Katrín Þórey gullsmiður

Gullsmiðurinn Katrín Þórey er nýflutt á Strandgötuna þar sem hún hannar, smíðar og gerir við skartgripi. Við hittum Katrínu til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Gullsmiðurinn Katrín Þórey er nýflutt á Strandgötuna þar sem hún hannar, smíðar og gerir við skartgripi.

Byrjaði mjög ung

„Ég hef verið hrifin af skartgripum síðan ég var barn. Ég perlaði hálsmen, armbönd og eyrnalokka þegar ég var 13 ára og seldi á mörkuðum og gaf líka vinkonum mínum. 16 ára fór ég á mitt fyrsta gullsmíðanámskeið í Tækniskólanum og sótti í raun fjögur námskeið hjá þeim áður en ég fór út að læra,“ segir Katrín sem lærði gullsmíði í Pforzheim í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan árið 2018.

Hún segir að Pforzheim sé nokkurs konar gullsmíðabær, yfirleitt kallaður gullbærinn og skólinn hennar er einn af elstu gullsmíðaskólum í heimi. Eftir að hafa verið bent á skólann af gullsmiði hér heima þá setti hún sér markmið að komast inn í hann og fékk mikinn stuðning foreldra sinna við að láta þennan draum verða að veruleika fljótlega eftir stúdentsprófið.

Silfur, gull og hvítagull

Í dag smíðar Katrín hringa, hálsmen, eyrnalokka og armbönd fyrir öll kyn og er með nokkrar vörulínur í silfri en smíðar líka úr gulli og hvítagulli. „Ég byrjaði að vinna með TvisvarxTveir línuna mína þegar ég var úti í námi og þar urðu líka fyrstu hlutirnir í Lukkulínunni minni til. Lukka er í raun fjögurra smára lína og ég segi alltaf að með þeim gripum fylgi viss auka lukka. Hamraða línan mín er ein sú nýjasta en ég nota ákveðinn hamar við gerð þeirra gripa sem hafa verið ákaflega vinsælir.“ 

Þá segist Katrín einnig vera að vinna aðeins með perlur þessa dagana sem eru greinilega að koma aftur í tísku. Þá sé hún alltaf að prufa sig eitthvað áfram og gera nokkra einstaka muni og leyfir sér oft að gera eitthvað fríhendis í gulli.

Sérpantanir og viðgerðir

Hluti af starfi Katrínar er einnig að smíða skartgripi eftir sérpöntunum. „Fólk kemur til mín með alls konar hugmyndir sem ég reyni að útfæra á sem bestan máta. Sameinaði sem dæmi tvo gamla giftingahringi nýverið, gerði nefhring úr gömlu hvítagullsmeni frá viðskiptavini og síðan koma reglulega til mín strákar með hugmyndir að trúlofunarhring sem ég reyni þá að uppfylla,“ segir Katrín og brosir. Hún tekur líka gjarnan að sér ýmsar viðgerðir og gleðst yfir því að geta gert við gamla hluti. Kosturinn við gull og silfur sé nefnilega að það er alltaf hægt að endurvinna eitthvað úr því.

Genau á Strandgötunni

Fyrir nokkrum vikum flutti Katrín með smíðaverkstæðið sitt á Strandgötu 43 og er þar nú með verslun og vinnustofu ásamt Elísabet Maríu systur sinni sem er fatahönnuður og lærði í París. „Við systur vorum báðar búnar að vera með vinnuaðstöðu heima hjá okkur í nokkurn tíma þegar við tókum fyrsta skrefið í fyrra með því að leigja saman vinnustofu á Cuxhavengötu. Draumurinn var hins vegar að finna eitthvað hér í miðbænum og nú erum við mættar hingað á besta staðinn og erum alsælar.“

Vinnustofan þeirra fékk eftir töluverðar vangaveltur nafnið Genau. „Þetta var nú hálfgerður brandari okkar á milli í fyrstu en við vorum búnar að leita mikið að orði sem sameinar það að smíða og sníða. Að lokum völdum við genau, sem er eitt uppáhalds þýska orðið mitt og ég nota enn mikið. Það þýðir í raun nákvæmlega sem er einmitt eitthvað sem við þurfum að hafa að leiðarljósi í okkar starfi,“ segir Katrín ánægð.

Trúlofunar- og giftingahringar í uppáhaldi

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Katrín strax: „Má segja allt?“ Eftir smá umhugsun segir hún að það sé öll þróunarvinna hvort sem það sé með viðskiptavinum eða í eigin höfði. „Það er skemmtileg áskorun að prófa sig áfram og vita í raun ekki hver útkoman verði. Þá er líka ótrúlega gaman að gera trúlofunar- eða giftingahringi sem eru fólki svo ákaflega mikilvægir. Mér finnst einmitt svo fallegt hvað einn lítill hlutur getur verið stór hluti af fólki.“

Katrín bætir við að henni finnist líka gaman að gera við hluti, eitthvað sem er víst ekki alltaf raunin meðal gullsmiða. „Mér finnst svo frábært að nýta hluti áfram, keðjan er ekki endilega ónýt þó hún sé slitin.“

Sjórinn og hraunið

Katrín hefur búið í Hafnarfirði undanfarin ár en er alin upp á Álftanesinu. „Mér finnst ég samt alltaf vera hálfur Hafnfirðingur en pabbi er Gaflari og ég var mikið hjá ömmu og afa í Svöluhrauninu þegar ég var lítil.“

Það sem henni finnst best við Hafnarfjörðinn er nálægðin við allt, þá sérstaklega nálægðin við sjóinn. „Sjórinn er mér mjög mikilvægur og ég var í raun með sjó heimþrá þegar bjó í Þýskalandi,“ segir Katrín og hlær. Þá finnst henni æðislegt að geta gengið í hrauninu og uppáhaldsstaðurinn hennar í Hafnarfirði eru hraunin sem eru við Arnarhraun, þar sem hún hefur átt margar notalegar stundir og segir að þar sé sem dæmi frábært að horfa á norðurljósin.

Tónlist, jóga og göngur

Þegar kemur að áhugamálum segir Katrín að skartgripir og allt sem þeim tengist séu vissulega hennar helsta áhugamál en þá elskar hún líka að hlusta á góða tónlist.

„Ég fer líka töluvert í göngur, enda með hund sem þarf að viðra. Þá finnst mér mjög gott að gera jógaæfingar en það er mikilvægt fyrir mig í þessu starfi að passa vel upp á bakið. Þá fer ég líka gjarnan í tjaldútilegur á sumrin og nýt þess að vera í náttúrunni,“ segir Katrín að lokum.