Faðmur jógastúdíó

Faðmur jógastúdíó í St Jó sérhæfir sig í jóga fyrir verðandi og nýbakaðar mæður ásamt endurnærandi jógatímum fyrir þreytta foreldra. Við hittum eigandann Jenný Maggý Rúriksdóttur til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Faðmur jógastúdíó í St Jó sérhæfir sig í jóga fyrir verðandi og nýbakaðar mæður ásamt endurnærandi jógatímum fyrir þreytta foreldra.

Stundað jóga í mörg ár

„Ég hef haft áhuga á jóga í mjög mörg ár og stundað það reglulega. Var meðal annars í meðgöngujóga þegar ég var ófrísk sem gerði mér mjög gott. Eftir að hafa átt þrjú börn ákvað ég því árið 2019 að fara í jóganám, í raun bara fyrir sjálfa mig,“ segir Jenný.

Hún komst hins vegar fljótt að því að hún vildi kenna jóga, miðla áfram öllu því sem hún hafði lært. Þá fannst henni einnig að það vantaði meira framboð hér í Hafnarfirði, þá sérstaklega þegar kom að meðgöngujóga. Jenný ákvað því að bæta við sig meðgöngujóganámi og hóf síðan samstarf við stöllurnar í Yogahúsinu í St Jó og sér nú um meðgöngu og mömmuhlutann í þeirra framboði.

Faðmar að sér foreldra

Markmiðið hjá Faðmi jógastúdíó er að faðma að sér foreldra og fólk á barneignaraldri með nærandi tímum. Framboðið er því nokkuð fjölbreytt og verður ef til vill enn víðtækara í framtíðinni. „Núna er ég með meðgöngujóga tvisvar í viku, meðgöngusund þrisvar í viku, þá er mömmujóga námskeið tvisvar til þrisvar á önn og svokallað Restorative jóga námskeið einu sinni til tvisvar á önn. Þá er ég reglulega með svokallaða kvennahringi og að bæta við dáleiðslutímum. Ég er líka að þróa vissa paratíma og tíma fyrir fólk sem er að kljást við frjósemisvanda. Það er því ýmislegt spennandi í gangi og allt gert til að faðma fólk að sér á þessum mikilvæga en jafnframt krefjandi tíma,“ segir Jenný og brosir.

Jóga styrkir hugann

Að sögn Jennýjar er ávinningur þess að stunda meðgöngujóga fyrir barnshafandi konur afar mikill. Það gefur þeim styrk til að takast á við fæðinguna og komandi tíma bæði andlega og líkamlega. Í hverjum tíma eru gerðar ljúfar en kröftugar æfingar en hugleiðsla, slökun, fræðsla og öndunaræfingar eru einnig mikilvægur þáttur. „Við gerum sársaukann að vini okkar, setjumst til að mynda á tærnar, sem er ekki þægilegt, til að styrkja hugann, aukum áræðni og stefnum á að koma inn í fæðinguna með hugsunina ég get þetta.“

Sundið styrkir

Eftir að hafa kennt meðgöngujóga í tæpt ár byrjaði Jenný árið 2021 með meðgöngusund í Suðurbæjarlauginni sem fékk strax mjög góðar viðtökur. „Í sundinu er meiri áhersla á líkamlega heilsu. Við gerum æfingar fyrir djúpu kviðvöðvana og grindarbotninn sem er sérlega mikilvægt á meðgöngunni og hjálpar til við endurheimt eftir fæðingu. Ég kenni líka öndunaræfingar sem henta vel í fæðingu. Þá er alltaf slökun í lokin eins og í meðgöngujóga, en slökun er í raun mikilvægasta staðan á meðgöngu og við sleppum henni því aldrei.“

Fyrst um sinn var meðgöngusund í boði einu sinni í viku en nú er hægt að velja um þrjá tíma í viku. Flestir mæta einu sinni til tvisvar í viku og kaupa þá nokkrar vikur í senn.

