Hraunhamar

Hraunhamar er elsta fasteignasala bæjarins og fagnar 40 ára afmæli í nóvember. Við hittum einn eigandann Helga Jón Harðarson sölustjóra og fengum að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Hraunhamar er elsta fasteignasala bæjarins og fagnar 40 ára afmæli í nóvember.

Saga Hraunhamars

Fasteignasalan Hraunhamar, sem dregur nafnið sitt af hafnfirska hrauninu og Hamrinum, var stofnuð árið 1983 af ellefu framamönnum í bænum. Árið 1990 buðu þeir Magnúsi Emilssyni fasteignasala og Helga Jóni Harðarsyni, sem hafði þá starfað sem fasteignasali í nokkur ár í Reykjavík, að kaupa stofuna. Magnús og Helgi slógu til og hafa átt farsælt samstarf alla tíð. Þá kom Freyja Sigurðardóttir, fasteignasali og eiginkona Helga fljótt inn í reksturinn og er fjármálastjóri fyrirtækisins í dag.

Hraunhamar var á Reykjavíkurveginum á þessum tíma en við stækkuðum hratt og fluttum okkur hingað á Bæjarhraunið árið 2003 í eigið húsnæði. Í dag eigum við allt húsið en Hraunhamar var til margra ára á tveimur hæðum öðru megin í húsinu. Síðasta árið höfum við hins vegar verið að leggja undir okkur alla neðri hæðina og gert glæsilegar breytingar á húsnæðinu,“ segir Helgi.

Dagar í lífi fasteignasala

Á Hraunhamri er mikið lagt upp úr því að veita framúrskarandi þjónusta hvað varðar sölu og kaup á fasteignum. „Við erum í flestum tilfellum að tala um aleigu fólks og því er mikilvægt að gera þetta vel. Okkur finnst einnig sérstaklega mikilvægt að gefa sér góðan tíma með unga fólkinu sem er að koma nýtt inn á markaðinn, útskýra allt vel og fara í gegnum ferlið frá upphafi til enda,“ segir Helgi.

Aðspurður hvernig hefðbundinn dagur í lífi fasteignasala sé þá segir Helgi að dagarnir séu fjölbreyttir. Helstu verkefni fasteignasala er að skoða, sýna og verðmeta fasteignir og sinna öllu sem við því kemur. „Þá erum við líka vissulega mikið að skoða fasteignir. Gefum okkur þá góðan tíma með seljenda til að fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Stór hluti starfsins snýst jafnframt um mannleg samskipti þar sem við hittum allskyns fólk á öllum aldri. Allt þetta ferli fer að mestu leyti í gegnum síma og tölvu í dag. Sem dæmi er stór hluti kauptilboða undirrituð með rafrænni undirskrift nú til dags. Undirritun kaupsamninga fer fram hjá okkur á skrifstofunni. Rafrænar þinglýsingar á afsölum hafa þá litið dagsins ljós en er það enn í mikilli þróunarvinnu.“

Staðan á markaði

Á löngum ferli hefur Hraunhamar vissulega gengið í gegnum ýmsar hægðir og lægðir. „Já sölur geta rokkað mikið á milli ára. Það er vissulega samdráttur núna frá því i fyrra en árin þar á undan voru fín og í raun verið góð sala allt frá hruni. Það er erfitt að sjá hvernig þetta á eftir að þróast, verðbólgan er að minnka en vextir enn að hækka og það hægir vissulega á markaðnum. Ég sé í raun enga mikla breytingu á næstu mánuðum en vona að markaðurinn fari að rétta vel úr sér næsta vor,“ segir Helgi og bætir við að nýleg innspýting frá stjórnvöldum með hlutdeildarlán til unga fólksins frá HMS sé vissulega af hinu góða. Nú geti ungt fólk sem er að koma nýtt inn á markaðinn eða fólk að koma af leigumarkaði eftir lágmark fimm ár fengið vaxta- og afborgunarlaust lán fyrir um 20 – 30 % af kaupverði.

Helgi er annars ákaflega ánægður með þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í Hafnarfirði þessa stundina og er bjartsýnn á framtíðina.

