Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn er samkvæmt heimildum ein elsta höfn landsins en starfsemi hennar er í dag ákaflega mikil og fjölbreytt og ýmsar framtíðarhugmyndir á teikniborðinu. Við hittum Lúðvík Geirsson, hafnarstjóra til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Hafnarfjarðarhöfn er samkvæmt heimildum ein elsta höfn landsins en starfsemi hennar er í dag ákaflega mikil og fjölbreytt og ýmsar framtíðarhugmyndir á teikniborðinu.

Saga hafnarinnar

Rekja má formlega starfsemi Hafnarfjarðarhafnar aftur til ársins 1911 eða um þremur árum eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi. Skip hafa þó siglt til Hafnarfjarðar í margar aldir og höfnin ávallt verið mikil samgöngumiðstöð. Hér er traust og örugg höfn frá náttúrunnar hendi en fyrr á öldum lágu skipin á sumartíma á akkerum úti á Firðinum og siglt var með léttabátum í land.

„Þegar við fengum kaupstaðarréttindi var eitt af fyrstu verkefnum bæjarins að skipa hafnarstjórn og hefja undirbúning að byggingu hafnarmannvirkja. Til þess vantaði þó vissulega peninga og með stofnunar hafnarsjóðs 1911 var hægt að byrja innheimtu hafnargjalda af legunni og tryggja tekjur til framkvæmda og byrja að byggja upp blómlega höfn“, segir Lúðvík og bætir við að hér hafi fyrsti Gullfossinn lagst að bryggju árið 1915 enda eina hafskipabryggja landsins á þeim tíma hér í Firðinum og Hafnarfjarðarhöfn því lengi verið ákaflega mikilvæg fyrir stærri skip. Upp frá þessu hófst mikil togaraútgerð og bærinn stækkaði ört.

Umfangsmikil starfsemi

Í dag telur Hafnarfjarðarhöfn nokkrar hafnir. Fyrsta ber að nefna Flensborgarhöfn þar sem smábátarnir eru, að Óseyrarbryggju koma fiskibátarnir, farm-  og farþegaskipin leggja við Suðurbakka en við Hvaleyrarbakka liggja togarar og stærri flutningaskip. Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar liggja við Háabakka sem er nýjasta hafnarsvæðið. Höfnin í Straumsvík er einnig hluti af starfsemi Hafnarfjarðarhafnar en hún þjónar aðallega álverinu en þangað eru einnig gámaflutningar.   

„Við erum ein af stærstu höfnum landsins, sú fjórða stærsta í rauninni. En þá ber að taka fram að höfn er ekki bara bryggjur og hafnarbakkar. Það þarf að vera land sem fylgir fyrir umfangsmikla hafnarstarfsemi. Hér í gegn fara um milljón tonn af vörum á hverju ári, langmest í gegnum Straumsvík í tonnum, en umferðin er mest hér í Suðurhöfninni. Við fáum líka til okkar um 30-40 þúsund tonn af fiski árlega,“ segir Lúðvík en hingað koma mikið af grænlenskum togurum en einnig frá Spáni og Noregi. Hann segir að hvað varði vöruflutninga þá sé töluverður innflutningur af malarefni frá Noregi fyrir malbiks- og steypustöðvar,  olía, bensín, asfalt og salt.  Héðan sé einnig flutt út töluvert af brotajárni, mest til Spánar.

Helstu verkefnin

Aðspurður hver séu helstu verkefni Hafnarfjarðarhafnar segir Lúðvík að það sé vissulega að tryggja móttöku og þjónustu við sífellt fleiri og stærri skip. Hafnsögumenn fari ávallt um borð í stærri skipin og aðstoði skipstjóra til að tryggja að þeir komist til og frá höfninni. „Þá erum við einnig með mikla þjónustu í kringum svæðið, afgreiðum vatn og rafmagn og höldum öllu hreinu og pössum upp á öryggi,“ segir Lúðvík og bætir við að þá sé einnig mikið um ýmsa viðhaldsvinnu sem höfnin sinni að sumu leiti sjálf en kaupi aðra þjónustu út.

Mesta álagið er vanalega á vorin og í byrjun sumars. „Þegar vertíð í fullum gangi í apríl, maí og júní er nóg að gera í löndun og flutningum. Það er samt farið að teygjast aðeins á háannatímanum hjá okkur núna þegar farþegaskipunum fjölgar og verið annasamt í júlí og ágúst. Annars fer þetta reyndar að verða nokkur samfella allt árið um kring.“

Þéttur starfsmannahópur

Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar eru 15 talsins. Það eru hafnarverðir, hafnsögumenn ásamt starfsfólki á Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar eru 15 talsins. Það eru hafnarverðir, hafnsögumenn, skipstjórar og vélstjórar ásamt skrifstofufulltrúa og hafnarstjóra. „Við erum með mjög góða og trausta starfsmenn sem hafa flestir langa reynslu af störfum á sjó og við skipsstjórn.  Margir koma til okkar þegar þeir  vilja koma í land og enda gjarnan sinn starfsaldur hér. Það hentar okkur vel enda viljum við fá vana menn sem hafa verið að sigla á stórum skipum. Þetta er góður og þéttur hópur sem sinnir starfinu af mikilli festu og passar upp á öryggi. Hér ganga allir í flest störf og samheldnin mikil og ég er ákaflega ánægður með starfshópinn enda mikilvægt að hafa gott fólk,“ segir Lúðvík og brosir.

