Pipar og Salt

Pipar og Salt, sem margir þekkja af Klapparstígnum, flutti í Hafnarfjörðinn árið 2021. Verslunin er með úrval af vönduðum nytsamlegum vörum fyrir heimilið. Við hittum Margréti Helgu Skúladóttur framkvæmdastjóra til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Pipar og Salt, sem margir þekkja af Klapparstígnum, flutti í Hafnarfjörðinn árið 2021.

Verslunin er með úrval af vönduðum nytsamlegum vörum fyrir heimilið.

Flutningur í Hafnarfjörðinn

Pipar og Salt rekur sögu sína allt aftur til ársins 1987 þegar hjónin Sigríður Þorvarðardóttir og Paul Newton opnuðu verslunina á neðri hæðinni í húsinu sínu við Klapparstíg í miðbæ Reykjavíkur. Þau urðu fljótlega þekkt fyrir sérhæfðar kokka- og matreiðsluvörur, sænsku vinylmotturnar, fallegar jólavörur og margt fleira.

„Sigríður og Paul eru foreldrar Önnu Kristínar vinkonu minnar sem ákvað að kaupa verslunina af foreldrum sínum árið 2021. Pipar og Salt lokaði á Klapparstígnum árið 2015 en hafði verið starfandi sem netverslun í sex ár þar sem Sigríður tímdi ekki að hætta alveg og láta vinsælustu vörurnar af hendi. Anna Kristín var ekki heldur tilbúin að sleppa tökunum af versluninni þarna um haustið 2021 og fékk mig því með sér í lið til að sjá um daglegan rekstur,“ segir Margrét en verslunin er í dag aðallega á netinu en alla jafna með opið seinnipartinn á miðvikudögum við Hvaleyrarbraut.

Rótgrónar skandinavískar gæðavörur

Pipar og Salt býður eins og endranær upp á valdar vörur fyrir heimilið þar sem áhersla er lögð á gæði og skandinavíska hönnun. „Við erum enn með vinsælu sænsku motturnar og finnsku textílvörurnar. Trévörurnar frá Svíþjóð eru einnig á sínum stað, litlu fuglarnir og jóla- og páskavörurnar sem margir þekkja af Klapparstígnum,“ segir Margrét og bætir við að allar þessar vörur séu frá rótgrónum gæðamerkjum.

Nýjar nytsamlegar vörur

Þær vinkonur hafa farið tvisvar á vörusýningar síðan þær tóku við og komið með nokkrar nýjar og spennandi vörur. „Við viljum gjarnan vera með fallegar, gæðavörur sem eru nytsamlegar fyrir heimilið og tókst að finna nokkrar þannig á sýningunum. Finnski borðtuskuhaldarinn okkar hefur slegið í gegn og margir að kaupa uppvöskunargrind í bústaðinn. Þá fundum við flott danskt merki í skemmtilegum retro stíl og erum með veggklukkur, hraðsuðukatla, brauðkassa og vökvunarkönnur frá þeim,“ segir Margrét. Þá byrjuðu þær að selja danskar LED luktir síðasta sumar sem eru úr dufthúðuðu stáli og má bæði nota inni og úti.

Motturnar vinsælastar

Þegar Margrét er spurð að því hvað sé vinsælasta varan hjá Pipar og Salt er hún fljót að nefna motturnar. „Þetta er svo frábær vara sem hefur verið vinsæl í mörg ár. Við erum með svakalega breytt úrval, margar eru litríkar og skemmtilegar en aðrar látlausar og klassískar. Sumum má snúa við og fá þá öðruvísi mynstur og liti. Motturnar eru mjög vinsælar í eldhús og á langa ganga enda hægt að fá þær upp í fjögurra metra lengd. Þá eru margir farnir að nota þær úti á palli, í gróðurhúsin eða á svalirnar. Helsti kosturinn er þó líklega að það er svo auðvelt að þrífa þær og það má setja þær í þvottavél á 30 gráður. Fólk á motturnar því í mörg ár og þær alltaf eins og nýjar.“ Hún bætir við að þá sé einnig mögulegt að sérpanta mottur í stórum stærðum.

