Hundurinn.is

Vefverslunin Hundurinn selur hágæðavörur fyrir hunda af öllum stærðum og gerðum. Við hittum eigandann Elmu Cates til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Vefverslunin Hundurinn selur hágæðavörur fyrir hunda af öllum stærðum og gerðum.

Heillaðist af vörunum

Elma hefur átt hunda í um 35 ár og er hundaræktandi og þjálfar þá einnig fyrir hlýðnipróf. Fyrir um 15 árum kynntist hún vörum frá bandaríska merkinu Ruffwear og varð strax mjög heilluð. „Þetta eru hágæðavörur sem uppfylla öll skilyrði varðandi öryggi. Þær eru alltaf eins milli ára, upplitast ekki eða verða snjáðar og ljótar. Dóttir mín er sem dæmi að nota taum sem ég keypti árið 2008 og hann lítur enn vel út, reyndar búið að sauma hann einu sinni eftir að hundur nagaði hluta hans í sundur,“ segir Elma og brosir.

Hún ákvað því eftir langa íhugun að fara að flytja þessar vörur inn til Íslands árið 2019, stofna vefverslun og gerast umboðsaðili.

Fjölbreytt framboð

Hundaföt, beisli, hálsólar, taumar, bakpokar, skór, bæli, kælivörur, leikföng og öryggisljós eru meðal þess sem fæst í vefversluninni. „Vöruframboðið hjá Ruffwear er svo fjölbreytt, þeir hugsa fyrir öllu og eru með margar tegundir af búnaði. Hvort sem fólk er að fara að ganga með hundana niður í bæ eða upp á fjöll. Við erum sem dæmi með svefnpoka fyrir hunda sem henta vel í útilegur en veiðimenn nota líka mikið þegar hundarnir eru kaldir eftir að hafa verið í vatni. Þá erum við líka með kælivesti sem hægt er að bleyta í næsta læk og setja síðan yfir hundinn sem er búinn að hamast mikið. Það kemur þá í veg fyrir að þeir ofhitni.“

Elma segir að þá séu hálsólar og taumar líka til í mjög mörgum litum og beislin séu ákaflega vönduð og sterk. Þá er hún afar ánægð með að allar smellur séu ávallt undir efni svo þær erti ekki hundana.

Blindrafélagið og Hundabjörgunarsveitin kaupa vörur

Að sögn Elmu vinna tugir manna við þróun á vörum hjá Ruffwear og þeir með töluvert framboð á vörum sem henta ýmsum fötluðum einstaklingum en einnig sérþjálfuðum hundum. „Það er ýmislegt í pípunum hjá mér þessa dagana en bæði Blindrafélagið og Hundabjörgunarsveitin vilja fá vörur frá mér. Endurskinsvestin eru þar á meðal sem og nokkrar vörur sem henta vel í björgunarstörf svo sem sigbeisli með afar mikla toggetu og hægt er að nota ef það þarf sem dæmi að hýfa hund upp og niður úr þyrlu,“ segir Elma og er greinilega ánægð með að geta útvegað þessum félögum hágæðavörur.

Ný baðdæla sem sparar tíma

Nýverið hóf Hundurinn að selja svokallaða baðdælu sem hefur ekki verið fáanleg hér á landi áður. Helsti kostur dælunnar er að það þarf bæði lítið af vatni og sjampói þar sem um vissa hringrás er að ræða og sama vatnið notað aftur og aftur. „Það kemur mjög öflug buna út úr dælunni og því er óþarfi að nudda feldinn og þvotturinn tekur því mun minni tíma. Ég var sem dæmi alltaf hátt í 30 mínútur að baða síðhærðu Afgan Hound hundana mína en nú tekur það ekki nema um fimm mínútur,“ segir Elma ánægð.

Sérvaldar verslanir

Flestar vörur sem fást í vefversluninni má einnig fá í nokkrum sérvöldum verslunum. „Ég vil ekki vera með mínar vörur í stórmörkuðum þar sem ég tel nauðsynlegt að fagaðilar veiti þjónustu og ráðgjöf í kaupunum. Í dag fást þær því á fjórum stöðum en það er í Litlu Gæludýrabúðinni hér í Hafnarfirði, í Líflandi, hjá dýralæknum við Rauðalæk á Hellu og í Heiðarsporti á Selfossi.“

Skemmtilegast að hitta hunda og eigendur þeirra

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Elma að það sé að geta boðið fólki upp á þessa gæðavörur sem hún viti að muni endast til margra ára. „Þá er ákaflega gaman að fá að hitta ólíka hunda og eigendur þeirra en ég keyri mikið út vörur hér á höfuðborgarsvæðinu. Þá finnst mér einnig gott að geta þjónustað fólk á landsbyggðinni við að setja vörur til þeirra í póst eftir að hafa ef til vill veitt þeim þjónustu í gegnum vefinn eða í síma.“

Hafnarfjörðurinn hjartastaður Íslands

Elma er fædd og uppalin hér í Hafnarfirði og segir að Hafnarfjörður sé hjartastaður Íslands. „Ég hef verið töluvert á ferðalögum í gegnum tíðina en finn alltaf að hér í Hafnarfirði líður mér best.“

Hellisgerði og Hamarinn eru í miklu uppáhaldi. „Hamarinn var leiksvæðið okkar krakkanna þegar ég var lítil, dásamlegur staður, útsýnið stórkostlegt og þar er líka fullt af felustöðum. Í dag fer ég gjarnan með barnabörnin mín, sem eru orðin 17 talsins, í Hellisgerði eða upp á Hamar,“ segir Elma og brosir.

Hún bætir við að þá þyki henni líka gaman að ganga í kringum Lækinn, þar sé svo mikið og fallegt fuglalífið. Henni finnst bærinn líka vera ákaflega vel snyrtur og er hrifin af hjörtunum fallegu þar sem barnabörnin vilja gjarnan fá að taka myndir.

Hundar, hestar, sveitin, prjón ofl.

Þegar kemur að áhugamálum þá eru það vissulega hundar en einnig hestar. „Það er líka mjög skemmtilegt að fara með fósturbörnin þrjú og barnabörnin í bústaðinn okkar, þá eru hundarnir og hestarnir með í för þar sem við erum með stórt land.“

Elma segist líka mála töluvert af akrýlmyndum en notar gjarnan olíu og eld og fær þá vissa áferð á myndirnar. Hún segist líka prjóna heilmikið og var með fatalínu í Rammagerðinni fyrir nokkrum árum. „Ég seldi þá sjöl, kjóla og peysur undir mínu nafni en síðan varð þetta bara orðið of mikið að ég ákvað að hætta. Núna prjóna ég aðallega vettlinga og sokka á barnabörnin,“ segir Elma að lokum.