Mikil fjölgun skemmtiferðaskipa

Í sumar hefur verið töluverð aukning á komu skemmtiferðaskipa. Undanfarin ár hafa um tíu skip  komið til Hafnarfjarðar en í ár verða þau um 30 talsins og svipað verður upp á teningnum næstu árin. Hafnarfjarðarhöfn er fyrsta höfnin hér á landi sem er kom upp háspennu landtengingu fyrir stærri skip, eða í byrjun sumars 2022, en það var mjög stórt skref í umhverfismálum. „Það var tekin ákvörðun fyrir nokkrum árum í hafnarstjórn að horfa til framtíðar og okkar umhverfisstefnu og setja upp svona búnað. Þetta hefur gengið mjög vel í alla staði og við erum því stolt af þessu framtaki og sérstaklega að vera leiðandi í þessari þjónustu hér á landi,“ segir Lúðvík. Þetta hentar vel fyrir þessa stærð af farþegaskipum sem við erum að taka hér inn, en það vantar að koma upp tengibúnaði í fleiri skipum. Við tengjum einnig stærstu frystitogarna með þessum búnaði og þeim skipum fer fjölgandi sem geta tengst.

Aðspurður hvort þessa aukningu í komu skipa megi eingöngu rekja til þessara auknu þjónustu segir Lúðvík að hún hjálpi vissulega til en það sé samt bara almenn aukning á komu skipa hingað norður eftir. „Það hafa nokkur svæði lokast út af stríðsástandinu og því eru siglingar að færast meira hingað norður í haf. Áhugi fólks á norðurslóðum hefur líka aukist í tengslum við loftlagsumræður,“ segir Lúðvík en ítrekar að það sé vissulega ákveðið púsluspil að koma um 500 skipum hingað árlega sérstaklega þegar sumt fari alls ekki saman líkt og þungaflutningar og farþegaflutningar.

Framtíðaráform

Það eru ýmis stór framtíðaráform á borði hafnarstjóra. „Við þurfum nauðsynlega að stækka smábátahöfnina sem er sprungin og þá eru áform um að byggja nýja höfn í Straumsvík í tengslum við Carbfix verkefnið. Við látum okkur jafnframt dreyma um að ef það verður stækkað í Straumsvík að geta flutt mest allt af þungaflutningum þangað. Þá er stutt í iðnaðarhverfin, við léttum á höfninni hérna og getum þá einnig aukið þjónustu hér fyrir aðra aðila, bæði farþegaflutninga og viðgerðar- og viðhaldsþjónustu sem er umtalsverð hér á hafnarsvæðinu og í kringum flotkvínna og bátasmiðjurnar. Framtíðartækifærin eru því fjölmörg hjá Hafnarfjarðarhöfn.“

Lifandi starf og alltaf eitthvað nýtt

Þegar Lúðvík er spurður að því hvað sé skemmtilegast við vinnuna er hann fljótur að svara að þetta sé ákaflega lifandi starf. „Það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi og það að hafa nóg að gera er í raun það áhugaverðasta. Mér finnst líka gaman að takast á við ný verkefni, fá að móta framtíðina og taka þátt í spennandi uppbyggingu. Gott samstarfsfólk er líka lykillinn að því að hafa gaman í vinnunni.“

Fólkið og samfélagið best

Lúðvík er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, er fyrrum bæjarstjóri og hefur alltaf búið hér. Hann segist eiga mikla tengingu við höfnina, var trillustrákur á sínum yngri árum og settist fyrst í hafnarstjórn árið 1986.

Það sem honum finnst best við Hafnarfjörðinn er fólkið og samfélagið. „Þó að bærinn hafi þanist út og stækkað þá erum við alltaf þorpið í þorpinu. Það gerir nálægðin og umhverfið. Við eigum saman þennan fallega og hlýlega fjörð. Þessi mikla nálægð smitast út í fólkið og það að hafa höfnina og bátana inn í miðjum bæ er það sem gerir bæinn okkar sérstakan.“

Golf, veiði, bækur og fjölskyldan

Þegar Lúðvík er ekki í vinnunni þá stundar hann gjarnan ýmsa útivist. Spilar golf, fer í stangveiði og í  göngur. „Ég nýt þess líka að lesa góðar bækur en ætli stundirnar með fjölskyldunni séu ekki þær bestu,“ segir Lúðvík að lokum.   

Myndir: Nokkrar úr safni Hafnarfjarðarhafnar, loftmyndir frá Guðmundi Fylkissyni og aðrar frá okkur í markaðsstofunni.