ION ráðgjöf

ION ráðgjöf veitir fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum ráðgjöf í upplýsingaöryggi og áhættustjórnun. Við hittum eigandann Jón Kristinn Ragnarsson til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

ION ráðgjöf veitir fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum ráðgjöf í upplýsingaöryggi og áhættustjórnun.

Mikil þörf fyrir ráðgjöf af þessu tagi

„Upplýsingaöryggi skiptir orðið mjög miklu máli fyrir flestalla rekstraraðila sem reiða sig á á einhvers konar gögn eða tölvukerfi. Kerfin geyma oft á tíðum mikilvægar upplýsingar og ef þær glatast getur orðið töluverður skaði. Því er mikilvægt að kortleggja áhætturnar, vita hvað geti gerst og takast síðan á við vandann út frá áhættunni,“ segir Jón Kristinn sem var búinn að vinna í upplýsingaöryggismálum til fjölda ára þegar hann ákvað í upphafi árs 2019 að fara út í sjálfstæðan rekstur.

Hann segir að þó að ákvörðunin um að gerast sjálfstæður hafi borið frekar bratt að þá vissi hann vel að það var mikil þörf fyrir þessa tegund ráðgjafar. Það var mikið upphlaup í kringum nýju persónuverndarlögin og mörgum aðilum vantaði aðstoð. „Ég vissi líka að ég hefði nálgun sem gæti virkað fyrir marga. Síðan fylgir því visst frelsi að vera sjálfstæður sérstaklega þar sem ég get í raun unnið hvaðan af úr heiminum og hef sem dæmi verið með skrifstofuna mína nokkra mánuði á Spáni.“

Aðspurður um nafn fyrirtækisins ION ráðgjöf segir hann að þetta sé bara Jón á ensku en einnig jákvætt hlaðið atóm og þegar vinkona hans stakk upp á þessu nafni var hann fljótur að stökkva til.

Fjölbreytt viðskiptasambönd

Helstu viðskiptavinir ION ráðgjafar eru smá og meðalstór fyrirtæki sem og sveitarfélög sem eru ekki komin langt í stýringu á áhættum og upplýsingaöryggi. Þau hafa hins vegar gert sér grein fyrir því að ef vissar upplýsingar eru ekki til staðar þá geta áhrifin verið mjög mikil.

Mottó ION ráðgjafar

Hann segir að viðskiptasamböndin séu mismunandi og hann geti aldrei verið að vinna fyrir mjög marga aðila í einu. „Þessa stundina er ég að sinna verkefnum fyrir sex aðila. Hjá sumum hef ég verið í langan tíma og er sem dæmi alltaf með fasta viðveru hjá þeim einu sinni í viku. Hjá öðrum kem ég inn til að aðstoða við ákveðið verkefni sem þarf að leysa. Sum fyrirtækin þekki ég því orðið vel og við tekist á við mörg vandamál saman,“ segir Jón Kristinn en flestir viðskiptavinirnir eru á höfuðborgarsvæðinu en nokkrir utan af landi. Hann segir að verandi sjálfur frá Ísafirði þá leitist hann gjarnan eftir því að vinna með fyrirtækjum af landsbyggðinni. Þar sé stundum erfitt að fá sérfræðiþjónustu en fjarskiptatæknin auðveldi það núna til muna.

Meta áhættu og vera undirbúin

Starf Jón Kristins fellst að miklu leiti í því að finna og meta áhættur. Hjálpa fyrirtækjum að greina hvað geti gerst, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að það gerist og vera viðbúin ef eitthvað slæmt gerist eins og að missa mikilvæg gögn.

„Ef við tökum sveitarfélag sem dæmi. Mikilvægt tölvukerfi er óvirkt. Hvað gerum við þá, hvernig getur starfsfólk leyst verkefnin sín ef það ekki til staðar? Hvað gerum við ef einhver brýst inn í tölvukerfið og stelur gögnum frá okkur? Hvað ef einhver hótar að opinbera trúnaðarupplýsingar sem við búum yfir? Það er mikilvægt að vera undirbúin fyrir svona atvik en helsta verkefnið er svo vissulega hvernig við getum minnkað líkurnar á því að eitthvað af þessu gerist. Ég aðstoða því mína viðskiptavini í að skilgreina stefnur og reglur til að vinna eftir í rekstri. Búa til vinnuferla og útlista hvernig eigi að gera hlutina.“

Persónuleg ráðgjöf og valdefling

Jón Kristinn segir að það skipti sig miklu máli að veita persónulega ráðgjöf og þjónustu . „Þegar ég vinn með þér þá erum við að vinna saman og það skiptir mig máli að þú náir árangri. Ég reyni því að hafa hlutina eins einfalda og mögulegt er og leysa vandamálið á sem auðveldastan og hagstæðastan máta. Í þessum bransa er nefnilega oft verið að flækja málin mikið. Það eru mörg flókin orð og skammstafanir en að mínu mati þarf þetta ekki að vera flókið,“ segir Jón Kristinn og bætir við að hann reyni líka að veita sínum viðskiptavinum visst sjálfsöryggi og skilja eftir þekkingu þannig að viðkomandi geti haldið áfram sjálfur með verkefnið.  

Skemmtilegast að leysa vandamál

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við starfið segir Jón Kristinn fljótt: „Að takast á við vandamál og finna lausnir. Ég starfa mikið með fyrirtækjum og stofnunum sem vilja gera betur og eru með metnað. Mér finnst ákaflega skemmtilegt að taka þátt í að uppfylla þann metnað.“

Þá segist hann líka verða að nefna frelsið sem fylgi svona starfi sem hægt sé að vinna hvaðan af úr heiminum.

Búinn að ganga allar götur bæjarins

Jón Kristinn er Ísfirðingur en hefur búið hér í Hafnarfirði í ellefu ár. Honum finnst gott að vera við sjóinn en það sem sé í raun best við Hafnarfjörðinn sé nálægðin við allt saman. „Ég bý hér í miðbænum og það er allt í göngufjarlægð hvort sem það sé bókasafnið, kaffihúsin eða náttúran. Ég geng líka mikið um bæinn og það er mér í raun keppnismál að ganga og uppgötva einhverja nýjar götur. Ég held að ég hafi því næstum gengið allar götur bæjarins og þekki hann því orðið nokkuð vel.“

Fastagestur á bókasafninu

Þegar kemur að áhugamálum nefnir Jón Kristinn strax samveru með dætrum sínum. Þá segist hann líka vera duglegur að hreyfa sig, bæði með því að ganga en lyfti líka lóðum. Hann er fastagestur á bókasafninu og hefur gaman að því að afla sé fróðleiks og læra eitthvað nýtt. „Ég les mikið og hlusta einnig á hljóðbækur og góða tónlist,“ segir Jón Kristinn að lokum.