Komdu með - ferðaskrifstofa

Hafnfirska ferðaskrifstofan Komdu með sérhæfir sig í að skipuleggja fjölbreyttar og skemmtilegar hópa- og árshátíðaferðir út fyrir landsteinana. Við hittum Þór Bæring Ólafsson einn eiganda Komdu með til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Komdu með ferðaskrifstofa sérhæfir sig í að skipuleggja fjölbreyttar og skemmtilegar hópa- og árshátíðaferðir út fyrir landsteinana.

Áralöng reynsla

Félagarnir Þór Bæring og Bragi Hinrik Magnússon hafa verið ansi lengi í ferðabransanum en voru í smá pásu þegar þeir ákváðu að stofna Komdu með árið 2019. „Okkur langaði til að vera með ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í árshátíðarferðum og öðrum hópaferðum sem og í ferðum á tónleika eða fótboltaleiki. Við vorum hins vegar nýkomnir í gang þegar Covid skall á svo það var lítið að gera á þeim tíma en eftir heimsfaraldurinn eru allir ákaflega ferðaþyrstir og við því verið á fullu að undanförnu,“ segir Þór sem er einmitt á leið til Möltu eftir nokkra daga og Bragi nú þegar farinn þangað til að leggja lokahönd á undirbúning árshátíðar þar fyrir rúmlega 300 manna hóp.

Fjölbreyttir hópar

Markmið Komdu með er fyrst og fremst að búa til góðar ferðir fyrir hópa sem geta verið af öllum stærðum og gerðum. „Við erum aðallega að vinna fyrir fyrirtæki en einnig kóra og ýmsa klúbba líkt og Kiwanis. Hóparnir eru því allt frá 10 manns upp í 630 manneskjur sem við fórum nýverið með til Split í Króatíu. Við sérsníðum þá ferðir fyrir hvern og einn hóp en við störfum með flestöllum flugfélögum ásamt félögum sem leigja flugvélar. Við bókum líka rútur og ýmsar skoðunarferðir en áfangastaðirnir eru ansi fjölbreyttir,“ segir Þór og bætir við að Berlín, Barcelona, Köben, Dublin og Brighton séu alltaf vinsælar borgir en ef hóparnir séu mjög stórir og um leiguflug sé um að ræða séu möguleikarnir vissulega mun fleiri.  

Varðandi ferðir á tónleika og á fótboltaleiki þá ákváðu þeir félagar að færa þær ferðir yfir til Tango Travel, sem þeir eiga líka hlut í, til að geta sjálfir einbeitt sér meira að stærri hópaferðum í gegnum Komdu með. Undirbúningstími ferða getur nefnilega verið allt að eitt ár og að mjög mörgu að huga.

Veglegar árshátíðarferðir

Komdu með hefur að undanförnu verið að vinna fyrir fyrirtæki sem vilja halda veglegar árshátíðir fyrir sitt starfsfólk í útlöndum enda féllu nokkrar árshátíðir niður í Covid og ferðaþörfin því orðin mikil. „Við tökum þá oftast að okkur að sjá um ferðina alveg frá A til Ö enda betra að fá sérfræðinga í málið í staðin fyrir að vera með eitthvað starfsfólk í þessu í langan tíma. Allt starfsfólkið getur þá líka notið ferðarinnar án þess að þurfa að vera að gera og græja í ferðinni sjálfri og hafa ef til vill einhverjar áhyggjur.“ Komdu með sér þá um að panta flug og hótel, finna hentugan stað fyrir árshátíðina, panta mat, tónlist, veislustjórn auk þess að sjá um fararstjórn og skipuleggja fjölbreytt úrval skoðunarferða, allt eftir óskum fyrirtækjanna um hvernig stemmningu þau vilja hafa.

Að sögn Þórs þá fara hann og Bragi oftast með í allar stærri ferðirnar og konur þeirra gjarnan líka enda vilja þeir hafa hátt og gott þjónustustig. Í þannig ferðum eru ef til vill um tíu til tólf skoðunarferðir í boði og sem dæmi mikilvægt að passa að allir komist í réttar rútur. „Við erum líka alltaf með góða samstarfsaðila á staðnum sem þekkja alla innviðina. Þá er mjög mikilvægt að vera með allt skipulagt í þaula. Í útlöndum er oftast mun erfiðara að reyna að redda hlutum á síðustu stundu, eitthvað sem gengur frekar upp hér heima,“ segir Þór og brosir.

Öflugt tengslanet og mikið um ferðalög

Eins og áður hefur komið fram eru Þór og Bragi búnir að vera í ferðageiranum í ansi mörg ár og eiga orðið afar öflugt tengslanet. „Við förum alltaf til Berlínar í mars og London í nóvember á stóru  ferðaráðstefnurnar til að fylgjast með því nýjasta sem er í boði og efla tengsl. Þá er líka flott ráðstefna í Barcelona sem er sérstaklega fyrir hópaferðir,“ segir Þór en starfinu fylgir vissulega mikið af ferðalögum. Hann segir að þeir félagarnir fari gjarnan á staðina áður til að skoða og sjá hvort þeir henti þeirra viðskiptavinum. Eftirspurnin eftir nýjum stöðum er alltaf að aukast og þeir verða því að vera vakandi og reyna að finna nýja og áhugaverða staði.

Þór og Bragi með samstarfskonum í Split

Forréttindi að búa til draumaferðir

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við starfið er Þór fljótur að svara og segir að það sé að vinna með svo mikið af skemmtilegu fólki og í raun séu það forréttindi að vera að búa til draumaferðir fyrir hópa. „Það er svo gaman að sjá og upplifa gleðina hjá fólki sem er í algjörri draumaferð á skemmtilegum og spennandi stöðum. Þá eru samstarfsaðilarnir svo fjölbreyttir hvort sem það eru skipuleggjendur erlendis, skemmtikraftar eða listafólk og þá fæ ég líka að kynnast menningu þjóða á annan hátt.“

Góð stemmning í bænum

Þór hefur búið í Hafnfirði frá árinu 2006 og segir að konan sín, sem er Hafnfirðingur, hafi ekki tekið annað í mál en að búa hér. Hann segist í dag vera ákaflega ánægður með það enda sé góð stemmning í bænum. „Hér fæ ég líka alla þá þjónustu sem ég þarf, sérstaklega síðustu ár þegar  veitingastöðum hefur verið að fjölga og starfsemin í Bæjarbíó alltaf að verða betri. Ég þarf því varla að fara til Reykjavíkur sem er mikill kostur. Svo eigum við Fjarðarkaup og ég er bara voða glaður með Hafnarfjörðinn,“ segir Þór sem segir að líklega sé Víðistaðatúnið uppáhaldsstaðurinn hans í bænum en þar hefur hann mikið verið með börnunum sínum tveimur.

Íþróttir og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum segist Þór fylgjast mikið með flestum íþróttum og horfi líka gjarnan á bæði börnin sín keppa í fótbolta. „Þá spila ég sjálfur blak með Blakfélagi Hafnarfjarðar sem er rosa skemmtilegt og ég fer einnig í hverri viku á Helgafellið. Ferðalög eru líka stórt áhugamál og því er svona skemmtilegt í vinnunni,“ segir Þór brosandi að lokum.