Aukinn sýnileiki og 25 ný aðildarfyrirtæki

Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar var haldinn þann 8. júní síðastliðinn á Apótekinu í Hafnarborg.  

Aukinn sýnileiki og 25 ný aðildarfyrirtæki

Á fundinum fór Thelma Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri markaðsstofunnar yfir starfsemina undanfarið ár. Mikil áhersla hefur verið lögð á sýnileika sem hefur skilað sér í 400% aukningu á heimsóknum á vefsíðu stofunnar sem og aukinni umferð á samfélagsmiðlum. Þá hafa 25 ný aðildarfyrirtæki skráð sig í markaðsstofuna á liðnu starfsári. Á vormánuðum fór stjórn stofunnar í ítarlegt stefnumótunarferli sem lýkur með haustinu.

Breytingar í rekstri

Ársreikningur fyrir árið 2020 sem og fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 voru kynnt af Erni H. Magnússyni, varaformanni þar sem fram kom að breytingar hafi orðið á rekstri stofunnar í kjölfar lægra framlags Hafnarfjarðarbæjar og að dregið hafi verið úr rekstrargjöldum til að bregðast við því. Á sama tíma hafa tekjur af aðildargjöldum aukist með fjölgun fyrirtækja í stofunni.

Nýr samningur og tekjumódel

Starfsáætlun næsta árs var kynnt af framkvæmdastjóra sem nefndi að áfram verði lögð áhersla á sýnileika stofunnar og unnið í að fjölga aðildarfélögum, auk þess sem boðið verður upp á hagnýt námskeið, einyrkjakaffi og fyrirtækjaheimsóknir. Unnið verður að endurnýjun samnings við Hafnarfjarðarbæ í lok ársins sem og úr stefnumótunarferli stjórnar, meðal annars með áherslu á nýtt tekjumódel fyrir stofuna.

Stjórn óbreytt

Að þessu sinni var kosið um tvö stjórnarsæti og eitt sæti varamanns til tveggja ára. Örn H. Magnússon varaformaður stjórnar og Anna Jórunn Ólafsdóttir gjaldkeri gáfu aftur kost á sér sem og Olga Björt Þórðardóttir varamaður. Þau voru öll sjálfkjörin þar sem engin annar bauð sig fram.

Í stjórn sitja áfram úr atvinnulífinu Sigríður Margrét Jónsdóttir og Jóhann Davíð Barðarson.

Fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar sitja í stjórn Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Sjálfstæðisflokki, Anna Karen Svövudóttir, Framsókn og óháðir og Arnbjörn Ólafsson, Bæjarlistanum.

 

Fundarstjóri var Sigríður Margrét Jónsdóttir og fundarritari Arnbjörn Ólafsson.

Hér að neðan má skoða glærur fundarins um skýrslu stjórnar og framkvæmdaáætlun 2021-2022.

Myndir af fundinum tók Olga Björt Þórðardóttir.

Previous
Previous

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar

Next
Next

Enn fjölgar aðildarfyrirtækjum