SVART hönnunarstofa

Hjá Svart hönnunarstofu í Fornubúðum á sköpunargleðin sér engin takmörk. Við hittum eigandann og grafíska hönnuðinn Ólöfu Erlu Einarsdóttur til að kynnast rekstrinum. 

Fyrirtæki vikunnar

Hjá Svart hönnunarstofu í Fornubúðum á sköpunargleðin sér engin takmörk.

Dreymdi um að reka eigið fyrirtæki

Hönnunarstofan var stofnuð þann 1. ágúst árið 2017 en þá var Ólöf búin að vinna til fjölda ára við auglýsingahönnun, markaðssetningu og myndvinnslu m.a. hjá RÚV og Nova en dreymdi alltaf um að vera með sitt eigið fyrirtæki. „Það tók mig nokkuð langan tíma að þora en árið 2017 fann ég að ég var tilbúin og tók loksins skrefið. Ég hafði þá lengi verið að vinna í nokkrum verkefnum meðfram vinnu og því strax með einhverja örugga viðskiptavini sem hjálpaði vissulega mikið til í ákvörðunartökunni,“ segir Ólöf.

Svart í uppáhaldi

Þegar kom að því að gefa stofunni nafn kom svart strax upp í hugann og sú hugmynd vildi alls ekki fara. „Svart er uppáhaldsliturinn minn og líka grunnlitur í öllu prenti og hann er bara í öllu í raun og veru. Ég er sjálf alltaf í svörtu og vildi eiga fyrirtæki sem heitir Svart, sitja við svart borð á svörtum stól og vinna hugmyndir og pæla.“ Svart hönnunarstofa varð því niðurstaðan og Ólöf alsæl með nafnið.

Hönnun, myndataka, auglýsingagerð ofl.

Hjá Svart er unnið allt frá hugmyndavinnu til lokaafurðar og því fellst m.a. hönnun, myndataka, myndvinnsla, auglýsingagerð, mynd- og myndbandavinnsla, hreyfimyndagerð, sjónvarps-og vefauglýsingar, skiltagerð og umbrot á bæklingum og geisladiskum. Þá tekur Svart einnig að sér viðburðahönnun, sviðsgrafík og í raun vinnslu alls markaðsefnis.

„Myndataka og myndvinnsla er að mínu mati gríðar mikilvæg þegar kemur að auglýsingavinnslu og ég er því með mitt eigið stúdíó og tek mikið af myndum. Segi stundum að ég sé listakona með myndavél þar sem ég tek líka mikið af myndum fyrir mín eigin myndlistarverk. Ég smelli af og fer síðan og vinn myndirnar í tölvunni, pússla þar oft mörgum myndum saman,“ segir Ólöf og brosir.

Sigga Beinteins, Friðrik Ómar og Páll Óskar

Svart hefur á undanförnum árum unnið töluvert fyrir tónlistarmenn en að sögn Ólafar má að vissu leyti rekja upphafið að því samstarfi til myndlistarverka hennar sem sýna mikla ævintýraveröld sem hún nýtti líka að vissu leiti í starfi sínu á RÚV og vöktu þar athygli.

„Á RÚV kynntist ég líka töluvert af tónlistarfólki sérstaklega í tengslum við vinnu mína fyrir Söngvakeppnina og Eurovision. Þar vann ég mikið í grafík á sviðinu og fékk meðal annars þann heiður að vera partur af atriðinu hennar Gretu Salóme í Eurovision 2016 en sviðsgrafíkin þar var sannkallað listaverk unnið af flottum hópi. Það árið fékk ég því einnig að fara með á keppnina og upplifa hana beint í æð en ég elska Eurovision sérstaklega alla flottu grafíkina,“ segir Ólöf.

Undanfarin ár hefur hún því mikið unnið með Siggu Beinteins og Friðriki Ómari en einnig Páli Óskari, Heru Björk, Eyþóri Inga og Dimmu. „Það er ótrúlega gaman að vinna með tónlistarfólki. Með því fær maður að skína og gera villtar og skemmtilegar hugmyndir. Sköpunargleðin á sér þá engin takmörk, kannski sérstaklega þegar maður vinnur með Páli Óskari,“ segir Ólöf og hlær.

