Ventum

Ventum á Borgahellu veitir ráðgjöf og selur loftskiptakerfi með varmaendurvinnslu sérstaklega fyrir heimili og minni atvinnuhúsnæði. Við hittum byggingarverkfræðinginn og framkvæmdastjórann Eirík Á. Magnússon og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Ventum á Borgarhellu veitir ráðgjöf og selur loftskiptakerfi með varmaendurvinnslu sérstaklega fyrir heimili og minni atvinnuhúsnæði

Heillaður af loftgæðum

Ventum var stofnað árið 2020 en hugmyndina að fyrirtækinu má rekja aftur til ársins 2014. „Strax í verkfræðináminu heillaðist ég af öllu sem snýr að loftgæðum í húsnæði. Setningin af hverju að byggja hús sem fólki líður ekki vel í sem prófessor lét eitt sinn falla situr því alltaf í mér. Árið 2014 vann ég á verkfræðistofu og tók þátt í norsku verkefni. Þar kynntist ég Flexit loftskiptakerfinu en þar í landi er krafa um að setja upp svona kerfi í nýbyggingar. Það var þarna sem hugmyndin að eigin fyrirtæki vaknaði en það tók mig hins vegar nokkur ár að taka skrefið,“ segir Eiríkur en æskufélagi hans Karl Sigurður Sigfússon rafmagnsverkfræðingur tók einnig þátt í stofnun fyrirtækisins. Á þessu ári hefur svili Eiríks, Gísli Þór Jónsson viðskiptafræðingur tekið að sér fjármálin og Benjamín Ingi Böðvarsson, byggingatæknifræðingur hefur störf innan tíðar. Þá er fyrirtækið þessa dagana að flytja inn í nýtt húsnæði að Borgahellu 5 sem þeir festu kaup á og verið er að standsetja.

Blæs inn fersku lofti

Loftskiptakerfið sem Ventum selur er með varmaendurvinnslu sem þýðir að það blæs inn fersku lofti og sogar út loftið sem búið er að nota. Varminn úr útsogsloftinu er þá fluttur yfir í ferska loftið og því er skipt um loft í húsnæðinu án þess að tapa varma.

„Þegar það er loftlaust inni hjá okkur þá opnum við oftast gluggann, með misgóðum árangri reyndar þar sem opnanlegu fögin eru stundum of lítil. Þegar við opnum fáum við vissulega inn ferskt loft en töpum þá líka hitanum út. Með kerfinu okkar eru loftgæðin mun jafnari og veitir ferskt temprað loft í öll herbergi, allt árið um kring,“ segir Eiríkur

Teikna upp kerfin

Eiríkur segir að það sé hægt að setja upp svona kerfi í flest öll ef ekki öll hús, það sé bara misflókið. Vissulega sé auðveldast að útfæra þetta í nýbyggingum en þeir hafi einnig selt þetta í eldri hús. „Við aðstoðum fólk alltaf við val á búnaði og útfærslu. Fáum þá sendar teikningar af húsnæðinu og hefjumst handa við að reikna og teikna og velja hentugasta og hagkvæmasta kerfið. Þá gefum við tilboð í efni, útfærum og afhendum kerfið á verkstað,“ segir Eiríkur og bætir við að þeir geti einnig mælt með góðum uppsetningaraðila.

Krafa í svansvottuðum húsum

Það færist sífellt í aukanna að nýbyggingar séu svansvottaðar og sem dæmi eru vissir þróunarreitir hér í Skarðshlíðinni í Hafnarfirði þar sem fæst afsláttur af lóðargjöldum ef hús eru umhverfisvottuð. Þá er algengast að notast við svansvottunarkerfi fyrir íbúðarhúsnæði en í þannig húsum eru ýmsar umhverfisvænar lausnir og þar á meðal er krafa um að vera með loftskiptakerfi líkt og það sem Ventum selur enda sparar það orku.

