Hólmasker

Í Hólmaskeri á Lónsbraut eru árlega um 4000 tonn af ýsu handflökuð af reynslumiklu starfsfólki. Við hittum framkvæmdastjórann Albert Erluson og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Í Hólmaskeri á Lónsbraut eru árlega um 4000 tonn af ýsu handflökuð af reynslumiklu starfsfólki.

Stutt saga en mikil þekking

Fiskvinnslan Hólmasker tók til starfa í nóvember árið 2021 að Lónsbraut 1 en í húsnæðinu hefur verið unnið með fisk í mörg ár. „Ég hef starfað í kringum fiskvinnslu í yfir 30 ár og ætlaði í raun að hætta þar sem mér fannst vanta tryggan aðgang að góðu hráefni en viðskipti í gegnum fiskmarkaði geta oft á tíðum verið ótrygg og erfið. Ég var samt með áhugavert rekstrarmódel í höfðinu, mjög góð tengsl og þekkingu. Á endanum fékk ég því Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum til liðs við okkur en þeir eiga 75% í fyrirtækinu og við hjónin 25%,“ segir Albert en þar með var hann búinn að tryggja sér sterkan aðgang að hráefni og samstarfið hefur gengið einkar vel.

Auka virði ýsunnar

Fyrirtækið vinnur ýsu sem Vinnslustöðin hafði áður selt óunna á markað hér á landi og til Bretlands. Hugmynd Alberts var að vinna fiskinn og búa þannig til meiri virðisauka úr því sem veitt er og nýta sína þekkingu og aðgang að markaði. „Við ákváðum því að kaupa reksturinn sem var hér áður í húsi. Þessi frábæra aðstaða var því til staðar og það sem meira er að við fengum mjög gott starfsfólk sem þekkti þessa vinnu og húsnæðið.“

Sterkir á Ameríkumarkaði

Í Hólmaskeri eru um 4000 tonn af ýsu verkuð á ári. Þessa vikuna verða þetta líklega um 80 til 100 tonn en mesta álagið er frá september til miðjan desember og síðan fer allt aftur af stað um miðjan janúar fram í apríl en sumrin eru oftast rólegri enda berst þá minna að af fiski.

Stærsti kaupandinn er High Liner Foods sem er ákaflega öflugur dreifingaraðili frosinna sjávarafurða um alla Norður Ameríku. „Þetta fyrirtæki kaupir afurðir af nokkrum íslenskum fyrirtækjum en við erum þeirra stærsti birgi. Vörurnar fara síðan frá þeim áfram til veitingastaða, hótela og mötuneyta.“  

Hólmasker er einnig með aðra kaupendur og þar á meðal nokkra sem vilja ferska ýsu sem fer þá samdægurs út með flugi. Hluti afurða þeirra fer á íslenskan markað en það er í minna lagi.

Mikil sérstaða á markaði

Aðspurður um sérstöðu Hólmaskers á markaði segir Albert að hún sé mikil. „Við vinnum eingöngu ýsu, sem er viðkvæmur fiskur. Þá handflökum við fiskinn og hann er líka handvalinn við pökkun til að tryggja sem mestu gæði.  Við erum einnig einungis með fisk veiddan í íslenskri lögsögu og því með  MSC vottun,“ segir Albert og bætir við að þá sé hann líka með ákaflega gott og reynslumikið starfsfólk en það er vissulega ekki hlaupið að því að finna góða handflakara í dag.  

