Járnlist

Járnlist á Breiðhellu er ákaflega vel búið fræsivélum og rennibekkjum og smíðar mikið af íhlutum. Við hittum eigandann Karl Lund til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Járnlist á Breiðhellu er ákaflega vel búið fræsivélum og rennibekkjum og smíðar mikið af íhlutum.

Á Breiðhellu frá upphafi

Járnlist hefur verið starfandi frá árinu 2015 en þá var Karl, sem er vélvirkjameistari, búinn að vinna í nokkuð mörg ár í geiranum og vildi gjarnan fara í sjálfstæðan rekstur. „Ég fékk strax nokkra viðskiptavini en ég var líka að taka smá séns, sem ég sé alls ekki eftir í dag,“ segir Karl og bætir við að ánægðir viðskiptavinir séu besta auglýsingin. „Ég legg mig líka fram við að veita góða þjónustu og að redda hlutum á sem bestan og þægilegasta máta.“

Verkstæðið, sem hefur allt frá upphafi verið í húsnæðinu á Breiðhellu, er vel búið fræsivélum og rennibekkjum og tekur að sér alla almenna járnsmíði en er einnig í ýmissi sérsmíði og  fjöldaframleiðslu. Þá er Karl töluvert í CAD teiknivinnu og hönnun.

Önnur verkstæði í viðskiptum

Þegar Karl er spurður um helstu viðskiptavini þá segir hann þá vera marga en hann vinni einna mest fyrir önnur iðnfyrirtæki og jafnvel aðrar járnsmiðjur. „Ég er með vissar vélar sem önnur verkstæði eru ekki með og þau koma þá til mín með ákveðin verkefni. Ég smíða sem dæmi mikið fóðringar, legufóðringar, skipti út íhlutum í færiböndum og var nýverið að klára að smíða 1000 stykki af litlum töppum fyrir stóla.“ 

Mikilvægt að finna lausnir

Karl segir að mikilvægur hluti starfsins sé að finna lausnir. „Hingað koma oft aðilar með einhver brotin eða bogin stykki sem þarf að laga á sem einfaldastan máta. Þá vantar stundum varahluti í vélar eða tæki, sem erfitt er að fá eða biðtíminn of langur. Það var mikið um það í Covid og ég smíðaði því ýmsa varahluti á þeim tíma og í raun má segja að það hafi aldrei verið eins mikið að gera og þá.“

Fylgist vel með allri þróun

Aðspurður um sérstöðu Járnlistar segir Karl að það séu vissulega vélarnar og hans hugvit. „Ég er mjög áhugasamur og fylgist vel með því sem er að gerast í þessum geira. Það er mikil þróun á vélum og teikniforritin eru reglulega uppfærð. Ég horfi mikið á ýmis myndbönd og kynningar til að halda mér á tánum og vera samkeppnishæfur,“ segir Karl sem keypti nýja fræsivél á síðasta ári og er með markmið um að endurnýja rennibekkinn áður en langt um líður.

Fjölskyldufyrirtæki

Járnlist er fjölskyldufyrirtæki að því leiti að mamma Karls sér um bókhaldið og faðir hans þrífur oftast verkstæðið um helgar. „Hluti stórfjölskyldunnar kom einnig að því að finna nafn á fyrirtækið á sínum tíma. Mamma bauð í lambalæri og ís og þegar allir voru orðnir mettir rifum við upp orðabókina og létum hugann reika. Þá kom nafnið Járnlist upp og allir sammældust um að það væri flott. Ég vildi hafa nafnið einfalt og létt og Vélsmiðja Karls Lunds kom alls ekki til greina,“ segir Karl og brosir.

Fjölbreytileikinn skemmtilegastur

Fjölbreytileikinn er það skemmtilegasta við starfið að sögn Karls. „Dagarnir verða oft öðruvísi en ég held og það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég ætli að hætta snemma en þá dettur eitthvað akút verkefni inn og ég vinn langt fram á nótt. En það eru samt oft þannig verkefni sem eru skemmtileg, að þurfa að leysa einhver vandamál og finna lausnir. Mér finnst þetta áhugaverður heimur og það að fylgjast vel með drífur mann áfram.“

Líflegt iðnaðarsvæði

Karl er ákaflega sáttur við að vera með fyrirtækið sitt á Breiðhellu en hann keypti húsnæðið strax árið 2015. „Þetta er ákaflega líflegt iðnaðarsvæði, flestar mínar efnissölur eru nálægt og það hefur orðið mikil jákvæð breyting undanfarin ár. Ég vona að Hafnarfjörður hlúi vel að svæðinu í framtíðinni og hingað komi enn fleiri flott fyrirtæki sem munu skapa atvinnu í framtíðinni,“ segir Karl sem býr ekki í Hafnarfirði en segist sækja ýmsa þjónustu í bæinn.

„Ég fer reglulega á Kænuna og þegar ég er búinn að skila af mér góðu verki skrepp ég gjarnan á Vesturbæjarís og nýt þess að keyra um þennan fallega bæ.“

Heimilið, hundurinn og Willis

Þegar Karl er ekki í vinnunni þá segist hann oft vera að dytta að ýmsu heima fyrir til að halda húsinu sínu fínu. „Þá fer ég líka mikið út að ganga með hundinn minn og hef gaman að því að þjálfa hann upp. Það hefur gengið það vel að frænka mín, sem er sálfræðingur, hefur fengið hann lánaðan til að hjálpa fólki sem er hrætt við hunda.“

Þá segist Karl eiga gamlan Willis jeppa sem hann hafi keypt fyrir nokkrum árum og ætli sér að gera upp. „Þetta var gamall draumur og þegar ég sá Willis frá mínu fæðingarári til sölu stóðst ég ekki freistinguna og keypti hann. Nú þarf ég bara að finna tíma til að gera hann glæsilegan að nýju,“ segir Karl að lokum.