Síðasti stjórnarfundur ársins

Stjórn markaðsstofunnar kom saman þann 2. desember síðastliðinn.

Ljóst er að engar breytingar verða gerðar á samning okkar við Hafnarfjarðarbæ, eins og óskað var eftir. Stjórn veitti formanni leyfi til að undirrita nýjan eins árs samning en fara jafnframt fram á að hann verði endurskoðaður sem allra fyrst eftir sveitastjórnarkosningar.

Verkefnastjóri Hafnarfjarðarbæjar kynnti stöðu á fyrirhugaðri stofnun Áfangastaða- og markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Stjórnin var á einu máli að verkefni hennar skarist alls ekki við okkar starf enda áherslubreytingar gerðar við undirritun samnings fyrir tveimur árum. Áhersla markaðsstofunnar er nú á atvinnulífið í Hafnarfirði og ferðamálin færðust nær alfarið yfir til bæjarins.

Fjárhagsáætlun

Framkvæmdastjóri kynnti uppfærða fjárhagsáætlun miðað við óbreyttan samning við Hafnarfjarðarbæ. Gert er ráð fyrir áframhaldandi aukningu aðildarfélaga í takt við það sem hefur verið að gerast undanfarna mánuði. Fjárhagsáætlun samþykkt.

Dagskrá vorsins

Farið yfir drög að dagskrá vorsins sem verið er að leggja lokahönd á þessa dagana. Í henni verður að finna námskeið, fyrirtækjaheimsóknir, einyrkjakaffi sem og hvatningarverðlaunarhátíð. Ákveðið að kynna dagskrána á fyrstu dögum nýs árs.

Jólaherferð og jólafrí

Lýst var yfir ánægju með nýju herferðina um hafnfirskar jólagjafir en á næstu vikum verður lögð áhersla á að hvetja Hafnfirðinga sem og aðra til að gera jólainnkaupin í bænum okkar.  

Að lokum var samþykkt að skrifstofa markaðsstofunnar verði lokuð frá 20. desember til 4. janúar.