna er þetta í raun alfarið í höndum fárra aðila.

Tryggir viðskiptavinir til margra ára

Hilmar segir að Saltkaup eigi marga trygga og sterka viðskiptavini. Þegar kemur að götusaltinu starfi þeir í alþjóðlegu umhverfi enda um útboð að ræða á á evrópska efnahagssvæðinu. „Bæði Vegagerðin og stóru sveitarfélögin fara í útboð þegar kemur að kaupum á götusalti og þá er vanalega gerður samningur til þriggja eða fimm ára í senn.“

Þá eru flestir stóru aðilarnir í fiskvinnslu viðskiptavinir Saltkaupa og hafa verið til margra ára. „Ég á í góðu samstarfi við Þorbjörn og Vísir í Grindavík, Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum, HSS í Keflavík sem og nokkur öflug fyrirtæki á Snæfellsnesi sem og á Húsavík. Þá eru einnig nokkrar kjötvinnslur og sláturhús sem kaupa af okkur salt sem og stór hluti rækjuiðnaðarins enda við með góða vöru,“ segir Hilmar.

Snjór og ísing skemmtileg

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við starfið segir Hilmar strax: „Það er skemmtilegast þegar það snjóar og er ísing á götunum. Þá veit ég nefnilega að okkar er þörf.“

Þá bætir hann við að hann hafi í raun starfað í kringum sjávarútveginn allt sitt líf og finnist gott að starfa við höfuðatvinnuveginn og það gefi honum mikið að vera í samskiptum við fólk í bransanum. „Hingað kemur líka reglulega fólk af götunni til að kaupa salt til að strá á stéttina sína eða til að drepa illgresi. Það eru líka oft skemmtilegar heimsóknir,“ segir Hilmar og brosir.  

Hafnarsvæðið aðlaðandi

Hilmar hefur starfað hjá Saltkaupum frá árinu 2009 og allan tímann verið á skrifstofunni við Cuxhavengötu. Hann segir dásamlegt að vera við höfnina enda fæddur og uppalinn við sjóinn og kann vel að meta útsýnið. „Mér líkar mjög vel við Hafnarfjörð, þetta er fallegur bær og mér finnst hafnarsvæðið aðlaðandi. Við starfsfólkið hér förum mikið á Kænuna og Tilveruna og stundum á Pulsubarinn en þegar ég fæ erlenda gesti þá verður Tilveran alltaf fyrir valinu,“ segir Hilmar og bætir við að fyrirtækið sé jafnframt duglegt að versla í heimabyggð og sækir því ýmsa stoðþjónusta í sínu nánasta umhverfi.

Handfæraveiðar, börnin og tónlist

Þegar kemur að áhugamálum segist Hilmar gjarnan verja tíma með börnunum sínum og sérstaklega afastelpunum þremur. „Vinnan er samt í raun líka mitt áhugamál. Ég fer í laxveiði en skemmtilegast af öllu er að fara á handfæraveiðar á Bakkafirði þar sem ég er fæddur og uppalinn og á í dag enn æskuheimilið ásamt bróður mínum. Ég er nefnilega landsbyggðartútta alveg út í gegn.“

Tónlist skipar einnig stóran sess í lífi Hilmars, hann spilar bæði á gítar og syngur og var sem dæmi í hljómsveitinni Hver á Akureyri á árum áður. „Enn í dag gríp ég af og til í gítarinn eða hljóðnemann í góðra vina hópi eða á vissum samkomum,“ segir Hilmar að lokum.