Hún nefnir að þegar hún er að vinna með Siggu Beinteins sem dæmi að jólatónleikum hennar er það í hennar höndum að hanna allt þema og útlit í kringum tónleikana. Hún tekur allar myndir, gerir auglýsingar fyrir vef og sjónvarp, hannar aðgöngumiðana en einnig alla grafík á sviðinu sem breytist oft fyrir hvert einasta lag. Þetta sé því vissulega mikil vinna og mikilvægt að skipuleggja sig vel.


Bæklingar, umbúðahönnun, vörumerki ofl

Verkefni Svart eru annars mjög fjölbreytt og þegar okkur bar að garði lágu fyrir verkefni fyrir Flensborgarskóla og hönnun á nýjum umbúðum á vistvænum garðáburði. „Ég hef unnið fyrir ótrúlega mörg fyrirtæki og má þá kannski helst nefna nágranna mína í Sign en einnig Lyfju, Fréttablaðið, LS Retail og Stálvík. Ég hef í raun aldrei auglýst þjónustu mína heldur eru það bara ánægðir viðskiptavinir sem eru mín besta auglýsing og þá detta alltaf inn ný og ný verkefni.“

Vinnur við það sem hún elskar

Aðspurð hvað sé skemmtilegast við starfið er Ólöf fljót að nefna hversu fjölbreytt það sé. Hún vinni við það sem hún elski, sem séu mikil forréttindi. „Ég er listakona og hönnuður og vinnan er því einhvern veginn miklu meira en starfið mitt. Hún er einhvern vegin bara ég og fyrir hana er ég ákaflega þakklát.“ Þá segir Ólöf að það sé líka mjög skemmtilegt að byrja á einhverju og vita ekki alveg hvernig það muni enda en sjá verkið síðan klárast.

Komin heim í Hafnarfjörðinn

Fyrstu tvö ár ævi sinnar bjó Ólöf í Hafnarfirði en var líka mikið hér alla sína barnæsku. „Afi og amma byggðu Mosabarð 12 og þar var ég mjög mikið, fannst alltaf gott að koma þangað. Afi minn var annars Konni sem vann í Dröfn í 40 ár og líklega kannast margir Hafnfirðingar við hann.“

Hönnunarstofan flutti í Hafnarfjörðinn árið 2019 en þá hafði Ólöf verið að vinna mikið með Inga í Sign og þegar rýmið á móti honum í Fornubúðum var laust var hún ekki lengi að hoppa á það. „Mér fannst strax frá upphafi frábært að vinna hér, dásamlegt útsýni og einhver góður andi og ófáir viðskiptavinir eru yfir sig hrifnir þegar þeir koma hingað til mín. Þegar við hjónin vorum að leita okkur að nýju húsnæði árið 2021 kom þá einhvern veginn ekkert annað til greina en að flytja í Hafnarfjörðinn,“ segir Ólöf og bætir við að henni finnist hún núna vera búin að átta sig á hvar hún eigi í raun heima og það sé í Hafnarfirðinum.

„Ég elska jólabæinn, VON og Litla Gallerý. Hér er líka einhvern veginn allt til alls og stutt í allt sem er frábært.“

Málar, gengur og les í tarotspil

Þegar kemur að áhugamálum segist Ólöf vera dugleg að mála og teikna. Fjallgöngur og hlaup séu líka eitthvað sem veiti henni orku og nefnir í því samhengi að gott sé að hafa fallega náttúru hér við bæjarmörkin eins og Helgafellið, Ástjörnina og Hvaleyrarvatn.

Að lokum nefnir Ólöf að þá sé hún líka smá norn í sér og lesi gjarnan í tarotspil og trúi á orkuna í heiminum. „Mín trú er náttúran, ástin, fjölskyldan og vináttan,“ segir Ólöf brosandi að lokum.