Þrennir bræður, hjón og foreldrar

Hjá Hólmaskeri starfa í dag um 40 manns og margir með áralanga reynslu á bakinu. „Ég er mjög ánægður með starfsfólkið okkar sem á flest rætur að rekja til Tælands og Póllands en nýverið hófu einnig tvær konur frá Úkraínu störf hjá okkur. Þetta er vel gert fólk, duglegt, samviskusamt og jákvætt. Þá er líka mikið um fjölskyldutengsl innan fyrirtækisins. Hér starfa þrennir bræður, þar af einir tvíburar. Eiginkonur beggja tvíburana vinna einnig hér sem og sonur einna hjónanna og frændi.„

Aðspurður um hvernig gangi að fá fólk til starfa segir Albert að núna sé staðan ágæt en fyrir nokkrum árum hafi verið erfitt að finna fólk sem hafði unnið í fiski og vilji vinna í honum en þetta með viljann er ákaflega mikilvægt að sögn Alberts sem segir jafnframt að launakjör þeirra sem vinni vel séu góð.

Verðmætt starfsfólk

Húsnæði Hólmaskers á Lónsbrautinni er um 1800 fermetrar og var byggt fyrir 15 árum. Þar er öll aðstaða til fyrirmyndar og Albert segir að þetta sé langskemmtilegasta húsið sem hann hefur verið með vinnslu í. „Hefðbundnar fiskvinnslur eru í dag flestar í góðu húsnæði. Þar er ekki kalt og blautt eins og tíðkaðist áður fyrr og þá hefur allra erfiðustu störfunum verið eytt út. Aðstaða starfsfólks er jafnframt orðin miklu betri enda mikilvægt að hlúa vel að þeim sem vinni erfiðis störf. Starfsfólkið er nefnilega verðmæti fyrirtækisins sérstaklega þar sem hér er flestallt gert með höndunum.“  

Mannlegu samskiptin lærdómsrík

Þegar Albert er spurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir hann það vera að daglega gerist eitthvað nýtt þó það líti ekki endilega út fyrir það. Hann bætir við að stundum geti það reyndar líka verið það leiðinlegasta. Að borga reikninga á réttum tíma og vinna með öflugum samstarfsfélögum er að hans mati einnig skemmtilegt.

Þá finnst Alberti mannlegu samskiptin við starfsfólkið oft áhugaverð og lærdómsrík. „Ég hef í gegnum árin starfað mikið með fólki af erlendum uppruna. Þannig kynnst mismunandi menningu og viðhorfum og veit að ég þarf sem dæmi oft á tíðum að taka mið af því í samtölum við starfsfólk, enda þau með ákaflega ólíkan bakgrunn. Ég hef þroskast mikið á þessu og mistökunum hefur vissulega fækkað með árunum,“ segir Albert og brosir.

Gott að vera með rekstur í  Hafnarfirði

Albert býr í dag á Álftanesinu en er giftur Gaflara og bjó í Hafnarfirði í um tíu ár. Hann segist vera ákaflega ánægður með að vera með rekstur í Hafnarfirði, hér sé enn viss menning fyrir því að vinna fisk og þó nokkuð af fólki hér á svæðinu sem vilji vinna í fiski.

„Staðsetningin er frábær fyrir fyrirtækið, stutt í mjög margt af því sem við þurfum hérna inn í húsið. Þá er nálægðin við flugvöllinn mikill kostur,“ segir Albert sem sækir einnig ýmsa þjónustu hér í bænum eins og aðrir Álftnesingar.  

Albert ásamt Helgu Guðrúnu, dóttur sinni, sem nýverið hóf störf í Hólmaskeri

Með hjóladellu

Þegar kemur að áhugamálum þá eru hjólreiðar númer eitt, tvö og þrjú. „Ég er með algjöra hjóladellu og hún tekur núna allt plássið. Ég er í hafnfirska hjólaklúbbnum Bjarti og fer með þeim í þrjá hjólatúra á viku sem að meðaltali taka um fjórar klukkustundir og við hjólum því nokkur þúsund kilómetra á ári.“

Þá segist hann stundum fara að veiða en mun minna en áður. Ferðalög með fjölskyldunni, bæði innanlands og erlendis eru honum einnig kær. „Ég er sveitastrákur og finnst gott að komast út á land, en við fjölskyldan fórum sem dæmi núna í sumar hringferð um Vestfirði sem var ákaflega ánægjuleg,“ segir Albert að lokum.