Fjölbreyttar eignir

Helgi segir að þau á Hraunhamri séu stolt og um leið þakklát fyrir að hafa fengið að aðstoða þúsundir fjölskyldna að finna draumaheimilið síðastliðin 40 ár. Þau selja þó ekki eingöngu íbúðarhúsnæði heldur líka atvinnuhúsnæði, sumarhús, jarðir og hesthús.  „Ég segi alltaf að engin eign sé of lítil og heldur ekki of stór fyrir okkur,“ segir Helgi.

Helsta markaðssvæði Hraunhamars er vissulega Hafnarfjörður, Garðabær og nágrenni en þau hafa tekið að sér sölur víðs vegar um landið. Að sögn Helga sækja Hafnfirðingar annars mikið í hafnfirskar fasteignasölur og heilu fjölskyldunnar koma alltaf aftur og aftur til þeirra en margir vilji líka helst láta sama aðilann sjá um kaup og sölu og því mikilvægt að vera með gott flæði af eignum inn í fyrirtækinu.

Gott starfsfólk

Í dag telur Hraunhamar níu starfsmenn og margir þeirra verið lengi hjá stofunni. „Okkur helst vel á starfsfólki‘‘ segir Helgi og ítrekar að hann sé ákaflega ánægður með sinn starfsmannahóp en þar á meðal er Glódís dóttir Helga og Freyju sem er löggiltur fasteignasali.

Vera innan um skemmtilegt fólk

Þegar Helgi er spurður hvað sé skemmtilegast við starfið svarar hann strax að það sé að vera innan um skemmtilegt fólk. „Lykilatriðið er annars að hafa gaman af vinnunni þá getur maður haldið endalaust áfram. Ánægðir viðskiptavinir gefa mér mjög mikið og þá veit ég líka að ég sé að gera rétta og mikilvæga hluti. Fasteignasala snýst ekki bara um fasteignir heldur líka um fólkið sem er að kaupa og selja. Ég fæ að hitta alls konar fólk á öllum aldri, en ég legg mig alltaf fram við að veita öllum góða þjónustu. ‘‘ segir Helgi sem er líka að eigin sögn fasteignasjúkur og finnist alltaf jafn gaman að fara að skoða eignir.

Gaflari

Helgi er Gaflari, fæddur á Sólvangi, alinn upp bæði í norður- og suðurbænum og var bæði í FH og Haukum. Í dag býr Helgi annars í Áslandinu og eldri dæturnar í Skarðshlíðinni, sem hann er ákaflega ánægður með.   

Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann það vera bæjarfílinginn. „Hér þekkja allir alla eða þykjast það allavega. Mér finnst það í raun vera forréttindi að vera alinn hér upp í kringum hraunið, hamarinn og lækinn. Þá finnst mér höfnin líka vera mikilvæg en þaðan á ég margar góðar minningar. Í dag fer ég regluleg í Ásvallalaug  og stundum í Kænuna í morgunkaffið með nokkrum ekta göfflurum.“

Ef Helgi á að nefna einhvern uppáhaldsstað í Hafnarfirði yrði það að vera Hvaleyrarvatnið og í raun allt upplandið sem hann nýtir mjög vel enda á fullu í hestunum.

Hestar, golf og veiði

Þegar kemur að áhugamálum er að nógu að taka hjá Helga. Hann spilaði bæði fótbolta og körfubolta á sínum yngri árum en undanfarin ár hefur hann verið í hestunum, veiði og golfi. „Hestamennskan er í dag númer eitt, þar er ég komin í ræktun sem er ákaflega tímafrek en líka afar skemmtileg. Ég fikta aðeins við golfið en frúin er komin á kaf í það. Ég stundaði mikið veiðar fyrir nokkrum árum en þær hafa minnkað mjög mikið enda tíminn orðinn af skornum skammti. Við erum annars öll fjölskyldan saman í hestunum sem er dýrmætt og ég þakklátur fyrir að dæturnar séu miklar hestakonur,“ segir Helgi brosandi að lokum.