Sóltún öldrunarþjónusta

Sóltún öldrunarþjónusta á Sólvangi býður upp á fjölbreytta þjónustu sem skiptist annars vegar í dag-og heimaþjónustu og hins vegar í hjúkrunarheimili. Við hittum Bryndísi Guðbrandsdóttur forstöðumann dag- og heimaþjónustunnar og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Sóltún öldrunarþjónusta á Sólvangi býður upp á fjölbreytta þjónustu sem skiptist annars vegar í dag-og heimaþjónustu og hins vegar í hjúkrunarheimili.

Stór vinnustaður

Fyrirtækið Sóltún öldrunarþjónusta rekur sögu sína aftur til ársins 2002 þegar Sóltún hjúkrunarheimili var stofnað en kom í Hafnarfjörðinn árið 2019 þegar það tók við rekstri Sólvangs sem áður var rekið af ríkinu.

„Það má segja að þjónustan okkar sé tvískipt. Annars vegar er það hjúkrunarheimilið þar sem Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir er forstöðumaður og hins vegar er það dag- og heimaþjónustan sem ég veiti forstöðu,“ segir Bryndís og bætir við að þetta sé stór vinnustaður með um 230 starfsmenn í 130 stöðugildum bara í Hafnarfirði en með starfseminni í Reykjavík, þá eru yfir 400 starfsmenn. „Hérna starfa m.a. læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, djákni, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og íþróttafræðingar ásamt almennu starfsfólki í umönnun. Þá erum við með húsumsjónarmann ásamt starfsfólki í eldhúsi og á skrifstofu þar sem mannauðsdeildin situr.“

Hafnfirðingum þykir vænt um Sólvang

Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi eru í dag 71 íbúar og eftir opnun nýbyggingarinnar árið 2019 er öll aðstaða til fyrirmyndar. „Við finnum að Hafnfirðingum þykir vænt um sinn Sólvang og við berum mikla virðingu fyrir því. Hér er umhyggja fyrir einstaklingnum í fyrirrúmi og við reynum að skapa notalegan heimilisbrag. Markmið okkar er að mæta þörfum hvers íbúa þar sem sjálfsákvörðunarréttur hans er virtur, styrkja heimilismenn til sjálfshjálpar og auðvelda þeim að aðlagast breyttum aðstæðum.“

Þrískipt þjónusta

Dag- og heimaþjónustan sem Bryndís hefur yfirumsjón með er í raun þrískipt. „Við erum með tvískipta dagdeild hér í húsi, þá er það heimaþjónustan Sóltún Heima og það nýjasta hjá okkur er Sóltún Heilsusetur sem opnaði hér í húsi fyrir rúmu ári síðan og er nýtt og spennandi úrræði sem á sér enga hliðstæðu á landsvísu.“  

Sóltún Heilsusetur

Á heilsusetrinu fer fram létt endurhæfing sem er sérstaklega hugsuð sem fyrirbygging og lenging á því að fólk geta búið heima sem og aukning á lífsgæðum. Úrræðið er fyrir einstaklinga sem eru orðnir 67 ára eða eldri og búa á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum með  39 rúm og fólk kemur til okkar í fjórar til sex vikur í senn. Það er heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins og heimaþjónusta Reykjavíkur sem sækir um fyrir sína skjólstæðinga sem uppfylla skilyrði fyrir endurhæfingunni,“ segir Bryndís en dvölin er greidd af Sjúkratryggingum Íslands.

Á heilsusetrinu fer fram einstaklingshæfð þjálfun sem felst m.a. í  virkniæfingum með iðjuþjálfa, fjölbreyttri fræðslu, daglegum hópatímum í umsjón íþróttafræðings, DigiRehab þjálfun og þá hittir hver og einn sjúkraþjálfara tvisvar í viku. „Við erum með þessu úrræði líka vissulega að rjúfa félagslega einangrun sem er því miður algeng hjá eldra fólki. Eftir dvölina hér mælist marktækur munur á andlegri, líkamlegri sem og félagslegri heilsu sem er vissulega markmiðið. Þá er líka gaman að segja frá því að fólk er ákaflega ánægt hjá okkur. 96% vilja koma aftur og 88% segjast myndu mæla með dvölinni fyrir aðra,“ segir Bryndís og brosir. Þörfin á fyrirbyggingu og endurhæfingu er mikil og verður að sögn Bryndísar enn meiri í framtíðinni.  

Sóltún Heima

Heimaþjónustan sem Sóltún býður upp á er alhliða þjónustu við eldri borgara og aðstandendur sem stuðla að bættum lifsgæðum á heimilinu. Í henni felst heilsuefling í formi heimahreyfingar (DigiRehab), sveigjanleg heimaþjónusta og almenn heilbrigðisþjónusta og er í boði á höfuðborgarsvæðinu.