Miðvikudagsopnun og pop-up

Eins og áður kom fram er Pipar og Salt aðallega netverslun en er þó alla jafna með opna verslun seinnipartinn á miðvikudögum. „Við erum með lagerinn okkar á efri hæðinni á Hvaleyrarbraut 27 og á miðvikudögum tökum við upp úr kössum og stillum vörum upp fyrir þá sem vilja skoða vörur betur og versla á staðnum. Það er þá opið á milli kl. 17:00 og 18:30 og ég ítreka að við erum á efri hæðinni og því þarf að keyra upp fyrir húsið,“ segir Margrét brosir og segir að þær ætli líka að vera með páskaopnun laugardaginn 25. mars frá kl. 11:00 til 15:00.

Margrét og Anna Kristín eru líka duglegar að skella upp verslun á hinum og þessum stöðum. „Við erum oft með nokkurs konar pop-up. Vorum í Jólaþorpinu núna í desember og skelltum upp tjaldi á Thorsplani þegar það var kvennakvöld í miðbænum í haust. Síðasta sumar vorum við á markaði í Mosfellsdalnum og á hátíðinni Kátt í Kjós og ég fór líka með motturnar alla leiðina á Djúpavog. Þá vorum við líka með opið einn laugardag fyrir jól í stofunni hjá Sigríði á Klapparstígnum, eitthvað sem hún hafði alltaf gert eftir að búðin lokaði og þangað koma ávallt mörg kunnugleg andlit.“    

Aðspurð um það hvort standi til að opna verslun í framtíðinni segir Margrét að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi ef þær detti niður á rétta húsnæðið. „Við erum allavega opnar fyrir því og þá helst hér í Hafnarfirði enda búum við báðar hér.“

Skemmtilegar sögur

Það skemmtilegasta við starfið er að mati Margrétar fjölbreytileikinn og það að vera umvafinn fallegum vörum og hlutum. „Það er gaman að selja fallegar vörur og þjónusta ánægða viðskiptavini. Við fáum líka svo oft góð ummæli og viðskiptavini sem hafa haldið tryggð við verslunina til margra ára. Það er því ósjaldan sem við heyrum einhverjar skemmtilegar sögur tengdar Klapparstígnum, eitthvað sem er sérstaklega ánægjulegt og nærandi fyrir Önnu að heyra.“

Margrét segir að það sé líka frábært að fara með vinkonu sinni á sýningar og upplifa það sem er að gerast í hönnunarheiminum. Þær tvær eigi líka afar gott samstarf en þó Margrét sjái um daglegan rekstur taki þær allar stórar ákvarðanir í sameiningu. Þá sé Sigríður þeim líka enn oft innan handar og þær biðji ósjaldan um hennar álit.

Miðbærinn, mannlíf og höfnin

Margrét hefur búið í Hafnarfirðinum í tæp 20 ár og segir að það besta við bæinn sé miðbæjarbragurinn. „Ég hafði áður búið í miðbæ Reykjavíkur en fannst í lagi að flytja hingað því hér er mínímiðbær. Ég vil getað labbað á kaffihús og hafa mannlíf í kringum mig. Þá er höfnin mér líka mikilvæg en ég er alin upp á Djúpavogi og sjórinn og sólarlagið nærir mig.“  

Margrét segir það líka dásamlegt að hafa Hvaleyrarvatnið og Helgarfellið í næsta nágrenni en þangað fer hún mikið með hundinn sinn. Þá er VON Mathús í miklu uppáhaldi og gaman að geta rölt þangað.

Prjón, garðvinna, ferðlög og tónleikar

Þegar kemur að áhugamálum segir Margrét að þau séu smá árstíðarbundin. „Á veturna prjóna ég mikið, aðallega peysur og vettlinga, en á sumrin finnst mér æðislegt að dunda mér í garðinum og fara í göngur. Þá hef ég stundað jóga í mörg ár, bæði sem hug- og líkamsrækt, en tek stundum pásu frá því.“

Þá finnst henni æðislegt að ferðast, bæði hér innanlands eða til útlanda. „Ég er alltaf til í að fara eitthvað og við Anna dálítið verið að ferðast saman að undanförnu með eiginmönnum okkar. Þá hlustum við gjarnan mikið á tónlist og förum á tónleika,“ segir Margrét að lokum.