Undirbúningur fæðingar

Bæði meðgöngujóga og meðgöngusund er ákaflega góður undirbúningur fyrir fæðingu. En Jenný hefur einnig verið að bjóða upp á svokallaða Kvennahringi. „Þetta er í raun einföld aðferð þar sem við einfaldlega sitjum í hring og spjöllum. Bæði fáum við tækifæri til að tala um það sem okkur liggur á hjarta og að hlusta á hinar konurnar segja frá upplifun þeirra. Ef umræðuefnið er sem dæmi meðganga getur þemað verið líðan á meðgöngu, stuðningur maka á meðgöngu og svo framvegis. Þetta eru alltaf ákaflega góðar og gefandi stundir,“ segir Jenný og bætir við að þá sé hún einnig nýbyrjuð á því að veita dáleiðslumeðferð í tengslum við fæðingu og meðgöngu sem hjálpar til við að draga úr kvíða, stjórna sársauka og stuðla að ró í líkama og huga í fæðingunni.

Næring fyrir þreytta foreldra

Nýbakaðar mæður eru líka velkomnar í Faðm jógastúdíó í mömmujógatíma. Þangað koma margar konur sem voru áður í meðgöngujóga eða meðgöngusundi hjá Jenný en líka ný andlit. Þar er lögð sérstök áhersla á að koma grindarbotninum í lag en líka gerðar skemmtilegar æfingar með barninu sem fær einnig nudd og þá er gjarnan dansað og sungið.

Þreyttir foreldrar geta þá einnig mætt í svokallað Restorative jóga þar sem áhersla er lögð á að róa taugakerfið og ná í orku eitthvað sem er að sögn Jennýjar sérstaklega gott fyrir vansvefta og þreytta foreldra.

Gefandi að geta hjálpað 

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við starfið segir Jenný að það sé að hitta allar dásamlegu konurnar og litlu krílin þeirra. „Það að eiga samskipti við fólk og geta hjálpað því bæði líkamlega og andlega á þessum krefjandi tíma er ákaflega gefandi.“ Hún bætir við að þá sé líka gaman að læra eitthvað nýtt og hún sé stöðugt að bæta við þig enn meiri þekkingu til að geta miðlað henni áfram og gert faðminn enn betri.

Suðurgatan frábær

Jenný hefur nánast alla tíð búið á Suðurgötunni.  Þar ólst hún upp og býr þar í dag aðeins nokkrum húsum frá æskuheimilinu þar sem foreldrar hennar búa enn. „Suðurgatan er frábær og dásamlegt að geta gengið í vinnuna hér í St Jó og í Suðurbæjarlaugina.“

Það sem Jenný finnst annars best við Hafnarfjörð er hversu lítið og samheldið samfélagið er. Hafnarfjörður er að hennar mati lítið bæjarfélag með stórborgarbrag. „Hér er allt í alls, gott að ala upp börn og nálægðin við mömmu og pabba og tengdó er líka mikils virði. Ég er gift Hafnfirðingi, við vorum bæði í Öldutúnsskóla og held að við eigum alltaf eftir að eiga heima hér, nema að við flytjum aftur til útlanda, þá líklega aftur til Frakklands,“ segir Jenný og glottir.  

Frakkland, hestar og fjölskyldan

Þegar kemur að áhugamálum þá elskar Jenný Frakkland og frönsku. Hún segist ekki vita almennilega hvaðan sá áhugi komi. „Ég var kannski frönsk í fyrra lífi. Ég valdi allavega frönsku í Flensborg og fannst hún alltaf mjög skemmtileg. Hef líka tvisvar farið í málaskóla til Frakklands og búið þar í nokkra mánuði hverju sinni og núna nota ég Duo Lingo til að halda frönskunni við.“      

Þá finnst Jenný líka ótrúlega gaman að fara á hestbak en hún átti einn gamlan hest í sveitinni hjá frænku sinni sem lítil stelpa og vinnur í dag að markaðsmálum hjá hestaþjónustufyrirtæki. „Annars eru samverustundir með fjölskyldunni mér ákaflega mikilvægar og nóg að gera á stóru heimili,“ segir Jenný að lokum.