„Við aðstoðum við böðun, lyfjagjöf og annað sem fylgir heimahjúkrun en félagsþjónustan er einnig stór hluti af okkar þjónustu. Hún felst stundum í einfaldri viðveru sem ættingjar ná ef til vill ekki að sinna. Við gefum fólki að borða, eldum með þeim, spilum við viðkomandi eða förum með þeim til fótaaðgerðarfræðings eða á kaffihús. Við gerum í raun allt sem fólk biður okkur um svo framarlega að það sé innan skynsamlegra marka.“

Heimahreyfingin mikill gullmoli

Eitt af því sem bæði er notað í heilsusetrinu sem og í heimaþjónustunni er svokölluð heimahreyfing eða DigiRehab sem Bryndís er ákaflega ánægð með og segir að hér sé á ferðinni mikill gullmoli. „Þetta er prógramm sem er hannað af dönskum sjúkraþjálfurum og hægt er að nota bæði í gegnum síma og í Ipad. Skjólstæðingur er skimaður og fær i kjölfarið sérhæft prógramm fyrir sig sem eru vanalega sex æfingar útfærðar tvisvar í viku í 20-30 mínútur í senn. Það þarf ekki fagaðila til að sjá um æfingarnar og því getur almennur starfsmaður í heimaþjónustu eða á heilsusetrinu aðstoðað viðkomandi. Svona velferðartækni mun að öllum líkindum aukast til muna í framtíðinni þó vissulega sé mikilvægt að hugur, hönd og hjarta sé áfram til staðar í allri þjónustu,“ segir Bryndís og bætir við að reynslan í Danmörku sýni að  hægt er að spara gífurlega fjármuni með prógrammi eins og þessu þar sem það styrki fólk og minnki þörfina á félagslegri þjónustu.

Mikil virkni í dagdvölinni

Á jarðhæðinni í gamla hluta Sólvangs er í boði tvenns konar dagdvöl. Annars vegar er það almenn dagdvöl fyrir Hafnfirðinga 67 ára og eldri sem er starfsrækt alla virka daga. Þar er unnið að því að virkja fólk og virkja félagsleg tengsl. „Við erum með morgunmat, hádegismat og síðdegiskaffi. Þá er alltaf einhver dagskrá líkt og stólaleikfimi, göngutúrar, bingó, tónlist og þá er mikið spilað og prjónað. Fólk er sótt á leigubíl og flestir eru hjá okkur tvo daga í viku en við erum með 14 pláss á hverjum degi svo þetta er um 30 manna hópur sem kemur í hverri viku.“

Hins vegar er sérhæfð dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun. „Þar erum við með tólf pláss og mikil áhersla lögð á andlega, félagslega og líkamleg virkni. Þessi hópur sér sem dæmi um hænurnar okkar úti í garði en stundum blöndum við hópunum líka saman t.d. þegar við erum með bingó eða ball,“ segir Bryndís.

Þakklætið mikið

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við starfið segir Bryndís það vera fjölbreytileikinn en að hennar sögn er enginn dagur eins. Þá sé það þakklætið frá skjólstæðingum sem gefi henni mest. „Gleðin sem ríkir hér í húsinu er ákaflega gefandi. Það þarf svo lítið til að gleðja fólkið okkar. Eitt lítið bros getur fengið alla til að verða glaða. Þá finn ég einnig frá ættingjum að við erum að gera gagn, hjálpa og létta lífið hjá fólki.“

Fallegur hafnfirskur andi

Bryndís hefur núna starfað hér í Hafnarfirði í rúm tvö ár og segist upplifa bæinn mjög sterkt í gegnum starfið. „Þetta er svo fallegur bær og greinilega mikil samstaða meðal íbúa og þeim þykir vænt um bæinn sinn. Ég hef í rauninni aldrei unnið á eins fallegum stað, útsýnið yfir lækinn er dásamlegt og það er mikil sál á Sólvangi og hér er gott að vera,“ segir Bryndís.

Hún bætir við að þá sé ákaflega mikil nánd hér sem starfsemin á Sólvangi græði svo sannarlega á. „Við eigum í mjög góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og fáum sem dæmi reglulega heimsókn frá leikskólanum á Hörðuvöllum og frá tónlistarskólanum.  Ættingjar eru einnig mjög viljugir til þess að hjálpa til og hafa sem dæmi gefið okkur sjónvörp, tæki og tól fyrir leikfimi, pússl og sérhæft dót fyrir fólk með heilabilun. Þá hafa fyrirtæki líka reynst okkur vel og eitt sinn kom veitingastaður og grillaði handa öllum.“

Góðar bækur og helgar matseld

Þegar Bryndís er ekki í vinnunni elskar hún að lesa góðar bækur og elda góðan mat. „Já mér finnst gaman að elda en eiginlega bara um helgar þegar ég get gefið mér tíma við matseldina, þetta dagsdaglega hvað á að vera í matinn er ekki eins skemmtilegt,“ segir Bryndís og hlær og bætir við að þá stundi hún mikið útivist og mæti í ræktina og nýtur þess jafnframt að vera með fjölskyldu og vinum.