Að sögn Eiríks eru nokkrir verktakar einnig farnir að setja svona kerfi í allar sínar nýbyggingar. „Þó að þetta sé ekki komið í reglugerð hér á landi, líkt og í Noregi og Danmörku sem dæmi, þá fer þetta að verða neytendakrafa og mun örugglega aukast mikið á næstu árum.“

Fjarlægir svifryk, hávaða, frjókorn og lúsmý

Aðspurður um hverjir ættu að fá sér svona kerfi segir Eiríkur að það sé gott fyrir öll hús þar sem þau fái næg loftskipti. Þá sé svona kerfi líka gott fyrir fólk þar sem það fjarlægi koltvísýringinn sem við öndum frá okkur og komi inn með ferskt loft á móti. „Þetta getur því haft mikil áhrif á svefngæði en samkvæmt fjölmörgum rannsóknum vakna flestir ekki jafn ferskir ef það er of mikið af koltvísýring í svefnherberginu. Þá fylgja kerfinu einnig síur sem koma í veg fyrir að svifryk komist inn sem er sérstaklega gott ef fólk býr nálægt þungri umferðargötu. Sían lokar jafnframt á frjókorn og lúsmý. Eitthvað hefur því verið um að sumarbústaðaeigendur sem hafa verið að berjast við lúsmý setji upp svona kerfi til að geta lokað gluggum og hurðum en fá samt ferskt loft,“ segir Eiríkur.

App fylgir kerfinu

Kerfinu fylgir app og kerfið er nettengt. „Almennt þarf ekki að vera að fikta í stillingunum, kerfið sér í raun um sig sjálft. Þó er sem dæmi hægt að stilla á að heiman ef fólk er að fara í lengra ferðalag og  þá er bara lágmarksvirkni á meðan. Þá er líka viss partýstilling ef margir eru í húsinu en þá fer kerfið á fullt. Einnig er hægt að fá ýmsa aukahluti eins og rakaskynjari, koltvísýringsnema og hreyfiskynjara sem sjá þá um að aðlaga kerfið enn betur. Rakaskynjarinn sér sem dæmi um að það myndist engin móða á speglana á baðherberginu eða þungt loft í þvottahúsinu þar sem kerfið fær skilaboð um að auka loftskiptin.“

Skemmtilegt að bæta einhverju jákvæðu inn í hús

Þegar Eiríkur er spurður hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir hann að það séu mjög spennandi tímar fram undan. „Það er frábært að vera loksins komin í eigin húsnæði og geta tekið á móti fólki og spjallað. Það er líka svo spennandi að vera með nýtt fyrirtæki, ég er í raun að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Þá finnst mér samskipti við viðskiptavini vera ákaflega skemmtileg enda við að bæta einhverju jákvæðu inn í húsið þeirra,“ segir Eiríkur og bætir við að þá fái hann oft þá góðu tilfinningu að hann sé að láta gott af sér leiða.

Góð nágrannastemmning

Eiríkur hefur búið í Hafnarfirði í tíu ár, nánar tiltekið í Norðurbænum og kann ákaflega vel við sig. „Ég er giftur hafnfirskri konu sem fékk mig til að koma hingað og er ég ákaflega ánægður. Hafnarfjörður er bær og hér er allt til alls. Ég er líka sérstaklega heppinn með nágranna, þetta er blandað og gott hverfi og ég er farinn að heilsa fullt af fólki og stemmningin er góð.“

Víðistaðatúnið er í nokkru uppáhaldi en þangað fer fjölskyldan gjarnan og nýi hoppubelgurinn afar vinsæll hjá dætrunum. Fjölskyldan fer einnig gjarnan á Hvaleyrarvatn, skautar þar á veturna og hjólar eða veiðar á sumrin.

„Ég vildi gjarnan vera með fyrirtækið hér í Hafnarfirði ekki síst til að vera nálægt heimilinu en þá er líka afar hagstætt að vera með stór vöruhús hér í næsta nágrenni sem sparar tíma fyrir okkur.“

Eiríkur lengst til vinstri ásamt þeim Benjamín og Gísla

Blak, hjól og skíði

Eiríkur æfir blak með Blakfélagi Hafnarfjarðar og segist hafa kynnst mikið af frábæru fólki þar. „Ég hjóla líka töluvert á fjallahjóli, stundum til og frá vinnu, stundum með fjölskyldunni en svo er stefnan á að taka það inn í rútínuna að taka hjólapásur í vinnunni enda góðar hjólaleiðir í nágrenninu. Við fjölskyldan förum líka mikið á skíði á veturna en dæturnar æfa báðar skíði,“ segir Eiríkur að lokum.